Tíðir búferlaflutningar, því?

Jón Hjaltason

Það sem vekur furðu mína þegar ég fletti ábúendatölum 19. aldar er hversu mikil hreyfing var á fólki. Ég bendi á hin ítarlegu verk Stefáns Aðalsteinssonar og Bernharðs Haraldssonar, annars vegar um Eyfirðinga framan Glerár og Varðgjár og hins vegar um Skriðuhrepp hinn forna, þessu til sönnunar.

Ef marka má orðtakið, betri er einn húsbruni en þrír flutningar, var þó rótleysi talinn mikill skaðvaldur á 19. öld. Það vefst því óneitanlega fyrir mér að skýra hina tíðu búferlaflutninga sem framangreind rit Stefáns og Bernharðs fletta hulunni af.

Einn orsakavaldur var þó vafalaust sú staðreynd að mikill meirihluti bænda leigðu bújarðir sínar en samkvæmt Hagskinnu (sögulegar hagtölur um Ísland) voru leiguliðar árið 1901 rúm 70% allra bænda í landinu. Þetta hlutfall var enn hærra á 19. öld.

Sumir þessara leiguliða voru kallaðir húsmenn – ég ætla ekki að orðlengja hér um réttan skilning á þessu hugtaki, ef hann er þá til, en vísa í kaflann um stéttaskiptingu á 19. öld og vona að mér fyrirgefist.

 

„Þröng kjör“

 

Haustið 1875 kvartaði prófasturinn í Dalasýslu, séra Jón Guttormsson, til landshöfðingjans yfir Íslandi yfir því að fá ekki greiddan heytoll frá húsmönnum sem hefðu þó „afnot af jörðu til beitar og slægna fyrir málnytu og annan pening … sjer og sínum til framfæris.“ Göngum fetinu lengra og gefum okkur að þessir húsmenn hafi verið ábúendur jarðanna sem þeir máttu heyja og beita á kúm og kindum.

Í bók sinni um bóndann á Stóruvöllum drepur höfundurinn, Jón Sigurðsson, á kjör slíkra húsmanna en þeim var ætlað að hirða um ær landeigandans yfir vetrartímann.

– En húsmennirnir „áttu þröng kjör“, segir Jón, og „voru húsmennskuskipti þar á hverju vori.“

 

Tilbreyting

 

Það var einfaldlega undir náð og miskunn landeiganda komið – eða umráðamanns jarðar – hvort leiguliðinn sat jörðina lengur eða skemur. Slík voru kjörin. Svo má hafa á þessu endaskipti. Leiguliðinn gat vitaskuld sagt upp ábúðinni og flutt sig um set. Og það var ekki eins og hann færi úr öskunni í eldinn því að víðast hvar voru húsakynni álíka og ekki mikið mál að færa búslóðina, sem var sjaldnast mikil að vöxtum, úr einum stað í annan. Kannski þótti mönnum líka tilbreyting í því á vorin að flytjast á milli bæja og hver vissi nema grasið væri eftir allt saman grænna hinum megin við lækinn?

 

Forðast hreppsþyngsli

 

Og svo voru eflaust einhverjir í sömu sporum og Sigurður frá Balaskarði í Húnavatnssýslu sem óttaðist að verða sveitfastur í hrepp sem hafði fyrir mörgum ómögum að sjá. Sigurður hafði búið níu ár samfleytt í Engihlíðarhreppi en tíunda árið hefði gert hann sveitlægan í hreppnum. En Sigurði fannst hann greiða óhóflega hátt útsvar.

– Sem „var mest vegna hreppsþyngsla,“ rifjaði Sigurður seinna upp en þar átti hann við alla ómagana sem hreppurinn hafði á framfæri  sínu.