Wisconsin er eitt af miðvesturríkjum Bandaríkjanna og varð eitt ríkja þess árið 1848. Nafnið er úr svokölluðu Algonquianmáli indjánþjóðar sem bjó á svæðinu sem seinna var Wisconsin þegar landkönnuðir frá Evrópu fóru þar fyrst um. Frakkinn Jacques Marquette (1673) var fyrstur til að komast að Wisconsin ánni og nefndi fljótið Meskousing í dagbók sinni. Landar hans breyttu stafsetningunni og skrifuðu Ouisconsin og var það lengi notað bæði sem nafn árinnar og svæðisins frá bökkum hennar. Snemma á 19. öld, þegar breskir landkönnuðir og landnemar streymdu inn á svæðið breyttist stafsetningin í Wisconsin. Merking upprunalega orðsins er glötuð en ein kenning segir að þetta sé sama orð og Meskonsing sem merkir ,,rauðlitað,, og mun hér átt við rauðlitaðan sandstein þar sem Wisconsin rennur um á einum stað. Aðrar skýringar telja orðið komið úr máli Ojibwa indjánaþjóðarinnar sem merkir ,,staður rauðsteina“.
Lega ríkisins – landnám hefst: Vestan við Wisconsin er Minnesota og Iowa, Illinois sunnan við, Michiganvatn austan megin og Michigan norðaustan. Miklavatn er svo norðan megin. Höfuðborgin er Madinson en Milwaukee stærst. Franskir landkönnuðir komu að norðan frá frönsku yfirráðasvæði í Austur-Kanada. Leið þeirra var um stóru vötnin og komu margir að landi þar sem nú er Green Bay. Áhugi þeirra var fyrst og fremst skinnaverslun og sama má reyndar segja um Breta sem náðu yfirráðum í Wisconsin 1783. Franskir skinnakaupmenn settust samt að, kusu það frekar en hverfa norður yfir landamærin til Kanada þar sem Bretar höfðu öll völd. Landið út frá Green Bay var smám saman skipulagt og skinnakaupmenn, franskir og breskir settust þar að. Frá 1763 til 1780 var samfélagið þar blómlegt og friðsælt. Árið 1783 varð Wisconsin bandarískt hérað en Bretar réðu samt ríkjum þar til ársins 1812 þegar þeir misstu völd eftir styrjöldina. Bandaríkjamenn hurfu fljótlega frá skinnaverslun og sneru sér að námugreftri. Áhugi innflytjenda á tækifærum í Wisconsin óx og sstreymdu innflytjendur á svæðið frá Evrópu svo og ýmsum ríkjum Bandaríkjanna. Þessi mikli vöxtur hvítra innflytjenda leiddi til ófriðar við indjánaþjóðir, tvö stríð við þær, önnur árið 1827 og hin 1832 leiddu til brottflutnings frumbyggja frá Wisconsin sem hraktir voru vestur á bóginn. Í kjölfarið lýsti Bandaríkjaþing með lögum 20. apríl, 1836, Wisconsin vera í einu og öllu bandarískt landsvæði. Strax um haustið höfðu fjölmargir bændur frá Nýja Englandi numið lönd í blómlegum sveitum umhverfis Milwaukee. Þorp og bæir sáu dagsins ljós og um sama leyti komu fjölmargir Þjóðverjar og Norðmenn til Wisconsin. Á árunum 1840-1850 óx íbúafjöldinn úr rúmlega 30.000 í rúm 300.000 þúsund. Það var svo 29. maí, 1848 að Wisconsin varð ríki í Bandaríkjunum.
Danir og Íslendingar: Um miðja 19. öld höfðu fjölmargir Danir tekið Mormónatrú og flutt til Utah í Bandaríkjunum. Umræðan um vesturfarir urðu talsverðar í Danmörku um það leyti og þá hófust líka vangaveltur á Íslandi um brottflutninga. Árið 1860 eru um 1100 Danir sestir að í Wisconsin og eru ýmsar skýringar á því. Ríkið bauð innflytjendum ýmsa kosti m.a. þann að loftslag og jarðnæði hentaði sérstaklega bændum sem stunda vildu kvikfjárrækt og reka mjólkurbú. Slíkur búskapur hentaði dönskum bændum sem gengu á lagið og dreifðust nokkuð um ríkið. Fregnir af þessu bárust til Íslands og voru eðlilega ræddar. Á Eyrarbakka starfaði danskur verslunarþjónn, Wilhelm Wickmann en systir hans hafði einmitt flutt til Wisconsin en hún var gift ræðismanni Dana í Milwaukee. Segir sagan að hún hafi skrifað bróður sínum og hvatt hann til að flytja vestur þangað sem hann gerði haustið 1865. Wilhelm skrifaðist á við Guðmund Thorgrímsen kaupmann á Eyrarbakka og lýsti staðháttum í Wisconsin og taldi til ýmsa kosti ríkisins m.a. fiskveiðar í Michiganvatni. Minna fór fyrir lýsingum hans á afrekum landa sinna í Wisconsin en fjöldi Dana var orðinn nokkur þúsund um 1870 (8.797 í manntali 1880). Vinsældir Dana á Íslandi um 1870 voru ekki miklar og einhverjar afrekssögur af þeim í Wisconsin svo og fjöldi, hefði ef til vill dregið úr löngum fyrstu vesturfaranna að sleppa úr klóm þeirra á Íslandi en æða svo í gin þeirra í Wisconsin. Fyrstir Íslendinga til að flytja vestur til Wisconsin voru Jón Gíslason, Guðmundur Guðmundsson, Árni Guðmundsson og Jón Einarsson. Þeir kynntu sér vel lýsingar Wilhelms í bréfunum til Guðmundar á Eyrarbakka og réðu þær mestu um ákvörðunina að fara vestur. Þá munu hann og Jón Gíslason hafa rætt möguleika á einhvers konar samstarfi þegar Jón kæmi vestur. Fjórmenningarnir fóru vestur árið 1870, dvöldu sumarlangt í Milwaukee en fluttu um haustið út í Washingtoneyju (Sjá þar meira um þá). Enginn þeirra leitaði lags við danska innflytjendur og sama má segja um næstu vesturfara sem til Wisconsin fóru á árunum 1870-1873.
Norðmenn: Vesturfaratímabilið hefst árið 1825 í Noregi og því áttu Norðmenn mun lengri sögu vestra en aðrir Norðulandabúar. Þeir skipta sögu sinni í Vesturheimi í þrjú tímabil: 1825-1860 er Norska tímabilið 1860-1890 kalla þeir Norsk-Ameríska tímabilið og 1890-1925 er Ameríska tímabilið. Á því fyrsta lögðu Norðmenn áherslu á eigið tungumál og norsk gildi. Á næsta skeiði verða þeir jafnmiklir Bandaríkjamenn og Norðmenn. Þá töluðu þeir ensk jafnmikið og norsku, fylgdust af sama kappi með viðburðum í Bandaríkjunum og Noregi, flögguðu jafnt bandaríska og norska fánanum og héldu af sama ákafa upp á þjóðhátíðardag Norðmanna 17. maí og bandaríska þjóðhátíðardaginn 4. júlí. Síðast talda tímbilið einkennist af bandarískum gildum, norskur uppruni nánast að hverfa. Enska töluð jafnt á norskum heimilum og í bandaríks-norsku samfélagi, prestar syngja messur á ensku og norskum uppruna sjaldnast getið, kynslóðin fædd og uppalin í Bandaríkjunum. Íslendingarnir í Wisconsin kynnast norskum landnemum á Norsk-Ameríska tímabilinu og þótti sumum norskir frændur hafa vaxið nokkuð mikið frá norskum gildum, upprunanum í Noregi. Aðrir hrifust augljóslega af árangri Norðmanna vestra og töldu leið þeirra til betra lífs í framandi landi vera til eftirbreytni. Besta dæmið er Páll Þorláksson (sjá hann) sem vestur fór árið 1872. Hann gaf sér tíma til að kynnast norskum landnemum átti reyndar norsk tengsl því afi hans í móðurætt var norskur. Páll fór með norskum prestum til hinna ýmsu norsku byggða og heillaðist af því sem fyrir augu hans bar. Hann skrifaði ritstjóra Norðanfara bréf 23. janúar, 1873 sem birt var í blaðinu. Þar segir Páll segir m.a. ,,Merkilegt er það, að þessi liðug 30 ár, sem fólksflutningar hafa verið frá Noregi (í stórum stíl), þá virðist Noregur standa jafn réttur og áður, og segjast Norðmenn hér verða bráðum eins margir í Bandaríkunum sem í Noregi sjálfum. Þenna stutta tíma hafa Norðmenn hér í ríkjunum framkvæmt ótrúlega mikið. Þeir hafa smátt og smátt dregið sig samen, hafa myndað söfnuði, reist kirkjur og barnaskóla, stofnað kirkjufélög og latínuskóla sem kallast “Luter College“, og kostaði hann hina norsku söfnuði 87.000 dollara. Sjálfir borga þeir allan kostnaðinn….Bezt mun fyrir þá, sem hingað koma, einkum Íslendinga, að fara ekki strax að spila upp á eigin spýtur, heldur bera sig að læra sem flest í byrjuninni af því, sem nytsamlegt er..“
Norsk aðstoð: Skilaboð Páls til landa sinna heima á Íslandi voru skýr: hann hvetur alla til að kynna sér vel ný og framandi vinnubrögð. Páll lét ekki þar við sitja, hann undirbjó komu landa sinna til Wisconsin með því að semja við norska bændur um að vista hjá sér nýkomna Íslendinga einhvern tíma svo þeir mættu læra ný vinnugbrögð og fleira nauðsynlegt í Vesturheimi. Skoðum hvað hann segir um þetta í öðru bréfi til Norðanfara 18. október, 1873 en þá voru komnir vestur til Wisconsin 135 Íslendingar. Þar segist hann hafa fylgt nokkrum fjölskyldum út á landið og segir svo:“ Þegar við komum þangað, var tekið við okkur tveim höndum af Norðmönnum, er sögðu okkur að presturinn sinn hefði beðið þá fyrir það af stólnum, að taka vel á móti Íslendingum ef þá bæri að garði. Bændur komu og sóttu hver sína fjölskyldu…Þótt mér lítist mjög val á þetta norska fólk, sem landar þessir komust til…. Þykir mér þó ekki von, að þeim líki alt eða kunni við sig undir eins, strax á meðan þeir eru ókunnugir og skilja ekki málið til hlítar. Fleiri íslenzkar fjölskyldur hafa farið út í norsku söfnuðina og nokkrir lausamenn, en enn sem komið er hefi eg svo sem ekkert heyrt frá þeim. Það þykist eg þó vita, að þeim farnist betur úti á landinu, en hefðu þeir sezt að í borgunum t.d. Milwaukee. Nú skrifar einn prestur mér frá Wisconsin (Páll var þarna staddur í St. Louis) að þær þrjár fjölskyldur, sem í sínum söfnuði séu, kunni vel við sig.“ Ári síðar voru allmargir Íslendingar þessir sestir að í lítilli, íslenskri nýlendu í Shawano sýslu norðarlega í Wisconsin en nokkrir unnu áfram hjá norskum bændum og fluttu þaðan seinna vestur til Minnesota.