Hlaupársdaginn 1860 birtist grein í Norðra á Akureyri sem hófst á þessum orðum:
„Með því ýmsir menn hafa mælzt til þess við mig, að jeg skyldi gangast fyrir að stofna fjelagsskap, og undirbúa það sem þyrfti til þess menn gæti komizt hjeðan til Vesturheims, og fengið þar óbyggt land með sem beztum kjörum, á þeim stað, sem líkur eru til að væri haganlegastur fyrir Íslendinga, – þá vil jeg með brjefi þessu bjóða öllum sem vilja, að ganga í fjelag þetta með eptirfylgandi skilmálum:“
Fylgdi svo upptalning skilmálanna í átta liðum en undir stóð: „Nesi 4. dag febrúarm. 1860. E. Ásmundsson.“
Einar í Nesi Ásmundsson hafði engan hug á því að birta bréfið opinberlega en það gekk á milli manna og komst þannig í hendurnar á Sveini Skúlasyni, ritstjóri Norðra, sem hafði engar vöflur á heldur setti það í Norðra, undir fyrirsögninni, Umburðarbréf, og bætti við athugasemdum sem komu við kaunin á Einari. Ritstjórinn velti þó ekkert fyrir sér réttmæti slíkra landflutninga, enda – eins og hann sagði sjálfur – er ekkert um ástæður þeirra að finna í bréfinu.
„Einungis viljum vjer biðja hvern mann að skoða vel huga sinn áður en hann ræðst í það að skilja við frændur og vini, ættmenn og óðul, tungu sína og þjóðerni og atvinnuvegi þá, sem hann kann til og þekkir og er uppalinn við til þess að leggja líf sitt og sinna í tvísýna hættu og tapa öllu þessu, er nú var talið.“
Sveinn gagnrýndi hins vegar harkalega hvernig staðið væri að stofnun félagsins, það lyktaði af gerræði eins manns, og ekki frítt við að nokkurn fjárplógsdaun legði af fyrirtækinu. Að minnsta kosti fannst Einari Ásmundssyni sjálfum eins og ritstjórinn ýjaði að óheiðarleik – jafnvel að fyrirtækið væri sett á laggirnar öðrum þræði til að auðga forsprakkann. Þessari túlkun vísaði Sveinn ritstjóri til föðurhúsanna – þetta hefði alls ekki verið meining hans – en lengi á eftir loddi við Einar og upphaf draumsins um sældarlíf í landi hins eilífa sumars, óljós orðasveimur um peningasvindl.
Bóndinn í Nesi lét Sveini ekki ósvarað og það mátti ritstjórinn eiga að hann gerði vel við Einar og birti í marslok svar hans á forsíðu Norðra. Og þar komu loks fram ástæður þess að menn voru yfirleitt að hugleiða búferlaflutninga í aðrar álfur.
Með skírskotun í fortíðina – fjárkláða, eldgos og harðindi á 17. öld og djörfung þeirra er flýðu undan ofríki Haralds hárfagra – og samanburð við samtímann; enn og aftur skæðan fjárkláða og ofríki danskra, er nánast óhjákvæmilegt annað en að menn íhugi að flytjast af landi brott, sagði Einar. Það er betra að gera það núna á meðan bændur eiga enn eitthvert fé en að bíða þess að þeir verði félausir og matarlausir sem hlýtur að verða fyrr eða síðar af „mistökum manna í því að uppræta fjárkláða þann, sem nú gengur,“ fullyrti Einar. Ekkert sýnir betur mannlyndi og kjark en að íhuga kostina nú fremur en að bíða þess að verða fluttir á einhverja Jótlandsheiðina, „eins og skynlausar skepnur“, líkt og stjórnvöld veltu fyrir sér á öldinni er leið. Stjórnvöld hafa gengið á helgasta rétt þjóðarinnar, var skoðun Einars, og landið er komið „á barm glötunarinnar“ og „hvað eiga menn þá að taka til bragðs?“
Svar Einars Ásmundssonar í Nesi var stutt og skorinort: Flýja land.
Þetta var upphaf deilna um Vesturheimsferðir Íslendinga sem áttu eftir að taka á sig ýmsar myndir, sumar ansi svæsnar, og standa fram á 20. öld.