Það vakti athygli Danans, Adolphs F. Bergsöe, þegar hann um miðja 19. öld gaf út lítinn bækling um Ísland hversu lífslíkur ungbarna í Danmörku voru mun meiri en nýbura á Íslandi.
– Á fyrsta ári „deyja þriðjungi færri börn“ hér í Danmörku en á Íslandi, staðhæfði Bergsöe. Og ástæðan? Jú, meðal annars og ein sú þungvægasta að oftast er farið með barnið „til skírnar, næsta daginn eptir að það er fætt, hvernig sem veður er, til kirkjunnar, sem opt liggur langt í burtu.“
Að vísu sá þýðandi ritsins, Sveinn Skúlason, síðar ritstjóri á Akureyri, alþingismaður og prestur, ástæðu til að gera athugasemd við þessi orð Danans. „Þetta tíðkast án efa ekki víða á Íslandi nú á dögum, bætti Sveinn við neðanmáls, „því presturinn er optast sóttur, eða það er beðið eptir góðu veðri, áður en farið er með barnið til skírnar.“
Hvernig sem þessu var farið þá er hitt víst að á miklu reið að barnið dæi ekki óskírt. Með skírninni var kám erfðasyndarinnar þvegið af barnshjartanu sem var forsenda þess að komast í guðsríki. Því var það að þegar illa horfði um lífslíkur hvítvoðungsins var gripið til skemmri skírnar – líka kölluð nauðsynjaskírn – svo tryggja mætti barninu fyrirgefningu syndanna og endurfæðingu til eilífs lífs.
Lengi vel þótti sjálfsagt að ljósmæður framkvæmdu skemmri skírn en 1877 þótti rétt að setja skorður við slíku athæfi. Þá var tiltekið í sérstakri yfirsetukvennareglugerð: „Verði ekki náð í prest og skorist faðir barnsins eða aðrir ráðsettir dánumenn, er við eru staddir, undan að skíra barnið skemmri skírn, skal hún [það er ljósmóðirin] gjöra það sjálf, og gefa presti skýrslu um það innan 4 daga.“