Washingtoneyja

Vesturfarar

Washingtoneyja er fremur lítil eyja um 10 km norðaustur af ,,Dyrtanga“ (Door Peninsula) sem skagar út í Michiganvatn frá Wisconsin. Eyjan er um 8 km breið og 10 km löng eða rúmlega 60 ferkílómetrar en aðrar eyjar þar nærri eru talsvert smærri. Franskir landkönnuðir nefndu sundið milli Eyjunnar og meginlandsins “Dauðansdyr“ Death’s Door vegna þess að fjölmörg skip og bátar höfðu farist í ofsaveðrum á sundinu. Frumbyggjaþjóðir munu hafa verið á eyjunum á vatninu á sumrin en elsta nafn sem þekkist á Washingtoneyju, ,,Wassekiganeso“ er úr máli Ojibwa og merkir ,,brjóst hans skín“ og er dregið af sólargeislum sem endurkastast af ljósu sandsteinsbelti á eyjunni. Annað nafn, sem festist lengur, 1650-1816,  var Potawatomi Island, dregið af nafni Potawatomi þjóðarinnar,sem hreiðraði um sig á eyjunum. Önnur nöfn þekkast svo sem Huroneyjar og Noqueteyjar. Það var svo sumarið 1816 að John nokkur Miller, flotaforingi í Bandaríkjaher fór fyrir flota nokkurra skipa frá Green Bay, sigldi út flóann og út á vatnið. Skip hans, Washington, var stærst og hraðskreiðast svo meðan hann beið hinna í vari við í vík á eyjunni fékk víkin nafnið Washington Harbor í höfuðið á forsetanum og heitir það enn. Skipverjar notuðu tækifærið og könnuðu eyjuna, sáu aðrar smærri og gáfu þeim nöfn. Þegar borgastyrjöldinni lauk í Bandaríkjunum 1865 fóru fiskimenn að venja komur sínar í eyjuna, reistu kofa og dvöldu sumarlangt. Um 1870 hefst landnám, fáeinir þýskir, norskir og danskir landnemar setjast að, velja land og byrja að höggva tré og runna svo hefja megi búskap. Svona var ástandið síðsumars þegar Jón Gíslason og Wilhelm Wickmann fluttu þangað og keyptu lönd.

Þetta hús var kallað ,,Icelandic Castle“ eða Íslenski kastalinn á Washingtoneyju. Þar bjuggu nýkomnir Íslendingar einhvern tíma á meðan þeir komu yfir sig þaki. Mynd WIA

Íslenskt landnám:  Wilhelm Wickmann fæddist í Kaupmannahöfn árið 1834 og ólst þar upp. Hann hlaut þar menntun og vinnu sem leiddi til Íslandsferðar. Hvaða ár hann sigldi veit höfundur (JÞ) ekki en árið 1857 er Fritz William Virkmann nokkur skráður assistant í verslun Guðmundar Thorgrimsen á Eyrarbakka og gera verður ráð fyrir því að um einn og sama manninn sé að ræða. Hann er síðan viðloðandi Eyrarbakka til ársins 1864, nafn hans tekur nokkrum breytingum á tímabilinu því hann er skráður Fritz Wichmann árið 1862 og Fritz Vichmann árið 1864. Trúlega hefur hann siglt það ár til Danmerkur til að undirbúa vesturför en hann fór vestur til systur sinnar sem búsett var í Wisconsin og var kominn til Milwaukee í apríl, 1865.  Honum var bersýnilega hlýtt til Guðmundar, sem hann seinna sagði hafa verið sérstaklega vel metinn um allt Suðurland. Sennilega hefur Guðmundur haft áhuga á áformum Wilhelm að flytja vestur um haf og óskað eftir upplýsingum frá honum. Wilhelm sendir lýsingar af því sem fyrir augu bar og eins það sem hann las og kynnti sér. Bréf Wickmann voru lesin á Eyrarbakka og áttu augljóslega sinn þátt í því að 12. maí, 1870 lögðu þrír ungir menn af stað til Reykjavíkur þar sem póstskipið Díana var í höfn en það var á leið til Kaupmannahafnar. Þessir þrír ungu menn voru Jón Gíslason, Guðmundur Guðmundsson og Árni Guðmundsson. Í Reykjavík bættist svo Jón Einarsson í hópinn. (Sjá meira um þá). Þeir lögðu af stað frá höfn 3. júní, sigldu til Quebec og svo þaðan með lest til Milwaukee og voru þangað komnir 27. júní. Wickmann beið þeirra þar og kom þeim öllum í vinnu,  tveir við veiðar hinir hjá bændum nærri borginni en um haustið foru þeir svo allir til Washingtoneyju. Þar keyptu Wickmann og Jón Gíslason land af írskum manni á $400 dollara sem var með 1500 feta langa strönd í Detroit Harbor. Fjórmenningarnir komu sér fyrir og voru í eynni yfir veturinn. Á næstu árum fjölgaði Íslendingum smám saman en aldrei varð þar íslensk nýlenda, þegar mest var (um 1900) höfðu 25 íslenskir landnámsmenn sest þar að og af þeim voru 20 með fasta búsetu. Af þessum 20 munu 14 hafa stundað búskap, aðrir stunduðu fiskveiðar, kaupmennsku og járnsmíði. Það sem einkennir þetta íslenska landnám er fyrst og fremst sátt og samlyndi við landnámsmenn af öðrum uppruna. Íslendingarnir voru of fáir til að mynda söfnuð í staðinn voru þeir meðlimir í ,,Scandinavian Lutheran Congregation“. Þá var engin tilraun gerð með íslenskt blað eða íslenskan félagsskap af einhverju tagi. Það var ljóst frá upphafi að Íslendingar sættu sig við að vera þátttakendur í mótun stærra samfálags, hinnar bandarísku þjóðar. Lög og reglur fylgdu bandarískri forskrift, stjórn opinberra mála í eyjunni var í höndum fjárfesta frá New York til ársins 1875 en þá var kosið í sveitarstjórn sem samanstóð að mestu af dönskum og norskum innflytjendum, Jón Gíslason var eini Íslendingurinn. Wilhelm Wickmann var svo ráðinn sveitarstjóri og hlaut hann aftur útnefningu ári síðar.

 

Jón Gíslason kom sér vel áfram á Washingtoneyju og var vel metinn af öllum eyjarskeggjum. Myndin sýnir hluta strandarinnar sem tilheyrði landinu sem hann og Wickmann keyptu árið 1870. Mynd JÞ