Hór og legorð

Jón Hjaltason

Konan Ólöf Júlíana Gunnarsdóttir var Húnvetningur, fædd 25. september 1840 í Yxnatungu í Víðidal. Ólöf giftist aldrei en átti engu að síður fjögur börn, hvert með sínum manninum.

Um fyrsta barn Ólafar hef ég ekki fundið neitt í kirkjubókum en í prestsþjónustubók Þingeyrarklausturs er skráð í september 1863 fæðing hins „óekta“ Jóhanns Júlíusar Jóhannssonar. Síðar hefur presturinn strikað yfir föðurnafnið og bætt við eftirfarandi athugasemd neðanmáls: „Seinna af móðurinni til nefndur faðir Jónas Jónsson giptur maður til heimilis á Hvarfi, þá drukknaður.“

– Þetta er hennar annað legorðsbrot, upplýsir prestur.

Og þegar Ólöf, fjórum árum síðar, fæðir stúlkuna Ingveldi Jóhönnu Jóhannesdóttur, útlistar prestur að þetta sé þriðja lausaleiksbrot – presturinn notar þetta hugtak – konunnar en fyrsta hórbrot föðurins sem var giftur vinnumaður á Kolugili.

 

Samræði ógiftra

 

Fer nú að verða tímabært að hyggja að tilsögn löggjafans um rétta kynferðislega hegðun. Fyrst skulum við átta okkur á hugtakinu legorð en það var haft um þá breytni ógiftra að eignast börn – sem þar af leiðandi fæddust í lausaleik. Hórdómur var hins vegar þegar gift persóna átti í hlut. Þannig var fæðing Ingveldar Jóhönnu staðfesting á legorðsbroti ógiftrar móður hennar en hórdómsbroti föðurins sem tekið hafði fram hjá eiginkonu sinni með Ólöfu.

Það er fátt sem sýnir okkur með jafn róttækum hætti hvernig tíðarandinn breytist og hugmyndir löggjafans um kynlíf.

Friðrik 6. konungur Danmerkur frá 1808 til 1839.

Um aldamótin 1800 hefðu bæði Jóhannes (sem var Benediktsson) og Ólöf fengið háa sekt fyrir fjöllyndi en við fjórða barn hefði Ólöf, auk sektar, verið gerð burtræk yfir í annan landsfjórðung. Jóhannes hefði hins vegar við þriðja hórdómsbrot misst höfuðið. Þessi ákvæði voru sótt aftur á 16. öld, í Stóradóm, en var breytt með konungsbréfi 25. júlí 1808 í tveggja ára tukthúsvinnu.

Konungur vék líka að legorðsmálum en í þeim efnum var hann – eða embættismenn hans – afskaplega seinskilinn. Eða hver er kjarninn í þessum boðskap? „Straffen for Leiermaal i Island skal herefter bestemmes analog med de i saa Henseende for Vore övrige Lande gjeldende Anordninger, saaledes, at Bödernes Aftingning i alle Tilfælde maa finde Sted.“

Afsakið að ég legg þessa gömlu dönsku á ykkur en þetta var tungumálið á íslenskum lögum fram á seinni hluta 19. aldar. Þið getið þá líka sett út á þýðinguna hjá mér sem er á þessa leið: „Refsingin fyrir samræði ógiftra á Íslandi skal héðan í frá ákvarðast í samræmi við þar um gildandi ákvæði [eða lög] í öðrum löndum vorum, svoleiðis að greiðsla sektanna verður ætíð að fara fram.“

Fimmtán árum síðar (1823) sá konungur enn ástæðu til að létta á refsingum fyrir ólöglegt kynlíf. Amtmenn fengu þá heimild til að lækka sektir fyrir hórbrot og jafnvel að sleppa þeim alveg ef maki hins brotlega fór fram á það af heilum hug.

Enn líða fimmtán ár þar til löggjafinn lætur sig samræði manna varða. Þá kemur yfir hafið frá Kaupmannahöfn mikill lagabálkur (dagsettur 24. janúar 1838), um misgjörningamál á Íslandi, og innihélt kafla um hór og legorð sem var þó ekki að öllu leyti til mildunar á lögunum frá 1808. En ekki heldur mikið strangari. Og hér er loks tekið fram um samræði ógiftra svo ekki fer á milli mála að þótt það leiði til barneigna skuli engum refsað fyrr en viðkomandi hefur þrívegis „gjört sig sekan í legorðsmálum með aðskiljanlegum persónum“ – og kæmi mér ekki á óvart þótt lögmenn þættust sjá þarna lagakrók til að hengja hatt sinn á. Eða hvað var átt við með „aðskiljanlegum persónum“? Máttu ef til vill ógiftir eiga börn eins og þá lysti ef þeir gættu þess að halda sig við sama rekkjunaut?

 

Ein tekin á beinið en önnur ekki

 

Því miður kom þessi spurning ekki til kasta sýslumanns í tilviki Ólafar Júlíönu Gunnarsdóttur. Raunar er það svo að ég hef leitað mig gráhærðan í dómabókum Húnavatnssýslu en hvergi fundið að sýslumaður hafi tekið hana á beinið fyrir lauslætið.

Þar rekst ég hins vegar á nöfnu hennar, Júlíönu Gunnlögsdóttur, 48 ára vinnukonu á Gröf sem sama ár og Ólöf Júlíana fæðir Ingveldi fær að kenna á vendi laganna. Og sekt þeirra tveggja er söm: Báðar ógiftar, þriggja barna mæður og blásnauðar. Júlíana Gunnlögsdóttir segist hafa eytt mestöllu fé sínu til að framfæra börnin – sem eru að vísu öll sáluð, upplýsir hún sýslumanninn um og er ekki laust við að röddin titri En hún harkar af sér.

– Karlarnir þrír sem ég átti börnin með eru líka allir látnir, bætir hún við, og því engrar meðgjafar að vænta þaðan.

Þrátt fyrir að hún biðji yfirvaldsmennina að fara um sig eins mildum höndum og lögin leyfa leggur Pétur Havstein amtmaður á hana níu ríkisdala sekt sem hefði lægst getað orðið átta ríkisdalir – en að vísu hæst fimmtán dalir.

Nokkuð virðist lögreglustjóra Húnvetninga – sem var sýslumaðurinn – hafa verið mislagðar hendur, að minnsta kosti ef við gefum okkur að mér hafi ekki yfirsést neitt í dómabókunum. Hann tekur Júlíönu Gunnlögsdóttur á beinið en lætur Ólöfu Júlíönu Gunnarsdóttur í friði.

 

Systkinin fengu ekki sömu meðferð

 

Fleiri dæmi má nefna um tilviljanakenndan framgang réttvísinnar. Látum þó rúmsins vegna sitja við eitt slíkt dæmi.

Árið 1866 varð Eyfirðingurinn Markús Ívarsson uppvís að sínu þriðja lausaleiksbroti með jafnmörgum konum. Sama ár var réttað yfir systur hans, Sigríði, og hún spurð út í barneignir sínar.

– Jú, það er rétt, viðurkenndi hún, að fyrir sex árum eignaðist ég mitt fyrsta barn utan hjónabands en faðirinn er nú dáinn. Fjórum árum síðar átti ég mitt annað barn og þriðja barnið fæddist síðastliðið ár.

Þar með hafði Sigríður gerst sek um legorðsbrot í þriðja sinn, „sitt með hverjum karlmanni“, og hlaut að dæmast eftir laganna bókstaf. Hún afsakaði ekki lausaleiksbrotin né gerði hina minnstu tilraun til að draga barnsfeðurna til ábyrgðar en bað yfirvaldið þess í stað taka vægt á hrösun sinni – „þar hún sje sárfátæk og eigi geti sjeð fyrir börnum sínum“, segir í dómabókinni.

Skemmst er frá því að segja að Sigríður fékk sömu sekt og Júlíana Gunnlögsdóttir en Markús bróðir hennar var látinn í friði.

 

Breytingin mikla 1870

 

Nú stenst ég ekki mátið lengur – þótt seint verði talið hávísindalegt – að nefna grun sem læðist að mér við skotferð mína um síður dómabóka Eyjafjarðar- og Húnavatnssýslna. Eða kannski er þetta öllu heldur óljós tilfinning? Hún er sú að konur hafi frekar sætt refsingu fyrir barneignir í lausaleik en karlar. Skömmin í þessu er hins vegar að ég hef ekki gefið mér tíma til að sannreyna grun minn.

Hitt er staðreynd að eftir mitt ár 1870 þurfti ógift fólk á Íslandi engu að kvíða þótt því yrði á að fjölga kyni sínu. Hinn 1. ágúst það ár tók gildi mikill lagabálkur, almenn hegningarlög handa Íslandi, og var ekki einu orði vikið að samræði ógiftra. Við undirbúning laganna var þessu atriði þó velt upp. Nefnd sem fjallaði um frumvarpið – skipuð stiftamtmanni og dómurum við Landsyfirréttinn – benti á að samkvæmt frumvarpinu væri ekki lengur gert ráð fyrir neinu straffi fyrir þrjú eða fleiri lausaleiksbrot sem væri meiri breyting á hegningarlögum en dönsk alþýða byggi við en slíkt lauslæti var refsivert í Danmörku til 1902. Nefndin vildi þó hafa þetta óbreytt og þingmenn sáu ekki ástæðu til að fetta fingur út í þá afstöðu.

Hins vegar varð gift fólk sem fyrr að kunna fótum sínum forráð þótt enginn þyrfti að óttast að glata höfðinu eins og Stóridómur hafði hótað. Með hórfólk skildi farið eftir 160. grein laganna sem var á þessa leið: „Hver sem drýgir hórdóm, skal sæta fangelsi, eða ef hjónabands sambúðinni er slitið og aðrar málsbætur eru, þá sektum.

Opinber málssókn skal því að eins höfðuð, að það hjónanna, sem misgjört er við, krefjist þess.“

Þar með var ítrekað hið gamla ákvæði frá 1823 um fyrirgefningu makans og gott betur. Hinum brotlega í hjónabandinu var ekki lengur nauðugur einn kostur að fá fyrirgefningu yfirvalda til að komast hjá sektum. Það gat gerst undir fjögur augu og kom engum við svo fremi ekki hlypi heift og hefndarhugur í þann sem brotið var gegn.

Það segir einhverja sögu að sumum þingmönnum þótti varasamt að setja í vald makans eingöngu að ákveða hvort draga ætti hinn hórdómsseka fyrir lög og rétt.

– Slík brot gegn almennu siðgæði eru svo algeng hérlendis, sögðu þeir, að hið opinbera má ekki sleppa rétti sínum til málshöfðunar gegn hórdómsfólki. En þeir töluðu fyrir daufum eyrum löggjafans í Kaupmannahöfn.

 

Hlutfall óskilgetinna og ógiftra

 

Áður en ég slæ botn í þennan kafla um kynlíf Íslendinga á 19. öld hlýt ég að velta fyrir mér hvort hann gefi ef til vill ranga mynd eða bjagaða af kynlífshegðun forfeðra okkar.

Þegar við flettum upp í Hagskinnu sjáum við að hlutfall óskilgetinna á landinu öllu um miðbik 19. aldar var í kringum 14% af „lifandi fæddum“ – eins og það er látið heita í Hagskinnu – en var komið í 20% um 1880.

Ég veit ekki hvort þetta kallast hátt hlutfall í ljósi þess að umtalsverður fjöldi Íslendinga á 19. öld gekk aldrei í hjónaband. Því má skjóta hér inn að hlutfall óskilgetinna er yfir 60% á 21. öld.

Hagskinna varpar skýru ljósi á þessa stöðu mála í nútíð sem fortíð en til að drekkja ekki lesendum – og sjálfum mér – í talnaflóði skulum við láta duga að líta á hjúskaparstöðu miðaldra fólks. Kemur þá í ljós að árið 1850 voru ógiftar konur á aldrinum 50 til 54 alls 387 eða 22% af aldurshópnum. Samsvarandi tala hjá körlunum var nálægt helmingi lægri eða 12%.

Þrjátíu árum seinna, eða 1880, hafði hlutfall beggja hópa vaxið, ógiftra kvenna í 24% og karlana í 14%. Ein skýringin á þessu misræmi er að konurnar voru fleiri en förum ekki lengra út í þá sálma hér.

 

Ónæmir fyrir sífilis, eða hvað?

 

Að lokum þetta um lauslæti Íslendinga á 19. öld. Í Íslands-lýsingu sinni „á miðri 19. öld“, sem kom út í litlum bæklingi árið 1853, fullyrðir Adolph F. Bergsöe að erlendir sjómenn hafi iðulega borið „ franzós til landsins“.

– Þrátt fyrir þessa staðreynd, segir Bergsöe, og þrátt fyrir að Íslendingar séu „ekki skírlífir, svo orð verði á gjört“, hefur veikin „ávalt drepist eptir nokkurn tíma“.

Því hafði jafnvel verið haldið fram að Íslendingar væru ónæmir fyrir sóttinni en þegar annað kom í ljós varð til kenning um að þjóðin byggi við strangar en einfaldar siðareglur er kæmu í veg fyrir ósiðsemi. Þetta dró doktorinn og holdsveikrarsérfræðingurinn, Edward Ehlers, stórlega í efa og sagði að ekki þyrfti annað en að koma í íslenska baðstofu þar sem fólki svæfi allt í einni kös – og nakið – til að sannfærast um annað. Ehlers gat þó ekki neitað þeirri augljósu staðreynd að sífilis væri sárasjaldgæfur á Íslandi.

Franskir sjómenn á Fáskrúðsfirði.

– En það er ekki vegna siðprýði landsmanna heldur fjalla og firninda sem koma í veg fyrir mikil samskipti þeirra á milli, var skoðun hins danska doktors sem hann setti fram í ræðu og riti skömmu fyrir aldamótin 1900.

Í dagrenningu 20. aldar var staðan óbreytt. Fransós, eða sárasótt upp á íslensku, var þá fjarri því að vera landlæg á Íslandi. Með þessa ómótmælanlegu staðreynd í huga slæ ég fram þeirri fullyrðingu að Íslendingar hafi ekki verið jafn lausir í rásinni og stundum er gefið í skyn.