Hvernig vildi það til að tæplega tvítugum pilti datt í hug að flytjast til Ameríku? Höfum hugfast að vesturferðir héðan voru ekki hafnar svo neinu næmi um það leyti sem Sigtryggur Jónasson tók að ókyrrast þar sem hann var í vinnumennsku á bænum Ytri-Skjaldarvík þá í Glæsibæjarhreppi sunnan Hörgár í Eyjafirði, nú á 21. öld Hörgárbyggð eftir sameiningu hreppsins við Skriðuhrepp og Öxnadalshrepp.
Ég segi í vinnumennsku og vísa til Vesturfaraskrár Júníusar H. Kristinssonar en verð að slá þann varnagla að Þorsteinn Þ. Þorsteinsson segir í Sögu Íslendinga í Vesturheimi (2. b., bls. 132) Sigtrygg hafa verið skrifara amtmanns „þótt ungur væri.“ Undir þetta tekur Bergsteinn Jónsson í bók sinni, Til Vesturheims (bls. 65). Nú skortir okkur sóknarmannatöl þessara ára fyrir Möðuruvallaklausturssókn sem hvergi finnast, manntalsskýrslur úr Eyjafjarðarsýslu fyrir 1870 eru líka að langmestu leyti glataðar, en í fólkstali Glæsibæjarsóknar fyrir 1871 er Sigtrygg vissulega að finna en án starfsheitis.
En þetta var nú svolítill hlykkur á bænina. Reynum frekar að átta okkur á pælingum piltsins unga í ársbyrjun 1872.
Í ritum um vesturferðir Íslendinga á 19. öld er það eitt sagt að Sigtryggur hafi einna fyrstur landa okkar gerst Vestur-Íslendingur. Ekkert er fjallað um ástæður hans til búferlaflutninganna. Nú vill svo vel til að á fundi Manitoba Historical and Scientific Society í mars 1901 sagði Sigtryggur sjálfur frá aðdragandum að vesturförinni.
– Um það leyti var vaxandi áhugi á vesturferðum, rifjaði Sigtryggur upp. Í blaði sem gefið var út á Akureyri (Norðanfara) hafði hann lesið sendibréf frá mönnum sem farnir voru vestur og margir sveitungar hans veltu fyrir sér í fullri alvöru að feta í sömu spor og voru áhugasamir um að afla sér frekari fróðleiks um Ameríku.
Sigtryggur kvaðst hafa smitast af þessum áhuga og því fór sem fór.
Þetta kemur ágætlega heim og saman við æviþátt sem presturinn Friðrik J. Bergmann samdi um Sigtrygg og birtist í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar árið 1907. Þar skrifar séra Friðrik: „Þegar amtmannaskifti urðu, fékk hann [Sigtryggur] tilboð frá Christiansen amtmanni um að gjörast skrifari hans. En þá var útfararþrá komin í huga hans. Var hann farið að langa til að skoða sig um í heiminum og sjá siðu annarra þjóða og háttu. Hefir sú útfararþrá ef til vill aukist við að komast niður í ensku máli.“
Áratugum síðar var Sigtryggur Jónasson fulltrúi Kanadastjórnar á Alþingishátíðinni 1930. Vildi þá svo til að fyrir einskæra tilviljun hitti blaðamaður Morgunblaðsins Sigtrygg að máli „og vissi þá fyrst veruleg deili á manninum“, skrifaði blaðamaðurinn í Morgunblaðið 31. ágúst 1930.
Fyrir vikið er engum vafa undirorpið að það er Sigtryggur sem hefur orðið en greinin er skrifuð í þriðju persónu. Hann minnist þess að Þórunn, dóttir Péturs Havstein amtmanns, kom að Möðruvöllum og af henni lærði hann ensku. „Varð það til þess að ákveða stefnu hans síðar“, skrifar blaðamaður Morgunblaðsins og hefur vafalítið orðrétt eftir viðmælanda sínum eða svo gott sem.
Um orsök þess að Sigtryggur hleypti heimdraganum segir eftirfarandi: „Því þegar stjórnin hrakti Pjetur Havsteen úr embætti, þótti Sigtryggi mjög fyrir, og taldi að amtmaður væri hinum mestu rangindum beittur. Vildi hann með engu móti lifa framvegis í löndum Danakonungs, og tók því það ráð að hverfa til Ameríku.“
Þetta er hin rómantíska afstaða gamals manns en Sigtryggur átti aðeins eftir tvö ár í áttrætt þegar hann var gestur á Alþingishátíðinni 1930. Hann hafði margan hildinn háð fyrir vestan og var vanur næðingnum sem leikur jafnan um þá sem fara í fararbroddi og taka skýra afstöðu. En hvort hann hefur innan við tvítugt verið orðinn svo heitur í andanum og svo þrunginn réttlætiskennd að ofríki Dana hrekti hann úr landi skal ósagt látið. Hins vegar er ekki útilokað að Sigtryggur hafi látið ógetið hinnar raunverulegu ástæðu er rak hann til að leysa landfestar. En nú má ég ekki blaðra meira en verð að leggjast í rannsóknarvinnu. Fáið seinna að vita meira um niðurstöðu þeirrar athugunar.