Þrjú þing

Jón Hjaltason

Á 19. öld var þinghald fastur liður í lífi bóndans. Hreppskilaþing stóðu vor og haust. Á vorþingi upplýstu bændur um eignastöðu sína en á haustin var útsvari jafnað niður og ómagar boðnir upp til framfærslu og hlaut sá sem lægst bauð enda meðlagið greitt úr sameiginlegum sjóði íbúanna sem laut einni meginreglu – sparnaði.

Hreppstjórar stýrðu báðum þessum hreppastefnum en þriðja þingið, manntalsþing, var sett og haldið af sýslumanni. Þar var meginverkefnið að leggja á opinber gjöld og innheimta. Þaðan rennur hugtakið þinggjöld sem tekur eingöngu til gjalda í ríkissjóð en ekki til sveitar.