Þegar leið að lokum 19. aldar stóð íslenska þjóðin á krossgötum. Um aldir höfðu Íslendingar skipst í bændur og vinnufólk en nú var þessi einfalda heimsmynd á hverfanda hveli.
„Bóndi er bústólpi“ eða hvað?
Kaupstaðirnir hótuðu að bylta samfélaginu. Þar gengu fátækir jafnt sem ríkir um götur án þess að annar þyrfti nauðsynlega að vera herra hins. Vistarbandið, sem skyldaði jarðnæðislausa til að ráða sig í vinnu hjá bónda, gilti ekki í kaupstaðnum. Þar voru allir frjálsir að því að stunda þá atvinnu sem til féll og enginn var neyddur með lögum til að gerast þjónn annars.
Þeir voru ófáir sem litu þetta frjálsræði hornauga og töldu að það myndi fyrr eða síðar steypa þjóðinni í glötun. Bændamenningin var fyrir löngu orðin að trúarbrögðum – „bóndi er bústólpi / – bú er landstólpi – / því skal hann virður vel“, orti Jónas Hallgrímsson árið 1840.
Á Alþingi 1861 varaði Benedikt Þórðarson, prestur fyrir vestan, við því að afnám vistarbandsins myndi ekki aðeins svipta bændur vinnuafli – hinn frjálsi vinnulýður myndi ekki kunna fótum sínum forráð, var skoðun séra Benedikts, heldur falla í freistni og þannig venjast á vonda siði, iðjuleysi, slark og drykkjuskap. Verkafólk mun heimta hærra kaup fyrir vinnu sína og í atvinnubresti flykkjast á heimasveit sína og heimta forsorgun hreppanna eins og tilskilið var í lögum.
Kaupstaðirnir voru ógn við „kerfið“
Þannig var atvinnufrelsi kaupstaðanna ekki einasta ógn við bændur heldur einnig siðferði manna. Hver og einn varð að ganga hina fyrir fram ákveðnu þroskabraut til að verða nýtur þegn í samfélaginu. Enginn var strax í fæðingu eyrnamerktur ákveðinni stétt. Vinnumaður gat orðið bóndi og vinnukona húsmóðir á stórbýli en til þess að verða góðir húsbændur, og „bústólpar“, varð að læra réttu handtökin, temja sér ákveðna auðmýkt hugans og hlýðni sem gerðist aðeins í vist hjá góðum húsbændum.
Kaupstaðirnir grófu undan þessari lífssýn 19. aldar Íslendingsins og um leið þeim gömlu verðmætum er kynslóðirnar höfðu haft í heiðri. Vaxandi þéttbýli var ógnun við „kerfið“, rétt eins og búferlaflutningarnir miklu til Vesturheims.