Víst máttu bláfátækir giftast

Jón Hjaltason

Þess hefur óneitanlega gætt hjá seinni kynslóðum að þær hafa dæmt forfeður sína hörðum dómi og sakað þá um að standa gegn og jafnvel banna giftingar fátæks fólks fyrr á tímum. Vissulega finnast þess dæmi að ráðamenn á 19. öld reyndu að koma í veg fyrir að snautt fólk næði að rugla saman reitum. Löggjafinn gaf þeim þó færri vopn í þeirri baráttu en þeir hefðu kosið

Árið 1869 kom enn einu sinni til tals á Alþingi Íslendinga hvort ekki væri rétt að setja skorður við „giptingarfrelsi fátækra og óefnilegra manna.“ Kveikjan voru þrjár bænaskrár þess efnis úr Múlasýslu en undir stóð áttatíu og eitt nafn.

– Þetta er tómt mál að tala um, hafði einn hinn sex konungkjörnu þingmanna fullyrt, etatsráðið Þórður Jónasson – svo í Alþingistíðindum en Jónassen þegar hann dæmdi Markús Ívarsson til Kaupmannahafnardvalar – svipuð erindi hafa oftsinnis komið fyrir Alþingi en stjórnvöld í Kaupmannahöfn neitað að setja frekari hömlur á giftingarfrelsi almennings en þegar eru.

– Og hvernig dettur ykkur í hug, hélt Þórður etatsráð áfram að messa yfir þingheimi, að stinga upp á öðru eins nú þegar þetta frelsi til giftinga „á seinni árum fremur hefir verið rýmkað en þröngvað í Danmörku.“

Mikill meirihluti alþingismanna var sömu skoðunar og Þórður. Og þótt 1871 væri „enn reynt að blása lífsanda í þetta margdauða mál“, eins og Sverrir Kristjánsson kemst að orði í ritgerð sinni um Alþingi og félagsmálin, þá breytti það engu um þá staðreynd að á 19. öld mátti fólk – þótt það væri örsnautt – ganga í heilagt hjónaband. Þó að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, hann að vera orðinn tvítugur og hún sextán, bæði fermd og gengið til altaris, bólusett, heil á geði og ekki holdsveik. Og síðast en ekki síst, enginn prestur mátti vígja saman fólk er stóð í skuld við fátækrasjóð. Þó var á þessa ákvæði hjónabandslaganna – eins og ég kalla hina konunglegu tilskipan um prestana embætti með tilliti til hjónabanda frá 30. apríl 1824 – ekki einhlítt. Fátækrastjórn hreppsins hafði nefnilega vald til að heimila fólki að giftast, jafnvel þótt það hefði þegið fátækrastyrk.

Ég er þó ekki trúaður á að við finnum mörg dæmi slíkra undantekninga. Sjálfur hef ég ekkert fundið. Og höfum hugfast að fátækrastyrkur var aldrei styrkur heldur lán sem forsjármenn sveitanna vöktu yfir að fá endurgreitt.