Íslendingafélag í Ameríku

Vesturfarar

Snemma árs, 1874 voru allmargir Íslendingar búsettir í Wisconsin og skiptust menn á skoðunum um hver framtíðin yrði, hvar besta væri að setjast að. Atvinnuleysi var meir í Bandaríkjunum á þessum tímum en þekkst hafði um árabil og þótti mörgum vesturfaranum ráðlegast að finna svæði til að nema lönd og hefja búskap. Fleira ræddu menn á fyrstu mánuðum ársins, meðal annars konungsheimsókn til Íslands um sumarið og fyrirhugaða þjóðminningarhátíð 2. ágúst. Jón Ólafsson, Páll Þorláksson og séra Jón Bjarnason  voru meðal þeirra sem ræddu þessi mál sín á milli. Jón Ólafsson átti stóran þátt í hrinda hugmynd í framkvæmd, að Íslendingar í Wisconsin kæmu saman 2. ágúst og héldu sína þjóðminningarhátíð sama dag og hátíð yrði haldin á Íslandi. Þann sama dag, 2. ágúst, 1874, komu nokkrir saman í Milwaukee og stofnuðu fyrsta Íslendingafélagið í Vesturheimi. Séra Jón Bjarnason var kjörinn fyrsti forseti félagsins og Jón Ólafsson fyrsti ritari þess. Hér að neðan fara lög félagsins:

Lög Íslendinga-félags í Ameríku

1. grein

Félag vort heitir “Íslendinga-félag í Ameríku“

2. grein

Sá er tilgangur félagsins, að varðveita og efla íslenzkt þjóðerni meðal Íslendinga í heimsálfu þessari og hinn frjálsa framfarar og menningaranda, er á öllum öldum Íslandssögu hefir verið þjóð vorri til svo mikils sóma, en sporna við öllu því í andlegum og veraldlegum efnum, er leiðir til ins gagnstæða.Sér í lagi er það tilgangur félagsins að vera sambandsliður milli Íslendinga á ýmsum stöðum í álfu þessari og á milli Íslendinga hér vestra og landa vorra heima á Íslandi eða í öðrum löndum. Þannig óskar félagið að gefa einstökum mönnum eða félögum manna og sér í lagi blöðunum á Íslandi kost á öllum þeim upplýsingum og aðstoð, er í þess valdi standa.

3. grein

Félagsmaður er hver sá Íslendingur, karl eða kona, er kominn er til vits og ára og æskir að vinna með löndum sínum í Ameríku að tilgangi félagsins og staðfestir það með því, að rita nafn sitt undir lög þessi (eða senda skriflega ósk um, að verða félagsmaður, til stjórnarinnar) og sem auk þess geldur félaginu 25 cent árlega. Þó þurfa hjón aðeins að greiða gjald sem fyrir einn mann væri.

4. grein

Karlar og konur hafa allan sama rétt í félaginu.

5. grein

Stjórn félagsins hafa á hendi: forseti, skrifari og féhirðir, þeir skulu kjörnir á aðalfundi ár hvert. Enginn þeirra er að svo stöddu bundinn við stað; en hver þeirra má á sína ábyrgð setja mann fyrir sig. Ella gegni varaforseti, varaskrifari og varaféhirðir störfum þeirra í forföllum. Þeir skulu valdir um leið og aðal-embættismenn félagsins.

6. grein

Einn aðalfundur skal haldinn ár hvert á þeim stað og tíma, er félags-stjórnin ákveður, og skal hún það gjöra eftir því, sem hagkvæmast er fyrir félagsmenn. Þar sé rædd allsherjar-málefni félagsins, kosnir menn í stjörn þess, reikningar þess endurskoðaðir og yfir höfuð gjört allt það, er þurfa þykir. Aukafundi má stjórnin boða, er nauðsyn þykir til bera.

7. grein

Afl ræður atkvæðum á fundum öllum. Kosningar allar skulu skriflega fram fara.

8. grein

Forseti hefir á hendi yfirstjórn félagsins. Hann kveður menn til funda, setur þá og stýrir þeim. Honum ber að sjá um framkvæmdir á öllum ákvörðunum félagsins og hafa eftirlit með því, að hver sá, er til nokkurs starfa er kosinn ó félaginu geri skyldu sína. Skrifari heldur bók, er hann ritar í nöfn o.s.frv. allra félagsmanna og annara Íslendinga utan félagsins, sem vera kunna á því svæði, er félagið nær yfir. Í því skyni er hver félagsmaður skyldugur til að láta félagsstjórnina vita, hversu skrifa skuli utan á bréf til hans, og skýra henni frá, jafnskjótt og þess er kostur, sérhverri breyting, er á því verður. Sá, er þetta vanrækir, greiði sekt eftir því, sem félagsstjórnin ákveður, frá 5 centum til $1.00, og skal hann hennar úrskurði hlíta í bráð; en skjóta má hann máli sínu til fundar. Skrifari heldur ennfremur bréfabók og dagbók og varðveitir vandlega öll skjöl félagsins. Hann annast og skrásetningu allra bréfa og skýrslna, er félagið sendir frá sér. Forseti ritar undir öll bréf félagsins ásamt skrifara.

9. grein

Féhirðir heimtir inn allar tekjur félagsins og varðveitir, það eitt borgar hann út, er forseti ávísar.

10. grein

Félagið kýs sér fulltrúa svo marga og á svo mörgum stöðum, sem nauðsynlegt þykir. Þessa menn velur stjórn félagsins. Fulltrúar skýri stjórninni einu sinni á ári eða oftar frá ástandi Íslendinga í hvers eins bygðarlagi.

Samþykt á fundi Íslendinga í Milwaukee 2. dag ágústmánaðar 1874, á minningardag þúsund ára byggingar Íslands.

Jón Ólafsson

                 Skrifari.

 

Félagið varð ekki langlíft einfaldlega vegna þess að hópurinn sem að því stóð tvístraðist á næstu mánuðum. Sérstök deild var þó stofnuð í Ontario og þegar umræðan um alíslenska nýlendu vestur á sléttum Kanada náði hámarki þá studdi þetta félag hugmyndina (Sbr. Norðanfara 12. janúar, 1876). Áhrif þessarar félagsstofnunar urðu hins vegar talsverð á næstu árum, segja má að varla hafi Íslendingar sest að, fáeinir saman, víðs vegar í álfunni án þess að stofna félag sem skyldi starfa á sama grundvelli og ,,Íslendingafélagið í Ameríku“.