Marietta

Vesturfarar

Árið 1943 birti Almanakið í Winnipeg grein eftir Margréti Jónsdóttur, betur þekkta sem Margrét J. Benedictsson. Greinin Marietta er í þáttaröðinni Safn til Landnámssögu Íslendinga í Vesturheimi.  Skoðum nú ritgerð Margrétar:

,,Marietta er smábær að norðan verðu Bellingham fjörðinn, og rétt á móti Bellingham í Whatcom Country í Washington. Bærinn sjálfur liggur lágt í olnboga þar sem áin Nooksack fellur í fjörðinn. Að austan hækkar landið og þar uppi búa landar. Af hæðinni er útsýni gott og á kvöldin einkar skemtilegt að horfa yfir fjörðinn til Bellingham, sem blasir við á móti í allri sinni ljósadýrð. Ljósakeðjur – svo sýnist það -liggja upp og niður og þvers um Seahome hæðina. Þar eru og oftast stór og smá skip af ýmsum tegundum á firðinum öll upplýst. Skamt frá Marietta eru kolanámur meira og minna starfræktar allan ársins tíma. Fáir landar, ef nokkrir, hafa unnið í námum þessum. Aftur á móti hafa margir landar á ýmsum tímum unnið að laxveiðum með góðum árangri. Sumir áttu báta og veiðarfæri og veiddu upp á eigin spýtur og seldu feng sinn á niðursuðuhús eða fiskmarkað. Nú eru fáir, ef nokkrir, landar við þesskonar vinnu í Marietta, því þeir, sem það gerðu, eru ýmist farnir, dánir, eða svo aldraðir að heima-vinnan er meira en nóg. Yngri kynslóðin tekur annað fyrir. Fjöldi af löndum, sem einu sinni var í Marietta, hefir fyrir löngu síðan flutt á brott þaðan. Sumir til Blaine og hefir þar verið getið. Sumir eitthvað út í buskann, og verður nú ekki til þeirra náð.“

Félagslíf 

,,Félagslíf hefir aldrei verið mikið meðal Íslendinga í Marietta. Þeir, sem félagslyndir eru eða hafa verið, hafa fylgst með Bellingham Íslendingum, sótt samkomur þeirra og líklega margir staðið í Lestrarfélaginu Kári, sem getið er í Bellingham þætti. Útisamkomur Bellingham Íslendinga voru oft haldnar í Marietta og studdu Marietta Íslendingar þær með ráði og dáði. Bellingham og Marietta Íslendingar sóttu oft samkomur landa sinna í Blaine, sem Blaine landar endurguldu á sama hátt, þá um eitthvað sérstakt var að ræða, og hefir þannig hvorum verið styrkur að öðrum, auk ánægjunnar af að sýna sig og sjá aðra, – koma saman sem landar. Sama sagan, þrátt fyrir skoðanamun á hvaða sviði sem er. Í þessu litla þorpi hafa Íslendingar verið veröld út af fyrir sig – einkum eldra fólkið – nágrannar og vinir – samlandar – sem enginn félagakritur náði til – af því þar voru engin félög. Allir samhentir þegar til þurfti að taka. Alt sjálfstætt fjárhagslega, og bezta fólk.“