Kvenfélagið í Winnipeg

Vesturfarar

 

Rebekka Guðmundsdóttir var kosinn fyrsti formaður Kvenfélagsins árið 1881. Hún var þá ekkja eftir Jón Árnason frá Máná á Tjörnesi.

Kristrún Sveinungadóttir og dóttir hennar Svava Björnsdóttir tóku mikinn þátt í starfsemi Kvenfélagsins frá upphafi. Þær fóru vestur til Winnipeg árið 1876.

Kvenfélag stofnað: Á árunum 1879-1881 efldist íslenska samfélagið í Winnipeg til muna. Margir gáfust upp á baslinu í Nýja Íslandi, fluttu þaðan til Winnipeg til að safna kröftum og skoða önnur tækifæri. Þá bættust við einstaklingar sunnan úr Bandaríkjunum og frá Íslandi. Öllum var ljós nauðsyn þess að í borginni væri einhvers konar íslensk stofnun eða félag til að liðsinna nýkomnu fólki. Hér var komið tækifæri fyrir íslenskar konur að leggja sitt af mörkum. Nokkrar konur komu saman og skipulögðu hlutaveltu í september og var ágóðinn, 64 dalir gefinn í hússjóð Framfarafélagsins. Almenn ánægja ríkti með framtakið og það leiddi til þess að 1. október var formlegt kvenfélag stofnað í Winnipeg og fyrsta verk félagsins var að setja á svið leikritið ,,Sigríður Eyjafjarðarsól“ og með ágóðanum mynduðu þær félagssjóð. Séra Rögnvaldur Pétursson heyrði á sínum tíma frásögn frá stofnun félagsins og segir svo:,, Það var upphaf þessa félags, eftir því sem ein af stofnendum hefur skýrt oss frá, að konur nokkrar og stúlkur gengu dag einn seint um sumarið vestur úr bænum, sér til gamans, vestur á grassléttuna miklu, er breiðir sig svo langt sem augað eygir norður og vestur af Winnipeg….Þegar út á sléttuna kom, settust þær niður og fóru að tala um ásigkomulag innflytjendanna og annarra í bænum. Kom þeim þá saman um, að þær skyldu stofna félag meðal íslenzkra kvenna í Winnipeg, og skyldi félagið leggja fram krafta sína til liðsinnis allslausu fólki og þeim fyrirtækjum, er verndað gæti yngri sem eldri frá því að lenda hér í sorpinu. Konur þessar voru Rebekka Guðmundsdóttir og dóttir hennar Guðrún Jónsdóttir, Kristrún Sveinungadóttir og dóttir hennar, Svava Björnsdóttir, Þorbjörg Björnsdóttir, Signý Pálsdóttir, Helga Jónsdóttir og Hildur Halldórsdóttir.“ (SÍV4: bls.336-337) Rebekka var kosin forseti félagsins, Svava ritari og Signý gjaldkeri.

Starfsemi félagsins: Fyrstu misserin einkenndist starfsemi félagsins af ýmsum leiðum til að afla fjár til styrktar ýmsum þarflegum verkefnum Framfarafélagsins svo og annarra. Félagið skipulagði alls kyns samkomur t.a.m. hlutaveltur og leiksýningar og þá efndi það reglulega til samskota meðal almennings eða félagskvenna þegar þörfin var brýn. Efnaðar konur gáfu reglulega til félagsins, aðrar hluta af launum sínum eins og Guðrún Jónsdóttir. Áhugi hennar á starfi félagsins var einstakur og lét hún helming launa sinna renna til félagsins. Félagið gaf í fátækrasjóð, styrkti barnaskólahald Framfarafélagsins og í minnisvarðasjóð Hallgríms Péturssonar á Íslandi. Sennilega er þó mikilvægasta starf félagsins þessa ára aðstoðin við nýkomna vesturfara frá Íslandi. Sem dæmi má nefna árið 1883 þegar stór hópur (Vesturfaraskrá segir að 1215 hafi farið vestur 1883) kom frá Íslandi til Winnipeg. Þá unnu kvenfélagskonur í tvær vikur í svokölluðu innflytjendahúsi í Winnipeg við matargerð til að undirbúa komu fólksins. Fremstar í flokki voru þær Kristrún Sveinungadóttir og Sigurborg Pálsdóttir. Um þetta skrifaði Friðrik J. Bergmann í Almanakið 1904 bls. 102:,, Ekkert í sögu Vestur-Íslendinga er fegurra en það, hve annt þeir hafa látið sér um að vera frá fyrst til síðast að liðsinna og leiðbeina nýkomnu fólki íslenzku með öllu móti og leggja oft stórkostlega mikið í sölurnar, ekki aðeins fjármunalega, heldur með því að ganga svo nærri sér á ýmsan hátt.“ Í janúar, 1884, efndi félagið til kvöldverðarsamkomu og var tilefnið að safna fé til húsbyggingar fyrir Framfarafélagið en í auglýsingu stóð líka ,,því nú eigum við von á góðum presti að heiman í sumar.“ Mikið var kappkostað að gera þessa miðsvetrarsamkomu eins veglega og kostur var. Vandað var val ræðumanna, skálda og söngfólks. Friðrik J. Bergman skrifaði í áðurnefnt Almanak bls. 102-103:,, Og þar sem kveldverðarsamkoma þessi er eiginlega fyrsta samsætið, sem Vestur- Íslendingar reyna að vanda til eftir föngum, er réttast að skýra frá því, sem fram fór. Fyrst voru vistir frambornar og gestirnir látnir setjast að velbúnum borðum, er stundu undir mörgum krásum og dýrum. Að kveldverðinum loknum byrjuðu ræður og söngur. Þar var kvæði sungið til gestanna eftir Vilhelm Pálsson, og ræða haldin af S. Stefánssyni um tilgang samkomunnar; Árni Friðriksson talar fyrir minni kvenna; Sigurður Jóhannesson og Bárður Sigurðsson fluttu báðir kvenfélaginu kvæði; Jón Runólfsson talar fyrir minni sönglistarinnar; Baldvin Baldvinsson flytur ræðu um jafrétti karla og kvenna, en Vilhelm Pálsson kvæði, Lýðhvöt. Magnús Pálsson talaði til barna og unglinga og var á eftir því sungið kvæði eftir Vilhelm Pálsson. Kristrún Sveinungadóttir talaði um mentunarástand íslenskra kvenna. Páll Magnússon flutti ræðu til Kvenfélagsins, Jón Björnsson talaði um frelsið og hvernig menn ættu að hagnýta sér það. Þá talaði Vilhelm Pálsson um skáldskap og Magnús Pálsson flutti skilnaðarorð í nafni Kvenfélagsins og var þá samkomunni slitið með því að syngja þjóðsönginn enska: God Save the Queen.“ 

Kvenfélagskonur í Winnipeg árið 1881. Mynd HIPM

Breyttir tímar: Kvenfélagið í Winnipeg var sérstaklega farsælt í einhver fimm til sex ár en þá fór áhugi á starfseminni hnignandi. Mikill gróska var í Fyrsta lúterska söfnuðinum í borginni og vildu sumar konurnar beina kröftum sínum þar. Nokkurs konar klofningur innan kvenfélagsins átti sér stað, yngri konur, tiltölulega nýkomnar í kvenfélagið voru frekar hlynntar samstarfi við söfnuðinn. Þær sem rutt höfðu brautina og starfað í félaginu frá upphafi, konur eins og Kristrún Sveinungadóttir, Guðrún Jónsdóttir og Signý Pálsdóttir áttu erfitt með að sætta sig við slíkar hugmyndir. Smám safnan dofnaði yfir kvenfélaginu, starfsemin dróst saman og félagskonum fækkaði, sumar sögðu sig úr félaginu aðrar hættu allri þátttöku. Um árið 1890 leystist félagði endanlega upp. Svipað var um Framfarafélagið, það blómstraði á árunum 1881-1885 en svo urðu tímamót. Séra Jón Bjarnason á sinn þátt í hnignun þessara tveggja félaga því þegar hann snýr aftur til Winnipeg og hleypir lífi í frekar máttvana söfnuðinn í borginni þá flykkjast menn um prestinn og efla starfsemi safnaðarins. Það sama gerðu ungar konur úr kvenfélaginu og 5. ágúst, 1886, gengu fjölmargar þeirra í nýtt kvenfélag sem Lára Guðjohnsen, eiginkona séra Jóns Bjarnasona stofnaði. Hét það Kvenfélag Fyrsta Lúterska safnaðar.