Af hverju fluttist Sigtryggur Jónasson til Kanada en ekki Bandaríkjanna?

Jón Hjaltason

Íslendingar voru ekki eins og aðrar þjóðir þegar kom að þjóðflutningunum miklu á 19. öld. Til dæmis voru þeir einir innflytjenda til Ameríku sem kusu í ríkari mæli að setjast að í Kanada en Bandaríkjunum. Enginn einn maður hafði jafnmikil áhrif í þessa veru og kapteinn Sigtryggur Jónasson. Því er forvitnilegt að velta fyrir sér af hverju hann tók Kanada fram yfir Bandaríkin.

Höfum hugfast að þegar Sigtryggur gekk á land í Quebec hinn 12. september 1872, og hafði þá ekki áður gert víðreistara en á milli hreppa í Eyjafirði, var enginn hinna örfáu landa hans sem tekið höfðu sér bólfestu í Ameríku búsettur norðan landamæra Bandaríkjanna. Engu að síður valdi hann Kanada. „Mun trú hans á brezka veldið hafa ráðið því, að hann gerði þessa ákvörðun, þótt hann vissi af löndum sínum fyrir sunnan landamærin“, segir Þorsteinn Þ. Þorsteinsson í 2. bindi Sögu Íslendinga í Vesturheimi.

Bergsteinn Jónsson tekur í sama streng í bók sinni, Til Vesturheims. Þar segir hann um Sigtrygg: „Sagan segir að hann hafi kosið Kanada af því að hann vildi heldur gerast þegn í landi sem laut þjóðhöfðingja af guðs náð en í lýðveldi með kjörnum forseta.“

Líkast til á þessi goðsögn rætur í ævisöguþætti séra Friðriks J. Bergmann um Sigtrygg sem birtist í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar árið 1907. Séra Friðrik skrifar: „Fyrir brezka veldinu bar hann þegar mikla lotningu og áleit því bezt að staðnæmast undir verndarvæng þess.“

Nú er þar til að taka að 1901 flutti Sigtryggur erindi í félaginu Manitoba Historical and Scientific Society sem fram fór í ráðhúsi Winnipegborgar. Þar rifjaði Sigtryggur upp tildrög þess að hann settist að í Kanada og fórust honum orð eitthvað á þessa leið.

Þegar hann lagði upp í siglinguna löngu var hann hreint ekki búinn að gera upp við sig hvar hann vildi setjast að vestan hafs. Farseðil hafði hann keypt til Quebec og í Kanada hafði hann fyllsta hug á að svipast um áður en lengra væri haldið. Svo mikið vissi hann þó fyrir víst.

Á Atlantshafi miðju komst Sigtryggur í kynni við aldurhniginn Skota sem búsettur var í Ontario en var nú á heimleið eftir heimsókn á fornar slóðir í gamla Skotlandi. Áður en þeir skildu gaf Skotinn Sigtryggi tvö ráð. Annað var að gæta sín á vatninu úr St. Lawrence ánni.

– Það er ráðlegt að þynna það ávallt með ögn af viskí, sagði sá gamli.

Hitt ráðið sem hann gaf Sigtryggi var að setja stefnuna strax á Ontario, þar væri að finna bestu landsvæðin, ekki aðeins í Kanada heldur í gjörvallri Norður-Ameríku.

Þessu ráði hlýddi Sigtryggur og bjó til dánardægurs í Kanada, þó ekki mjög lengi í Ontario. En það er önnur saga sem hefði ef til vill orðið allt önnur ef hann hefði aldrei hitt þann skoska á skipinu sem flutti þá til Kanada í september 1872.