Fjárkláðinn fyrri er talinn hafa borist til Íslands með hrútum sem fluttir voru til landsins 1761. Sænskur barón, Hastfer að nafni, stóð fyrir innflutningi skepnanna og var tilgangurinn að gera ull af íslenskum sauðkindum betri til vinnslu en hún þótti helst til of grófgerð. Fjárpestinni var að lokum útrýmt með niðurskurði.
Tæpri öld síðar, eða 1855, endurtók sagan sig. Fjórir enskir lambhrútar tóku hér land og átti að nota til kynbóta. Fyrr en varði var kláðinn orðinn helsta deiluefni landsmanna sem skiptust í tvær fylkingar. Sumir vildu lækna, aðrir skera.
Sama skelfingin og bankahrunið 2008
Sumarið 1857 lögðu amtmennirnir Páll Melsteð í Vesturamti og Pétur Havstein í Norður- og Austuramti til niðurskurð alls fjár í Borgarfjarðarsýslu, Kjósarsýslu, Gullbringusýslu og Árnessýslu sem þó varð aldrei.
Þegar nokkru seinna fréttist að kláðamaurinn hefði komist yfir Holtavörðuheiði og niður í Húnavatnssýslu fyrirskipaði Pétur Havstein amtmaður tafarlausan niðurskurð fjár vestan Blöndu. Fóru þar 18.000 kindur í súginn. Stjórnvöld ávíttu Havstein fyrir tiltækið en bændur þökkuðu honum að hafa varið Norðurland fyrir fjárpestinni.
Því geri ég fjárkláðann að umtalsefni að í augum 19. aldar Íslendingsins var hann sama skelfingin og bankahrunið fyrir niðja þeirra haustið 2008. Kláðamaurinn hékk eins og Damóklesarsverð yfir höfðum bænda og þrýsti á þá að flýja land. Þannig var Einar Ásmundsson í Nesi ekki í neinum vafa um að fjárkláðinn og útgjöldin við að verjast honum hefðu átt ríkastan þátt í að kveikja útfararhug manna í kringum 1860.
Síðari kynslóðum hefur þótt Einar gera helst til mikið úr áhrifum fjárkláðans en Norðanfari var ekki í neinum vafa. Þau eru tvö málin sem umfram önnur kalla á úrlausn, fullyrti blaðið í marslok 1865. Annað var „yfirgangur útlendra fiskimanna hjer við land“ en fjárkláðinn hitt. Ef ekkert verður að gert, fullyrti blaðið – væntanlega ritstjórinn, Björn Jónsson – eða glíman við þessi vandræði mistekst, hlýtur þjóðarbúið „að fara um koll, og Íslendingar að leita af landi brott til Brasilíu eða eitthvað út í buskann.“
Áratug síðar, eða 1875, gerðist presturinn Friðrik Eggerz langorður um nauðsyn niðurskurðar og hörmulegar afleiðingar þess að í 19 ár hefðu Sunnlendingar streist árangurslaust við að lækna féð „sjer sjálfum til mæðu og kostnaðar og öðrum til skaða og sundurlyndis, og með allri slíkri aðferð lagt grundvöllinn til þess, að fólk hrökkvi árlega burt úr landinu, sem er næsta eðlilegt, þegar alltaf vofir yfir að kláðinn dreifist út og menn missi lífsbjörg sína“.[1]
Gróf kláðinn undan stjórnvöldum?
Stjórnarherrarnir í Danmörku tóku lækningar fram yfir niðurskurð sem ef til vill gróf undan virðingu og hollustu Norðlendinga fyrir yfirvöldum landsins. Sigurður málari skrifaði Jóni forseta Sigurðssyni í apríl 1865:„Norðlendíngar hatast svo við Sunnlendínga út af kláðanum, að þeir eru að tala um í bréfum til mín að fara í herferð, eða að gaman væri að geta farið í herferð móti Sunnlendíngum, ef þeir hefðu vopn eins og þegar þeir fóru að Grími.“[2]
Færði Sigurður málari í stílinn þegar hann ritaði vini sínum, Jóni forseta þessi orð? Lækningamennirnir og vinirnir Halldór Kr. Friðriksson, yfirkennari við Lærða skólann, og Jón Hjaltalín landlæknir hefðu ekki fallist á það. Halldór hafði líkt og Sigurður málari frétt af liðssöfnuði á hendur lækningamönnum, þó ekki fyrir norðan heldur á Vesturlandi. Það er staðreynd, fullyrti yfirkennarinn, að sumarið 1864 dró Bogi Thorarensen, settur amtmaður fyrir vestan, saman 200 manna lið er átti að fara með vopnavaldi á hendur Sunnlendingum og neyða þá til að skera fé sitt. Ráðagerðin koðnaði niður þegar Pétur Havstein amtmaður neitaði bón Boga um liðsauka, skrifaði Halldór.[3]
Ofsinn brann því víðar í niðurskurðarmönnum en fyrir norðan, að minnsta kosti ef marka mátti þá tvo, Halldór yfirkennara og Jón landlækni. Það verður raunar ekki betur séð en að þeir hafi álitið landið ramba á barmi stríðsátaka.
Fjárkláðinn er „kappsmál og hatursmál“ í augum niðurskurðarmanna sem þeir reka „með slíkum ákafa, og jafnvel varmennsku, að vart munu dæmi til finnast“, fullyrtu tvímenningarnir árið 1860. Skömmu síðar urðu þeir Halldór og Jón vafalaust fyrstir Íslendinga til að bera terrorisma á nokkurn mann þegar þeir sökuðu andstæðinga sína um að kæfa „niður sannleikann með þessum almennings meininga-ofstopa [Terrorisme], sem nú hefur verið viðhafður hjer í samfleytt 3 ár af niðurskurðarflokksins hálfu“.[4]
„Morðengill“
Kláðinn hélt áfram að vera hin stóra vá er bændur óttuðust meira en flest annað. Árið 1875 skrifaði Árni Sigurðsson, í Höfnum á Skaga í Húnavatnssýslu, um kláðann að fyrir norðan vildu menn allra helst „kyrkja morðengil þennan, en sunnlensku yfirvöldin andæfa á móti, með sitt gamla lækninga bölv. kák.“ Og jafnvel þótt vörnum verði við komið, fullyrti Árni, og kláðinn nái ekki norður í þetta skiptið þá bakar umstangið Norðlendingum mikinn kostnað „og það máské yfir áratugi, svo ekki er ástandið glæsilegt í raun réttri á landi voru, þótt yfirvöld og aðrir loftbyggingameistarar sjái það síður en ekki.“[5]
Í febrúar 1876 velti Björn Jónsson, ritstjóri Norðanfara á Akureyri, sama efni fyrir sér í dagbók sinni. Boðaður hafði verið fundur í Eyjafirði, á Grund eða Espihóli, hélt Björn. Fundarefnið var vesturferðir og kláðinn „sem hvortveggja getur orðið landinu banvænt, og sem stendur í sambandi kvað við annað, þar sem margir af vesturförum flýja landið vegna kláðans.“[6]
[1] Friðrik Eggerz: „Brjef til fjallkonunnar í mars 1875. Eldgamla Ísafold“, Norðanfari 8. maí 1875. Séra Friðrik lét af prestsskap 1872 sökum aldurs (fæddur 1802).
[2] „Þrjú bréf … “, Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1930-1931, bls. 97. Bréfið er dagsett 25. apríl 1865.
[3] Halldór Kr. Friðriksson: „Klögun skólakennara H. Kr. Friðrikssonar“, Íslendingur 22. maí 1865.
[4] Fyrri tilvísunin er í höfundarlausa grein, „Sal veit ek standa“, Hirðir 2. júní 1860, bls, 79. Seinni tilvitnunin, sú um terrorismann, er sótt í greinina „Brjef“, Hirðir 3. júlí 1860, bls. 95. Höfundur er sennilega Jón Hjaltalín en undirtitill greinarinnar er: „til ritstjóra Þjóðólfs út af seinustu ritgjörð þeirri, sem finnst í blaði þessu, um kláðann, nr. 10—17.“
[5] Sigfús Halldórs: „Hagur Norðanlands við upphaf Vesturflutninganna“, Tímarit Þjóðræknisfélags Íslendinga 1926, bls. 83. Vitnað er í bréf Árna Sigurðssonar til Jóns Rögnvaldssonar. Það er að vísu óársett en af samhengi má ráða að það er skrifað 1875.
[6] Lbs. 314, 8vo, Björn Jónsson, dagbók 24. febrúar 1876.