Hinn 26. janúar 1849 leitaði aðstoðarpresturinn á Grenjaðarstað, séra Hjálmar Þorsteinsson, aðstoðar hjá Jóni Sigurðssyni forseta. Varð klerkinum tíðrætt um hið forna landnám Íslendinga á Grænlandi, Grænlands-ferðarollu rímnaskáldsins Sigurðar Breiðfjörð (á prent 1836), Grönlands historiske Mindesmærker en þó umfram allt ritgerð J. Matthiesen um Grænlandshöndlunina og nýlenduvæðingu Grænlands (útgefin 1846) þar sem væri sterklega mælt með nýlendustofnun í „hinum forna Eiríksfirði“.
Allur þessi lestur og vaxandi frjálsræði í samfélaginu hafa á ný vakið upp þrá þjóðarinnar eftir betra lífi, upplýsti séra Hjálmar, og hafa nú tíu duglegir búendur hér um slóðir þjappað sér saman í samtök um að hleypa heimdraganum til Grænlands. Og verða vísast mun fleiri ef þannig skipast veður í lofti, fullyrti séra Hjálmar, en það var einmitt erindi hans að biðja Jón að athuga hjá stjórnvöldum í Kaupmannahöfn hvort þau gæfu kost á stuðningi við verkefnið sem hlyti að verða kostnaðarsamt.
Rétt er að geta þess að svipuð umræða, um að Íslendingar flyttust til Grænlands, átti sér einnig stað á 18. öld og höfðu þá um 200 manns hérlendis skráð sig til slíkrar farar er dönsk stjórnvöld ætluðu að kosta. Kannski lifði minningin um þessa Grænlandsferð sem aldrei varð enn í hugum fólks rúmri öld síðar.
Séra Hjálmari varð ekkert ágengt en áratug síðar lifnaði Grænlands-draumurinn enn á ný. Dropinn sem fyllti mælinn var veturinn 1858 til ´59. Sumarið á undan hafði verið vætusamt sem gerði heyskap erfiðan og hey kraftlítil. Svo tóku stórviðri að geisa strax í september. Veturinn varð eftir því og fjártjón mikið. Örvæntingin varð þá slík að jafnvel Grænland varð í augum þingeyskra bænda betra til búsetu en Ísland. Kannski er þó fulldjúpt í árinni að tala um örvæntingu því að árin á undan, allt frá 1848, höfðu verið Þingeyingum góð og bændur efnast frekar en hitt og áttu orðið meira sauðfé en kannski nokkru sinni fyrr eða síðar á 19. öld. Ef til vill væri nær að tala um sár vonbrigði, fremur en örvæntingu, þegar bændur horfðu á arð undanfarinna tíu ára hverfa eins og dögg fyrir sólu. Féð varð úti í linnulausum stórhríðum og þegar leið á veturinn, og hey kláruðust, neyddust menn til að skera. Þeir höfðu reynt að halda lífi í skepnunum en þegar þær voru orðnar svo lémagna að þær gátu ekki lengur hrært sig var ekki um annað að ræða en að taka fram kutann.
Bóndinn í Vogum við Mývatn, Jón Jónsson, missti þennan vonda vetur „ … 65 kindur og geitur og átti þá aðeins 25 eftir“, stendur í sjálfsævisögu Jóns. Þetta var ekkert einsdæmi í sveitinni.
Í þessu ljósi var Grænland ef til vill ekki svo slæmt. Þó fegraði Sigurður Breiðfjörð ekki landið í frásögn sinni.
Þar lifa veiðimenn, útskýrði hann, sem fitna á sumrin en leggja tíðum af á vetrum þegar ekki er annað til matar en marhnútar og fjöruþang. Og þegar það ekki fæst er allt étið er að kjafti kemur; ernir, hrafnar, hundar, tófur, gamall skinnfatnaður og skóföt.
Ekki beint fýsilegt en framhjá þessu horfðu þingeysku bændurnir staðfastlega. Kannski sáu þeir sjálfa sig í hillingum sem arftaka hinna norrænu manna er settust að á Grænlandi forðum. Örlög þeirra hefðu reyndar ekki átt að freista neins. Samt vildu þessir norðlensku bændur til Grænlands. Var þekkingarskorti um að kenna? Varla. Óraunsæi? Já, miklu frekar. Og kannski sú rómantík er fólst í því að feta í fótspor feðganna Eiríks rauða og Leifs heppna. „Var nú landnámshugur mikill í mönnum, að endurreisa hina fornu Íslandsbyggð á Grænlandi“, fullyrti Þórhallur Bjarnarson biskup og hafði meðal annars eftir Tryggva Gunnarssyni.