Guðrún Jónsdóttir

Vesturfarar

Guðrún Jónsdóttir kom til Winnipeg árið 1876, 19 ára gömul, foreldrar hennar fóru til Nýja Íslands. Hún hefur verið ein af fyrstu Íslendingum til að setjast þar að en vert að taka fram. Þótt hún hafi unnið á heimili enskumælandi hjóna þá hefur hún örugglega komist í kynni við landa sína í borginni. Fjölmargar ungar stúlkur og piltar voru með þeim fyrstu til að setjast þar að á árunum 1876-1880. Guðrún hefur áreiðanlega kynnst fólki sem erfiðlega gekk að fóta sig í fjölþjóðasamfélagi því sem var að mótast í borginni. Árið 1880 koma foreldrar hennar til borgarinnar úr Nýja Íslandi, faðir hennar þá sjúklingur og lést hann í borginni skömmu síðar. Móðir hennar, ekkjan Rebekka Guðmundsdóttir hefur fljótlega séð að fleiri konur áttu um sárt að binda, sumar bjuggu við erfiðar kringumstæður. Hún átti mikinn þátt í því að íslenskar konur ákváðu að stofna einhvers konar félag til að hjálpa bágstöddum löndum og árið 1881 varð það til. Kynnum okkur þann félagsskap aðeins. Í 1. árgangi Tímarits Þjóðræknisfélags Íslendinga árið 1919, sem prentað var í Winnipeg birtist grein eftir Rögnvald Pétursson sem hann kallar ,,Þjóðræknissamtök Íslendinga í Vesturheimi“. Framhald birtist í 2. árgangri árið 1920 og hefst svo:,, Um sumarið 1881 var stofnað „Hið íslenzka kvenfélag í Winnipeg“ Er það að að líkindum fyrsti félagsskapur af því tagi meðal Íslendinga hér í álfu“.

Sumargöngutúr

Rögnvaldur Pétursson heldur áfram: ,,Það var upphaf þessa félags, eftir því sem ein af stofnendum hefir skýrt oss frá, að konur nokkrar og stúlkur gengu dag einn seint um sumarið vestur úr bænum, sér til gamans, vestur á grassléttuna miklu er breiðir sig svo langt sem augað eygir norður og vestur af Winnipeg. En eigi þurfti langt að ganga í þá tíð til þess aðkomið væri fram á sléttuna, því bærinn var þá lítt bygður þann veg, en mestur fram með árbökkum. Þegar út á sléttuna kom settust þær niður og fóru að tala saman um ásigkomulag innflytjendanna og annara í bænum. Kom þeim þá saman um að þær skyldu stofna félag meðal íslenzkra kvenna í Winnipeg, og skyldi félagið leggja fram krafta sína til liðsinnis allslausu fólki og þeim fyrirtækjum, er verndað gæti yngri sem eldri frá því að lenda hér í sorpinu. Konur þessar voru Rebekka Guðmundsdóttir, dóttir hennar Guðrún Jónsdóttir gift Kristni skáldi Stefánssyni, Kristrún Sveinungadóttir, dóttir hennar, Svava Björnsdóttir gift 1885 Birni Sæmundssyni Líndal, búa við Markland í Grunnavatnsbyggð., Þorbjörg Björnsdóttir, kona Björns Jónssonar frá Ási í Kelduhverfi, Signý Pálsdóttir kona Eyjólfs Eyjólfssonar í Hróarstungu, Helga Jónsdóttir kona Jóns Ólafssonar amtsskrifara og Hildur Halldórsdóttir ekkja Jóns Sigfússonar. Fund héldu svo þessar konur nokkru þar eftir í húsi Rebekku Guðmundsdóttur og voru þá fleiri saman komnar. Var Rebekka kosin forseti, Signý Pálsdóttir féhirðir“.

Framlag Guðrúnar

Félagið starfaði af krafti frá upphafi og lét margt gott af sér leiða. Aðallega stóðu félagskonur að fjársöfnun til stuðnings ýmissa góðgerðamála.  Mæðgurnar Rebekka og Guðrún voru öflugar á upphafsárunum og um þátt Guðrúnar skrifaði Rögnvaldur eftir að hafa fjallað um fjárgjafir félagsins m.a til skólahalds Framfarafélagsins í borginni:,,Auk þessa, þetta fyrsta starfsár sitt, gaf einn af stofnendunum, Guðrún Jónsdóttir, er áður er getið, helming vinnulauna sinna það ár til skólahaldsins, og nam sú upphæð $7.50 á mánuði. Var þetta alt saman mikið fé, þegar teknar eru til greina fjárhagsástæður fólks á þeim árum. Einkum var það mikið að gefa hálf vinnulaun, af ungri stúlku er vann í heimavist fyrir $15.00 um mánuðinn. Sýndi það umhyggju með þeim, er mentunar þurftu að njóta, og þá hugsun að unglingum yrði gert svo létt sem auðið væri að komazt hér til manns.“ Framfarafélagið og Hið íslenzka kvenfélag unnu mikið og gott starf saman en þegar safnaðarfélg íslensku kirkjunnar tók til starfa með endurkomu séra Jóns Bjarnasonar fóru áherslur að breytast. Um þetta skrifaði Rögnvaldur:,, Um næsti tvö árin mun félagið hafa starfað á sama hátt og verið hafði, var samkomulag hið bezta og samvinna við Framfarafélagið, en úr því fer að bera á óeiningu. Fór með það eins og Framfarafélagið, að kraftarnir skiftust eftir að safnaðarstarfsemin fór að krefjast meiri tíma og fjárframlaga. Vildu sumar félagskonur, er þá höfðu fyrir skemstu gengið í félagið, að félagið sneri sér eingöngu að safnaðarstarfseminni, en nokkrar kinar eldri svo sem Guðrún (Jónsdóttir) Stefánsson, Kristrún Sveinungadóttir, Signý Pálsdóttir o.fl. voru því motfallnar, þótti þá hinum upprunalega tilgangi félagsins vera glatað. Efldust þannig tveir flokkar, en kraftarnir ekki nógir til að vinna að hvorutveggja. Fór þá sem oft vill verða, að áhuginn fyrir félagsskapnum dofnaði, urðu flokkarnir bráa ójafnir og réði meirihlutinn. Þær sem andvígar voru því, að snúa félaginu upp í safnaðarkvenfélag, ýmist sögðu sig úr eða urðu sem dauðir félagslimir. Leystist félagið þannig upp og eftir árið 1890 mun þess að engu getið.“