Íslenska stúdentafélagið í Grand Forks

Vesturfarar

Það er athyglisvert hversu mikla áherslu íslenskir landnemar í Ameríku lögðu á menntun barna sinna. Það hjálpaði líka að áhersla á menntun barna landnema, bæði í Bandaríkjunum og Kanada var mikil. Gott dæmi er Norður Dakota. Íslendingar fóru að setjast að þar á svæði sem Páll Þorláksson valdi árið 1878. Þetta var í svokallaðri Pembina-sýslu og um og eftir 1880 mynduðust nokkrar íslenskar byggðir. Árið 1882 voru alþýðuskólar stofnaðir og var fyrsti skólinn reistur í Garðar það ár. Þar var kennarinn séra Friðrik J. Bergmann.  Í Mountain var fyrst kennt í húsi sem Steingrímur Þorláksson lét reisa og var hann jafnframt kennari. Loks má nefna að Bjarni Dalsted var fyrsti kennarinn í skólanum í Hallson. Kennarar við skólana voru frá upphafi íslenskir svo sem Dr. Ólafur Björnsson, Dr. Magnús Halldórsson, Séra Runólfur Marteinsson, Séra Rögnvaldur Pétursson, Vilhjálmur Stefánsson, landkönnuður, Gunnlaugur Vigfússon  og loks Guðmundur S. Grímsson. Flestir þessara voru ungir námsmenn á leið í framhaldsnám og hafa eflaust haft þau áhrif á suma nemendur að þeir ættu að mennta sig. Áhugavert að stúlkur ekki síður en piltar fóru í framhaldsnám t.d. má nefna þær Línu Jakobsdóttur og Hallfríði Sigurbjörnsdóttur sem hófu háskólanám árið 1885. Lína var dóttir Jakobs Sigurðssonar Eyfjörð og Guðlaugar Benediktsdóttur en foreldrar Hallfríðar voru Sigurbjörn Guðmundsson Snowfield og Signý Magnúsdóttir sem dó á Íslandi. Bræðurnir Bragi og Skúli Guðmundssynir, synir Guðmundar Skúlasonar og Guðrúnar Guðmundsdóttur úr Skagafirði luku báðir brófi í lögum við ríkisháskólann í Grand Forks, það var Barði sem fyrstur varð Íslendinga til að útskrifast frá þeim skóla árið 1895.  Á síðasta áratug 19. aldar var fjölmennur hópur Íslendinga við nám í Grand Forks og leiddi það til stofnunar Íslenska s

túdentafélagsins í Grand Forks. Margir þeirra bjuggu hjá Jóni Jónssyni frá Munkaþverá og konu hans Guðnýjar Eiríksdóttur.

Standandi frá vinstri Peter G. Johnson, E. J. Snædal, Bjarni Jóhannsson, Vilhjálmur Stefánsson, John Samson og John G. Johnson. Sitja f. vinstri Paul E. Halldórsson, Carl Gunnlaugsson og Hjörleifur Kristjánsson.

Standandi frá vinstri. Peter G. Johnson eða Pétur Gunnlaugsson var sonur Gunnlaugur Jónssonar og Sigríður Runólfsdóttir sem fluttu vestur árið 1883 úr S. Múlasýslu og settust að  Fjallabyggð í N. Dakota.  E. J. Snædal eða Einar Jónsson var sonur Jóns Einarssonar og Hermanníu Jónsdóttur úr N. Múlasýslu, fjölskyldan notaði Snædal vestra. Við hlið Einars er Bjarni Jóhannsson, sonur Ólafs Jóhannssonar og Sigríðar Bjarnadóttur úr Skagafirði. Næstur kemur Vilhjálmur Stefánsson, foreldrar hans voru Jóhann Stefánsson og Ingibjörg Jóhannesdóttir, sem vestur fluttu frá Akureyri árið 1876. John Samson eða Jón Jónasson var sonur Jónasar Samsonarsonar landnámsmanns í  N. Dakota og seinna í Kristnesi í Vatnabyggð í Saskatchewan. Friðbjörn Samson, landnámsmaður í Garðarbyggð var bróðir Jónasar.  John G. Johnson  eða Jón Gunnlaugsson var bróðir Péturs.

Fremri röð. Paul E. Halldórsson eða Páll Eiríksson var sonur Eiríks Halldórssonar og Guðrúnar Pálínu Ísfeld Pálsdóttur. Carl Gunnlaugsson eða Karl Eggertsson var sonur Eggerts Gunnlaugssonar og Rannveigar Rögnvaldsdóttur, sem vestur fluttu úr Skagafirði 1876. Hjörleifur Kristjánsson var sonur Trausta Kristjánssonar og Sigrúnar Sigurðardóttur sem vestur fluttu úr S. Þingeyjarsýslu árið 1883.