Bindindisfélagið

Vesturfarar

Áfengisböl í Winnipeg? Framfari, blað landnema í Nýja Íslandi, birti grein 22. febrúar, 1879 um óreglu meðal Íslendinga í Winnipeg. Mest bar á þessu í svokölluðu Shanty Town, þar sem menn bjuggu við þröngan kost. Blaðið segir marga einungis vinna dag og dag en slæpast um aðra daga, sóandi tekjum sínum á öldurhúsum borgarinnar. Þetta háttarlag sé þeim til minnkunar og leiði til útskúfunar úr samfélagi heiðviðra manna. Íbúar í umræddu hverfi í Winnipeg skrifuðu ritstjóra, Halldóri Briem bréf 7. mars, 1879 og báru af sér allar sakir um hvers kyns óreglusemi. Þótti þeim ritstjóri fara fram með dæmalausar sakir og rakalausan áburð. Sögðu þeir að aðeins örfáir Íslendingar í Winnipeg eigi í vandræðum með áfengi, flestallir séu reglusamir.  Engar upplýsingar um drykkjusiði borgara í Winnipeg þessa tíma (1875-1880) varpa ljósi á mál þetta en alveg er ljóst að samfélag sem mikið til var mótað eftir breskri fyrirmynd gerði ráð fyrir krám og börum. Það var ekki íslenskur siður að koma við á öldurhúsi eftir vinnudag til að fá sér krús af öli, hressingu, eins og sumir kalla það. Ungir, íslenskir verkamenn unnu við gatnagerð, húsbyggingar og þess háttar með verkamönnum af öðrum uppruna. Slíkir voru kannski vanir daglegri neyslu áfengra drykkja, það taldist hreinlega vera menningararfur frá heimalandinu. Engar heimildir eru til um almennan drykkjuskap Íselndinga á frumbýlingsárunum en alveg er ljóst að mörgum þeirra þótti sopinn góður. Kannski fundu sumir, menn og konur, leiðina inn í ,,rauða hverfi“ borgarinnar en rötuðu aldrei þaðan út aftur. Látum slíkar vangaveltur liggja á milli hluta en Halldór Briem kann að hafa heyrt lýsingar af löndum í borginni sem urðu tilefni greinar hans í Framfara, varla bjó hann þetta til.

Bindindisfélag: Um og eftir 1880, þegar efnahagur fór batnandi þá fylgdu margir Íslendingar fordæmi annarra, sem töldu krús af öli, glas af víni eða sterkari drykkja ekkert skilt við áfengisvanda. Fjölmargir Íslendingar í Winnipeg litu hins vegar alla neyslu áfengis hornauga. Menn fara að tjá sig um bindindismál á fundum og þegar Leifur hóf göngu sína í borginni 5. maí, 1883, leið ekki á löngu þar til bréf og greinar til ritstjóra um áfengismál rötuðu á síður blaðsins. Grípum niður í frásögn Tryggva Oleson en hann segir í SÍV4 bls. 399: Hinn 25. maí, 1883 ríður Gunnar Einarsson  á vaðið með grein um málið. Hann segir, að,, allt of margir Íslendingar í Winnipeg neiti áfengra drykkja sér til skaða og skammar, bæði í andlegu og tímanlegu tilliti“ Hann vill að menn stofni bindindisfélag og það sem. Til þess að það geti orðið, býðst hann til að veita $100 verðlaun hverjum þeim, sem stofnsetji lögbundið bindindisfélag innan árs frá birtingu greinarinnar. Hjálmar Arngrímsson varð næstur til að ræða málið, Hann telur bindindisstarfsemi mjög nauðsynlega, en bendir á, að menn verði að komast fyrir og ráða bót á þeim orsökum, sem leiða til drykkjuskapar. Þar á meðal telur hann tóbaksnautn og þann ósið foreldra að gefa börnum sínum mikla og óholla fæðu, sem spillir maganum og gróðursetur löngun í áfenga drykki, tóbaksbrúkun o. s. frv. En ekki þóttu Gunnari Einarssyni rökfærslur Hjálmars skynsamlegar. Orsakir til drykkjuskapar kvað hann vera þrjár; og er hin fyrsta sú,að áfengir drykkir eru allt of víða fáanlegir, önnur, að allmargir eru að náttúrufari hneigðir til nautna þeirra, og hin þriðja, vaninn….Ekki fannst G. A. Dalmann heldur, að tóbaksnautn mundi valda drykkjuskap. Hann ráðlagði öllum ungum mönnum að smakka aldrei áfenga drykki. Ef þér, bræður góðir, takið eigi fyrsta víndrykkinn, verðið þér aldrei ofdrykkjumenn.“  Þessar umræður um bindindisfélag leiddu ekki umsvifalaust til stofnunar slíks félags heldur beið það komu séra Jóns Bjarnasonar til Winnipeg ári síðar.

Kvenfélag Framfarafélagsins og séra Jón Bjarnason.  Séra Jón Bjarnason sneri til baka til Kanada í ágúst 1884 og þann 20. söng hann sína fyrstu messu. Leifur greinir svo frá:,, Miðvikudaginn 20. þ.m. flutti síra Jón Bjarnason hina fyrstu guðsþjónustugjörð í Framfarafjelagshúsi Ísl. í Winnipeg og heilsaði upp á landa sína; fólksfjöldinn var svo mikill, að fjöldi manna hlaut að standa, geta þó setið á þriðja hundrað manns í húsinu. Að aflokinni guðsþjónustugjörðinni, gat gat hann þess, að Hið Íslenzka kvennfjelag í Winnipeg boðaði til bindindisfundar föstud. 22. þ.m. og að hann flytti aðra guðþjónustugjörð næstkomandi á sama stað, einnig að safnaðarfundur yrði haldinn að lokinni guðsþjónustugjörðinni. Nú er þetta allt um garð gengið, bindindisfundurinn var haldinn síðastl. föstudagskvöld, og stýrði síra Jón honum fyrir hönd kvennfjelagsins; um 30 sálir rituðu sig í bindindisfjelagið, flest konur, að eins 7 karlmenn. Þetta er sýnishorn af hversu karlkynið er tregt að slíta trygð við Bakkus.“  Lög félagsins voru samþykkt 19. september, 1884 og þar er tilgangi félagsins lýst en hann var að berjast gegn neyslu áfengra drykkja. Ennfremur lofaði sérhver félagsmaður að neyta ekki áfengis nema að læknisráði og í heilagri kvöldmáltíð. Stjórn félagsins var kosinn í október og var séra Jón Bjarnason kosinn forseti en með honum í stjórn voru kona hans, Lára Guðjohnsen, Jón Björnsson, Andrés Reykdal og Signý Pálsdóttir. Félagið varð aldrei öflugt, flestir urðu félagsmenn 86, en lifði þó næstu árin sem sést á því að 25. febrúar sækja þrír félagsmenn, þeir Magnús Pálsson, Jón Júlíus Jónsson og Guðmundur Jónsson þing allra bindindisfélaga borgarinnar sem fulltrúar íslenska bindindisfélagsins.  Sama ár gekkst félagið fyrir undirskriftasöfnun undir bænaskrá til fylkisstjórnar um að einungis ,,gestgjafahús“ fái heimild til að selja áfenga drykki. Í árslok eða snemma árs 1887 hættir svo þetta elsta bindindisfélag Íslendinga störfum. Ýmsar ástæður ollu því t.a.m. hætti um sama leyti kvenfélag Framfarafélagsins störfum, nokkur kurr hafði verið í íslenska samfélaginu í borginni um hríð vegna náinna tengsla bindindisfélagssins og Fyrsta lúterska safnaðarins í borginni en þar var séra Jón Bjarnason prestur. Loks höfðu Íslendingar kynnst starfsemi Góðtemplarastúka í borginni og senn tóku íslenskar stúkur í Winnipeg við starfsem bindindisfélagsins.