Margrét Jónsdóttir, betur þekkt sem Margrét J. Benedictsson skrifaði fjölmarga þætti í Almanakið um Íslendinga í Vesturheimi. Einn slíkur er ÍSLENDINGAR Á KYRRHAFSSTRÖNDINNI. Árið 1925 kom grein úr þessum þætti um Point Roberts í Washington. Gefum Margréi orðið.
POINT ROBERTS
,,Í norðvesturhorninu á Bandaríkjunum er landblettur eigi allstór, sem Point Roberts heitir. Tangi þessi er í Whatcom County í ríkinu Washington, um 3 mílur á lengd og frá einni til tvær mílur á breidd. Hann er landfastur við Canada, en aðskilinn frá öllu landi Bandaríkjamegin. Næsta kauptún við Point Roberts er Ladner – smábær Canadamegin, hér um bil tíu mílur frá pósthúsinu. Þangað hefði því verið eðlilegast að tangabúar hefðu sótt nauðsynjar sínar, en vegna tollalaganna var það ekki hægt. Þeir urðu því að sækja vörur sínar til Blaine, sem er næsti bær Bandaríkjamegin. En þangað eru 14 mílur og yfir fjörð að fara, sem heitir Boundary Bay. Á fyrstu árunum fóru bændur þangað á smábátum. Eftir að reglulegar póstferðir komust þrisvar í viku, batnaði mikið hagur þeirra. Landleiðin frá Point Roberts til Blaine er um 36 mílur og öll farin, eða því næst, Canadamegin.“
Landlýsing: ,,Point Roberts er ávalur hryggur, hæstur að austan og hallar lítið eitt vestur að sjó. Suðvestan á tanganum er láglendi nokkuð – lítið eða ekki yfir sjávarmál, þar sem það er lægst. Fyrir framan það er malarkambur, sem sjórinn hefir smám saman hlaðið upp, og sem til skams tíma varði láglendið að mestu fyrir ágangi sjávar. En kringum árið 1912 braut kambinn í stórflóðum og óvanalega miklum veðrum og flæddi þá yfir meginið af þessu láglendi, svo afnot þess eyðilögðust um tveggja eða þriggja ára bil. Gerðu bændur þá flóðgarð allmikinn meðfram strandlengjunni, þar sem hún er lægst, og hefir hann varið lönd þeirra skemmdum síðan. Verk þetta kostaði ærið fé, sem héraðsstjórnin lagði fram í bráðina, en bændur urðu síðan að borga að einhverju eða öllu leyti, og mun því nú lokið að mestu eða öllu. Að austan verðu rís tanginn hátt yfir sjó. Er þar sæbratt mjög og ilt yfirferðar. Meðan bygðin var ung og vegleysur einar, fóru austur-byggjar mest eftir fjörunni. En til þess að komast niður að sjónum, gerðu þeir stiga. Er einn stiginn enn við líði og kallaður „99 trappa stiginn“. Er hann á landi Helga Þorsteinssonar, sem síðar er getið. Má nærri geta, hve erfitt hefir verið að bera nauðsynjar allar upp og ofan þessa stiga. Nú eru komnir akvegir góðir fram og aftur um allan tangann, og fjöruferðirnar því lagst niður – nema til gamans. Stiga þessum er nú haldið við fremur sem minja- en nauðsynjagrip, til minningar um þann tíma er hann var eina leiðin. Í sambandi við þetta vil eg taka það fram, að skógurinn á öllu þessu svæði var svo mikill og þéttur, að hann var með öllu ókleifur. Þess vegna urðu menn að nota fjöruna til ferðalaga, þangað til vegir voru ruddir gegnum skógana.“
Útsýni: ,,Útsýnið frá þessari hlið tangans er framúrskarandi fagurt og tilkomumikið – eftir því fegurra sem austar dregur og hæðin verður meiri. Sér þaðan yfir eyjar og sund á hinum fagra firði eða innsævi, sem einu nafni nefnist Pugit Sound. Margar af eyjum þessum eru all-háar. Inni milli þeirra er skipaleiðin norður og suður með ströndum, og sjást skipin vel frá tanganum, hvaðan sem er. Til vesturs sést suðurhluti Vancouver-eyjunnar í björtu veðri. Til austurs og suðausturs á meginlandinu blasa við Catscillfjöllin. Hæst í þeim fjallaklasa gnæfir Mt.Baker. Frá honum hallast norður og suður með ótal tindum og skörðum. En niður frá þeim fjallgarði er öldótt hallandi undirlendi alla leið í sjó fram. Til norðurs eru Vancouver-fjöllin, há og hrikaleg. Sumir hæstu hnúkarnir á þeim meira og minna snækrýndir. Til suðurs og suðvesturs liggja eyjarnar, sem fyr var á minst. – Útsýnið frá Point Roberts er því eins tilkomimikið og fjölbreytt eins og framast má verða. Snjókrýnd fjöll, breytilegt undirlendi og eyjar. Og það sem sízt má gleymast, sjórinn, fullur af laxi og ýmsum öðrum fiski, sem gengið hefir upp í landsteina. Sú var og tíðin að fjörðurinn var til að sjá eins og stórborg, þegar dragnetabátarnir voru allir búnir að kveikja á kvöldin, seinni part sumars og fram eftir haustinu, þar sem þeir lágu við laxveiðina. Það er því engin furða, þó að Íslendingum litist bjargvænlega á þennan litla blett; enda hefir þeim farnast vel. En miklir voru örðugleikarnir og mörg handtökin, sem taka þurfti, áður en jörðin fór að gefa þeim lifibrauð. Nú er þessi litla bygð ein af búsælustu og fegurstu sveitum Íslendinga á Kyrrahafsströndinni.“
Íslenskt landnám
,,Landnám Íslendinga á Point Roberts hófst árið 1893. Þá voru nokkrir Íslendingar í Bellingham og víðar á ströndinni. Upprunalega var til þess ætlast af Bandaríkjastjórninni, að tangi þessi væri herstöð. Stjórninni var því allt annað í hug en að gefa hann til landnáms. Þegar Íslendingar fyrst komu þangað, voru nokkrir hérlendir menn fyrir – sumir með fjölskyldur, aðrir einsetumenn. Hafði fólk þetta holað sér niður hér og þar innan um blindskóginn. Á vesturhlið tangans var og er verzlun og pósthús; einnig skóli og samkomuhús, sem hérlendir menn og Íslendingar eiga í félagi. Þetta fólk, sem hér var fyrir, hefir að líkindum ekki búið að vera hér lengi og sennilega ekki búist við að ílengjast. Eitt er víst að verk þeirra voru lítil, aðeins lélegir bjálkakofar og í einstöku tilfellum ofurlítið rjóður hreinsuð í kringum kofana. Þegar Íslendingar komu og föluðu að þeim löndin, var þeim sýnilega laust í hendi tilkall sitt til þeirra. Um eigna-rétt var ekki að ræða. Þeir seldu því aðkomumönnum verk sín og framrétt til landsins. Það mun því rétt að flestir eða allr íslenzku frumbygjarnir hafi orðið að borga eitthvað fyrir lönd sín, jafnvel þó þeir hefðu enga vissu fyrir að fá að njóta þeirra. Þegar í öndverðri tíð þeirra þar, tóku þeir að senda bænaskrár til Washington um gjöf á þessu héraði til landnáms. Og þó stjórnin daufheyrðist við bænum þeirra, unnu þeir engu að síður að jarðabótum, bygðu sér heimili og bjuggu um sig að öllu, eins og þeir byggjust við að eyða þar æfidögum sínum, og senda bænaskrá eftir bænaskrá. Þar kom loks, að stjórnin sendi mann nokkurn, Elliot að nafni, til þess að rannsaka málið. Þessi maður reyndist nýlendubúum vel, og árið 1908 var tanginn gefinn til landnáms, og sátu þeir þá fyrir, sem þar voru búnir að búa um sig.“
Félagslíf
,,Félagslíf tangabúa er og hefir æfinlega verið gott. Elzta félag þeirra mun vera Lestrarfélagið. Í því standa flestar hinar eldri fjölskyldur og nokkrar hinna yngri. Bókasafnið er allstórt og vel hirt. Þá er söfnuður, lúterskur. Í honum eru og margir, og hinir hlynna að honum með því að sækja samkomur þær, sem haldnar eru honum til arðs. Nú á söfnuðurinn kirkju, laglegt hús og nægilega stórt. Var unnið að því í nokkur ár að safna peningum til að byggja hana, og þá fyrst í það ráðist, er peningar voru til að byggja skuldlaust, eða því sem næst. Salómonsfólkið, sem síðar er getið, gaf lóð undir húsið á mjög hentugum stað. Á Point Roberts er nokkuð af annara þjóða fólki, eins og áður er sagt, fyrir utan fiski- og niðursuðufélögin, sem altaf hafa þar heimilisfast fólk fleira og færra. En þetta fólk hefir aldrei haft neinn innbyrðis félagsskap með sér svo nokkru nemi. Það sækir því samkomur Íslendinga. Sumt af þessu fólki hefir og sótt messur hjá Íslendingum. og hafa prestarnir þess vegna messað við og við á ensku. Í héraðsstjórn allri hafa Íslendingar tekið fullan þátt. Standa þeir hvergi að baki samborgurum sínum, og eru virtir af þeim eins og þeir eiga skilið.“
Atvinnuvegir: ,,Vera má að fiskisældin kringum tangann hafi átt nokkurn þátt í að heilla hugi manna þangað. Enda hefir hún orðið flestum féþúfa, sem þar hafa búið, á einn eða annan hátt, einkum fyrstu árin, og það jafnvel fram á þennan dag. Enda þótt atvinnuvegur sá hafi tekið allmiklum breytingum frá því sem var. Fyrst veiddu margir laxinn upp á eigin spítur – höfðu sína eigin útgerð, báta og net og annað er til þess þurfti, og seldi hann þar sem bezt lét. En snemma settust tvö félög að á tanganum, annað að vestan, hitt að austan. Félög þessi voru Alaska Packers Association – A.P.A., eins eins og það er í daglegu tali nefnt, og George & Barker Salmon Packing Co. Óx þessum félögum brátt svo ásmegin, að þau eyðilögðu á fáum árum veiðitilraunir einstaklinga. Aftur höfðu þau fjölda fólks í þjónustu sinni, sérstaklega meðan laxinn var handpakkaður. Þá pakkaði kvenfólkið í könnurnar og félögin borguðu 2 til 3 cents á „kreitina“ – eða hverjar 24 könnur. Unnu stúlkur þá sér inn frá $5.00 til $10.00 á dag, þegar unnið var allann daginn. Karlmenn vöktu nætur og daga yfir laxagildrunum. En aðrir fóru á milli þeirra á gufubátum, tóku fiskinn úr þeim og fluttu hann á land. Þar tóku aðrir við honum, gerðu hann til og köstuðu honum í skurðarvélarnar, sem stykkjuðu hann í hæfilegar stærðir fyrir laxkönnurnar. …..Af þessu, sem hér er sagt, er auðsætt, að atvinnuvegir voru lífvænlegir og áttu sinn þátt í að koma fótum undir frumbyggjana á Point Roberts, þar sem allir vinnufærir menn og konur höfðu sæmilega atvinnu – kvenfólk frá 8 til 10 vikur og karlmenn 6 til 8 mánuði. Karlmenn byrjuðu snemma á vorin að reka niður staura þá, sem laxagildrurnar voru festar á, en urðu svo að draga þá alla upp aftur að haustinu, þegar vertíðinni lauk. Nú er handpökkun búin með öllu og kvenfólk sést þar ekki framar nema mjög fátt, og þá annaðhvort við matreiðslu eða tímavinnu.“