Einar í Nesi, hrappur eða sómamaður?

Jón Hjaltason

Hinn 15. júní 1867 hófst rannsókn Þorsteins Jónssonar sýslumanns í Þingeyjarsýslu á tildrögum Brasilíuferðarinnar 1865 og afleiðingum þess að hún var aldrei farin. Fyrir réttinn kom Einar Ásmundsson, bóndi í Nesi og fyrrverandi hreppstjóri. Áður en annað var bókað í dómabókina sá Þorsteinn sýslumaður ástæðu til að afsaka sig. Dráttur hefði orðið á málinu vegna þess að honum voru hvorki kunn nöfn né heimili þeirra manna er 1865 ætluðu úr sýslunni til Vesturheims.

Þessu næst fékk Einar orðið. Hann vissi hverjar spurningarnar voru, þær höfðu verið skýrt orðaðar í bréfi amtmanns sem prentað var í Norðanfara í janúarlok 1867. Spyrja átti tilkvadda:

 

„a, um tildrögin til hins umrædda fyrirtækis.

b, um fyrirkomulag þess.

c, um það hver eða hverjir hafi áfýst menn til ferðarinnar.

d, hverju mönnun hafi verið heitið og hvernig þau loforð hafi verið efnd,

e, hvaða beinlínis útgjöld fyrirtækið hafi haft í för með sjer, og hvað af því fje hafi orðið.

f, hvort nokkrir og hve margir hafi orðið hreppsþurfamenn vegna ferðaáformsins.

g, hve margir hafi orðið fyrir verulegu eignatjóni út af hinu sama,“

 

Einar svarar

 

Einar mætti vel undirbúinn og var búinn að svara öllum spurningunum skriflega. Tildrögin? Jú, fyrst hefðu menn ætlað til Grænlands en ekkert orðið úr. Tuttugu eða þrjátíu árum síðar hefði útfararhugurinn blossað upp aftur. Meðal annars vegna þess að árferði spilltist mjög en þó fyrst og fremst vegna fjárkláðans, er þá tók að breiðast um landið, og gífurlegra útgjalda við að verjast honum.

Síðari kynslóðum hefur þótt Einar gera helst til mikið úr skaðsemi fjárkláðans en Norðanfari var ekki í neinum vafa. Þau eru tvö málin sem umfram önnur kalla á úrlausn, fyllyrti blaðið í mars 1865. Annað var „yfirgangur útlendra fiskimanna hjer við land“ en fjárkláðinn hitt. Ef ekkert yrði að gert, eða glíman við þessi vandræði mistækist, hlyti þjóðarbúið „að fara um koll, og Íslendingar að leita af landi brott til Brasilíu eða eitthvað út í buskann.“

Einar fjölyrti þó ekki um fjárkláðann en svaraði öllum spurningum amtmanns stutt og skorinort. Félagsskapurinn hefði verið stofnaður til að kynna sér aðstæður „í þeim nýju löndum hins nýja heims er menn almennt flytja sig til frá Norðurálfu.“ Í því skyni hefðu verið keypt landabréf, bækur og blöð á ýmsum málum. Ekki kvaðst Einar vita hvort einhver hefði rekið áróður fyrir vesturferðum en ýmsir hefðu skorað á hann að veita félagsskapnum forstöðu. Einar gerði lítið úr heitum og loforðum, hann hefði jú sjálfur skuldbundið sig til að framfylgja ályktunum félagsins, annað hefði það ekki verið.

Alls hefði 51 maður gengið í félagið og hver greitt 4 ríkisdali sem fóru til kaupa á áðurnefndum gögnum og til að styrkja Jónas Hallgrímsson snikkara til Vesturheimsferðar. Enginn hefði farið á hreppinn fyrir þessar sakir, að minnsta kosti var Einari ekki kunnugt um það, og enginn orðið fyrir verulegu eignatjóni.

Við þetta sama tækifæri var Ólafur Ólafsson í Hringsdal kallaður fyrir.

Engum var heitið neinu, fullyrti Ólafur, og því engin heit rofin. Enginn skaðaðist því ekkert varð af búferlaflutningunum.

Enn átti pólitírétturinn eftir að koma átta sinnum saman í Þingeyjarsýslu og tvisvar í Húnavatnssýslu til að fá botn í Vesturfaramálið, eða öllu heldur til að ganga úr skugga um hvort ástæða væri til lögsóknar á hendur Einari Ásmundssyni. Þetta var að vísu ekki sagt berum orðum í pólitíréttinum, utan einu sinni, en ekki fór á milli mála til hvers refirnir voru skornir. Pétur amtmaður fór ekki í launkofa með fyrirætlanir sínar. Þegar mjög var liðið á árið 1867 skrifaði Pétur Jóni Sigurðssyni á Gautlöndum, sem þá um haustið hafði tekið við sýslumannsembættinu til bráðabirgða:

 

„Meðal annars, verð jeg innilega að biðja þig fyrir að framfylgja vel rannsókninni út af æsingunum til Vesturheims ferða, og, eptir því sem mjer nýlega hefir borizt til eyrna, hefi jeg sterkustu hvatir til á sínum tíma að skipa hreppstjórum í hreppum þeim sem liðið hafa skaða af völdum Einars í Nesi, að höfða gegn honum skaðabóta mál og munu þeir fá til þess ókeypis málsfærslu.“[1]

 

Hreppstjórarnir yfirheyrðir

 

En hjól réttvísinnar snerust hægt þótt Pétur hamraði járnið og hvetti undirmenn sína til dáða. Maðurinn hefur staðið fyrir „æsingum … til Vesturheimsferða“, skrifaði hann í apríl 1869 og hvatti nýlega skipaðan sýslumann Þingeyjarsýslu, Lárus E. Sveinbjörnsson, til að halda áfram prófum í málinu – „með kröptugu aðfylgi“.[2]

Það varð að yfirheyra hreppstjórana til að fá á hreint hvort einhverjir þeirra sem vildu til Brasilíu 1865 væru komnir á sveit.

Úr Húsavíkurhreppi ætlaði einn maður með hyski sínu. Tómthúsmaður, ágætlega efnum búinn, sagði hreppstjórinn, er á bæði lítið timburhús og fiskibát með öllum nauðsynlegum útbúnaði.

Úr Helgastaðahreppi ætluðu fjórar familíur, upplýsti hreppstjórinn þar, allar bærilega efnum búnar. Það væri nú allt breytt til hins verra. Þær hefðu sleppt ábýlum sínum, selt eignir við óhagstæðu verði og engar tekjur haft um lengri tíma. Þótt ekkert þeirra væri komið á sveitina – ennþá – hefði hreppurinn skaðast. Hann hefði misst „nýta fjelagsmenn“ sem áður „léttu undir sveitarbyrðirnar“, svo ekki væri minnst á öll vandkvæðin við að koma fólkinu niður aftur.

Í þessum dúr svöruðu hreppstjórarnir, en þeir urðu á endanum sex er komu fyrir pólitíréttinn. Hrepparnir höfðu orðið fyrir tjóni vegna hinnar fyrirhuguðu Brasilíuferðar. Enginn þeirra sem ætlaði að sigla hefði þó lent á sveitinni, þótt sumir stæðu tæpt. Kannski var þetta úrslitaatriði í hugum sveitarstjórnarmanna.

Þegar hreppstjórarnir í Ljósavatnshreppi voru spurðir vafningalaust hvort þeir vildu málshöfðun á hendur Einari í Nesi svöruðu þeir nei, við álítum „enga ástæðu til þess.“ Tveir bærilega búandi bændur hefðu ætlað vestur og selt sitt en síðan sest um kyrrt í hreppnum og engum orðið að byrði, síður en svo.

Að vísu, bættu hreppstjórarnir við, ætlaði ekkja með fjögur börn að slást í för með þeim en hún var þá þegar orðin „hreppshandbendi“ og væri svo enn.

Hinir hreppstjórarnir voru ekki inntir eftir því hvort kæra ætti Einar. Enginn þeirra vakti heldur máls á þeim möguleika sem þeir hafa þó örugglega hugleitt því að tilgangur réttarhaldanna var þegar öllu er á botninn hvolft að leiða í ljós hvort Brasilíudraumurinn varðaði við lög. En – svo það sé nú undirstrikað – enginn Brasilíufaranna hafði lent á hreppnum sem var lykilatriði. Þeir voru nær allir bjargálna þrátt fyrir að hafa rekið upp á sker með drauminn um „rúsínufjöll“, hunangselfur“ og „sífellda sumartíð“.

Fyrir hvað átti þá að kæra Einar í Nesi? Hann hafði ekki komið neinum á sveitina, um það tók framburður hreppstjóranna af öll tvímæli. En hafði hann reynt að tæla menn til Brasilíu? Sem var eitt og sér ekki lagabrot – ekki ennþá að minnsta kosti en Alþingi Íslendinga átti síðar eftir að setja undir þann leka. En að hafa af mönnum fé með lygum og prettum var sannarlega saknæmt.

Nei við borguðum aðeins fjóra ríkisdali og sumir ekki neitt, báru allir Brasilíufararnir sem kallaðir voru fyrir rétt, sjö Þingeyingar og tveir bændur búsettir í Húnavatnssýslu. Keypt voru blöð, landauppdrættir, bækur og fimm árgangar af „þjóðversku tímariti“ og látið ganga á milli félagsmanna til að þeir gætu sem best kynnt sér landið er beið þeirra. Hjá engum þeirra örlaði á hinum minnstu grunsemdum í garð Einars. Þeir treystu honum allir sem einn. Og bóndinn Baldvin Helgason á Sporði í Húnavatnssýslu bætti um betur. Hann hefði hitt Einar, séð hjá honum reikninga félagsins og eftir því sem hann ræki minni til hefðu útgjöldin verið meiri en tekjurnar og ekkert í þeim um greiðslur til Einars sjálfs.

En hvað þá um „æsingarnar“?

Nei, Einar í Nesi var ekki með neinar æsingar, síður en svo, var framburður allra aðspurðra fyrir réttinum. Einhverjir höfðu heyrt „almenning“ tala um ferðina á þann veg að það kveikti áhuga þeirra. Einn bar við jarðnæðisþrengslum, Húnvetningarnir höfðu lesið ferðasögu Jónasar Hallgrímssonar í Norðanfara og þá – „hefði sjer komið í hug, að þar mundi verða hægra að bjarga sjer með fjölskyldu enn hjer í þessu kalda og harðindasama landi“, bar bóndinn Baldvin Helgason í Sporði.

En hverju hafði mönnum verið heitið? „[Að] útvega far til vesturheims með sanngjörnum kostum,“ svöruðu tveir.

Engu, sögðu hinir.

 

Einar rægður

 

Í dómabókinni hefur einhver merkt „NB“ við fyrra svarið sem bendir til að þarna hafi yfirvöld loksins séð eitthvað til að hengja hatt sinn á. Sem var mjög að skapi Péturs amtmanns. Það sem enginn vissi Norðanlands, annar en skrifari Péturs, var að í febrúar 1869 hafði hann rægt Einar ótæpilega í dómsmálaráðuneytinu danska og notað til þess meðal annars Brasilíuferðirnar.

Einar hefði fyrir fáeinum árum reynt að efna til vesturferðar, skrifaði amtmaður. Hann hefði safnað peningaframlögum frá fólki og komið því til leiðar að það gaf upp ábýlisrétt sinn og seldi eigur sínar. Svo hefði hann sjálfur, í miðju spili, svikið lit svo að búferlaflutningarnir runnu út í sandinn. Og allt til þessa dags hefur Einar skotið sér undan því að gera grein fyrir afdrifum fjárins, fullyrti Pétur amtmaður og bætti við að margir þeirra sem ætluðu vestur hefðu misst allt sitt fyrir þetta sviksamlega athæfi og endað á sveitinni. „Han er i höi Grad intrigant og meget egennyttig,“ voru lýsingarorðin sem Pétur amtmaður valdi Einari – sem sagt, framúrskarandi svikull og mikill eiginhagsmunaseggur.[3]

Menn gátu svo sem deilt um hvern mann Einar hafði að geyma en Pétur hreinlega laug um peningaframlögin og að Brasilíufararnir 1865 væru margir hverjir orðnir sveitalimir. Hann vissi betur. Þegar hann skrifaði bréfið var löngu búið að yfirheyra alla hreppstjórana, báða Húnvetninga sem ætluðu og suma Þingeyingana líka.

Það reyndi hins vegar aldrei á það hvort Pétur hefði í raun fundið snöggan blett á Einari þar sem voru áðurnefnd svör tvímenninganna um að þeim hefði verið lofað fari vestur „með sanngjörnum kostum“. Haustið 1870 var Pétri Havstein veitt lausn frá embætti, vafalaust vegna þeirra fjölmörgu illsaka er hann tróð við menn og kvartana er rigndi yfir dönsk stjórnvöld vegna framferðis hans.

Einn þeirra sem klagaði var Einar Ásmundsson í Nesi. Hann skrifaði konunginum, sem þá var Kristján 9: „Einar Ásmundsson varaþingmaður fyrir Suður-Þingeyjarsýslu biður allra þegnsamlegast hans Hátign Konunginn um allra mildustu vernd fyrir ofsóknum Havsteins amtmanns.“ Ekki þó fyrir sakir alls er gekk á út af Brasilíuferðinni, sem aldrei var farin, heldur vegna máls er reis út af frönskum presti sem Einar hýsti um sex vikna skeið haustið 1868 og Pétur taldi stríða gegn lögum.[4] Afstaða Einars var hins vegar næsta einföld: „jeg gjöri mjer nú aldrei stóran mannamun vegna trúarbragðanna.“[5]

Í ákalli sínu til Kristjáns 9 vék Einar ekki einu orði að vesturferðunum en hann skrifaði jafnframt Oddgeiri Stephensen, forstöðumanni hinnar íslensku stjórnardeildar ytra, og bað hann að fylgja máli sínu fram við konunginn. Fyrir Oddgeiri útskýrði hann betur alla málavexti, meðal annars orrahríðina í kringum Brasilíuferðirnar.

Þessi „hatursfulli maður“, skrifaði Einar um Pétur amtmann, „hefur opt heimuglega og jafnvel opinberlega boðið gefins málsfærslu hverjum þeim, er höfða vildi mál á móti mjer fyrir þessar sakir, en enginn hefur enn orðið til að þiggja slíkt boð, jafnvel þó vinátta hans ætti að fylgja með eins og í kaupbæti.“ Hann lét ekki þar staðar numið, hélt Einar áfram, heldur beinlínis skipaði hreppstjórum hér í sýslunni að kæra mig. Og hann hótaði þeim að ef þeir ekki hlýddu myndi hann skipa mann á þeirra kostnað er gengi í verkið. En allt kom fyrir ekki, hreppstjórarnir skoruðust undan, allir sem einn, af þeirri ástæðu að þeir gátu ekki fundið því neinn stað að hrepparnir hefðu beðið tjón sem mætti rekja til þess „að nokkrir menn úr þeim ætluðu til Ameríku en komust eigi“.[6]

Þetta var ekki alveg rétt hjá Einari, hreppstjórarnir töldu vissulega að sveitirnar hefðu skaðast af Brasilíudraumnum, en hann hafði ekki komið neinum á sveitina, um það voru þessir forsjármenn sveitanna sammála. Og það reið baggamuninn og ónýtti áform amtmannsins um málshöfðun.

 

Einar „er víst slæmur refur“

 

Hið einkennilega er þó að þrátt fyrir skýlausa niðurstöðu í yfirheyrslunum yfir hreppstjórunum og væntanlegum Brasilíuförum um flekkleysi Einars Ásmundssonar lifði engu að síður sterkt í vitund þjóðarinnar spillingar-orðsporið er af honum fór og tengdist draumnum um Brasilíu.

Umræðan varð lífseig. „[Hann] er víst slæmur refur“, skrifaði Sigurður Guðmundsson málari Jóni Sigurðssyni í Kaupmannahöfn árið 1865 og var að lýsa Einari Ásmundssyni. Annað dæmi er að finna í ævisögu kennarans Baldvins Bárðdals sem fæddur var sumarið 1859. Hann segir frá því að foreldrar hans hafi eftir mikið hugarstríð ákveðið að slá til:

 

„Faðir minn fór af stað seint á Góu og fann Einar í Nesi. Skrifaði sig á hjá honum og borgaði fullt fargjald, sem skifti hundruðum dala. Það var öðru nær en Einar letti hann til fararinnar. Gyllti það á alla vegu og kvatti föður minn mjög, svo að sá kvíði sem hreifði sér í brjósti föður míns hvarf nú að mestu, og hann kom miklu hressari heim en er hann fór að heiman – því Einar hlaut að segja satt!“[7]

 

Svo voru skepnurnar seldar og búshlutir og haldið til Akureyrar að bíða eftir skipinu. Sem aldrei kom. Baldvin segir föður sinn og aðra hafa greitt Einari fargjaldið, himinháa upphæð, en þegar þeir vildu fá endurgreitt neitaði hann „og svaraði með tómum vífilengjum og útúrsnúningum.“[8] Fjöðrin var orðin að heilum fugli – sem gat svo sannarlega flogið.

Bergvin Einarsson, faðir Baldvins, hefði hins vegar verið fljótur að kveða þetta niður hefði hann fengið tækifæri til. Sonur, þetta er alrangt hjá þér, hefði hann sagt. Ég borgaði ekki nema fjóra ríkisdali til Einars. Og Einar hvatti mig aldrei til fararinnar. Þvert á móti latti hann snautt fólk til að setja nafn sitt á listann yfir þá sem ætluðu vestur.[9]

Þannig sneri Baldvin Bárðdal öllu á haus en svona barst honum sagan; Einar hefði legið eins og ormur á gulli á fargjöldunum – „það sögðu svo margir, að erfitt er að rengja það – að hann hefði engu að kalla skilað til baka“, ályktaði Baldvin.[10] Þetta voru einfaldlega almenn sannindi sem enginn dró í efa. Mórallinn í samfélaginu leyfði þetta. Einar var talinn samviskuharður og Vesturheimsferðir bölvun.

Þannig er ekki útilokað að tengja megi saman spillingarorðsporið og skapgerðareinkenni Einars, hann var aldrei allra. Stundum þögull og kaldranalegur, stirt um mál, og hló sjaldan. Strangur og féfastur og „ekki örgrannt að sumir kalli hann fégjarnan,“ viðurkenndi Jakob vinur hans Hálfdanarson á Grímsstöðum.[11]

En menn treystu Einari. „Hann var, að mér fannst, mjög réttlátur maður, en gerði ekkert til að útlista öðrum réttlætistilfinningu sína“, var skoðun Friðrik Guðmundssonar, frá Hólsfjöllum í Norður-Þingeyjarsýslu, tengdasonar Jakobs Hálfdanarsonar.[12] Og Björn Jónsson, ritstjóri Norðanfara, fór ekki í launkofa með hrifningu sína af bóndanum í Nesi: „Það er eins og að bera upp við ljós að bera málefnin undir hann Einar.“[13]

Þetta var ekki aðeins tveggja manna tal heldur almannarómur. Fyrir vikið gegndi Einar ýmsum trúnaðarstöðum, hann var hreppstjóri, í hreppsnefnd og sýslunefnd, í amtsráði, og síðast en ekki síst þingmaður, fyrst Eyfirðinga 1874 til 1885 og síðar Suður-Þingeyinga 1892-1893. Það mátti með sanni kalla Einar nokkurskonar fjölsjá sveitar sinnar. Hann vildi gagnast sveitungum sínum og þjóðinni allri. „Og það helzt á þann hátt, að leiða menn á þá braut, er kendi þeim að bjarga sjálfum sér á réttan hátt.“[14] Til þess að ná þessu marki stofnaði Einar, einn eða með öðrum, tryggingafélag um skip, framfarafélag, og lestrarfélag í Grýtubakkahreppi, hann og Tryggvi Gunnarsson áttu hugmyndina að Hinu íslenska Þjóðvinafélagi[15] og um skeið var hann með bæði sjómannaskóla og alþýðuskóla á sínum snærum. Menn treystu honum líka fyrir fé. Hann var aðalhvatamaðurinn að stofnun Sparisjóðs Höfðhverfinga 1879 og lengi formaður hans og gjaldkeri, auk þess að vera í framvarðasveit Gránufélagsins.[16]

Öll þessi upptalning – sem auðveldlega gæti verið lengri – er nauðsynleg til að hnekkja því sem hér segir á undan, að ef til vill megi rekja óheilinda-kvittinn er lá á Einari til skapsmuna hans og persónuleika. Í því er ekki heil brú. Allir treystu Einari, líka fyrir fjármunum. En hvers vegna varð vondi orðrómurinn svona lífseigur? Á því er aðeins ein skýring. Áhrifamenn í samfélaginu áttu erfitt með að sætta sig við vesturheimsferðir, einkum þó til Brasilíu. Þær voru slæmar, og hvaðeina er setti þær í óheppilegt ljós var af hinu góða. Með þessu er þó ekki staðhæft að um skipulegan áróður hafi verið að ræða, síður en svo. Andinn í samfélaginu var hins vegar þannig að ekki þótti ólíklegt að það gæti verið satt, sem sagt var um Einar – vond verk, vondir menn – enda þótt allt í fari hans, lífsskoðanir og gerðir mæltu eindregið gegn því. Það voru líka þungavigtarmenn í samfélaginu sem töluðu í þessum dúr – hlutu kviksögurnar þá ekki að vera sannar? Orti ekki sálmaskáldið forðum: „Hvað höfðingjarnir hafast að,/hinir meina sér leyfist það.“

 

 

[1] Lbs. 2754, 4to, Pétur Havstein til Jóns Sigurðssonar á Gautlöndum 15. nóvember 1867

[2] Þjskjs. sss. Þingeyjarsýsla GA/5, Pétur Havstein til L. E. Sveinbjörnssonar 24. apríl 1869.

[3] Þjskjs, íslenska stjórnardeildin, Isl. Journ. 13, nr. 144, Pétur Havstein til dómsmálaráðuneytisins 12. febrúar 1869.

[4] Þjskjs, íslenska stjórnardeildin, Isl. Journ. 13, nr. 144, Einar Ásmundsson „til konungsins“ 15. febrúar 1870.

[5] Lbs. 305, fol. IV. b., Einar Ásmundsson til Magnúsar Eiríkssonar 17. febrúar 1869.

[6] Þjskjs, íslenska stjórnardeildin, Isl. Journ. 13, nr. 144, Einar Ásmundsson Oddgeirs Stephensen 16. febrúar 1870.

[7] Lbs. 1926, 4to, Endurminningar Baldvins Bárðdals I, 1859–1902, bls. 63-63. Kafli úr endurminningunum hefur verið prentaður. Sjá, „Úr endurminningum Baldvins Bárðdals“, Norðlenzkir þættir, Akureyri 1943.

[8] Lbs. 1926, 4to, Endurminningar Baldvins Bárðdals I, 1859–1902, bls. 69.

[9] Þjskjs. sss. Þingeyjarsýsla GA/6, dóma- og þingbók 1870-1881, pólitíréttur 2. júní 1870.

[10] Lbs. 1926, 4to, Endurminningar Baldvins Bárðdals I, 1859–1902, bls. 70.

[11] Lbs. 4 NF, VII, 3a, Jakob Hálfdanarson, dagbók 1862-1874, bls. 153.

[12] Friðrik Guðmundsson: Endurminningar, fyrra bindi, bls. 203.

[13] Jón Þorkelsson: „Æfiágrip Einars Ásmundssonar í Nesi “, Andvari 1912, bls. xviii.

[14] Jón Þorkelsson: „Æfiágrip Einars Ásmundssonar í Nesi “, Andvari 1912, bls. xxi.

[15] Jón Þorkelsson: „ Æfiágrip Einars Ásmundssonar í Nesi “, Andvari 1912, bls. viii-ix. Páll Eggert Ólafsson hefði þó ekki tekið undir þessa skoðun Jóns Þorkelssonar, samanber rit hins síðarnefnda: Hið íslenzka Þjóðvinafélag 1871 – 19. ágúst – 1921.

[16] Björn Ingólfsson: Bankinn í sveitinni, bls. 33-34 og 36-37.