Þorleifur Jóakimsson

Vesturfarar

Þorleifur Jóakimsson vann mikið afrek með vinnu sinni Landnámssaga Nýja-Íslands í Canada. Þetta eru reyndar þrjú rit og kom hið fyrsta, Brot af Landnámssögu Nýja Íslands út í Winnipeg í Manitoba árið 1919. Frá Austri Til Vesturs var gefið þar út árið 1921 og þriðji hlutinn Framhald á Landnámssögu Nýja Íslands kom út sama ár og hann lést, 1923. Hann hafði þá um nokkurt skeið unnið að sögu Íslendinga í N. Dakota, hafði safnað miklu efni og skráð heilmikið. Dóttir hans Þórstína tók upp hanskann og lauk verkinu 1926. Góður vinur Þorleifs listamaðurinn Percy Grainger skrifaði um verk vinar síns á sínum tíma og fékk Þórstína leyfi til að birta það í sínu ritu. Þýðinguna gerði Einar Benediktsson. (JÞ)

“Álit Percy Aldridge Graingers um Þorleif Jackson, sem rithöfund.

(Þýtt af Einari Benediktssyni.)

“Ritverk það, er Þorleifur Jackson hefir samið um lífsferil og viðfangsefni íslenzkra nýbyggjara í Canada og Bandafylkjunum,, er að mínu áliti eitt hið mesta stórvirki í bókmenntum vorra tíma. Það er einsdæmis verðmætt af tveim ástæðum, í fyrsta lagi fyrir ritsnilld, þennan innblástur af ást til sannleikans, sem er leiðarstjarna allrar listar, og í öðru lagi fyrir gagnskoðun og lýsing á þeim sérlegu greinum manndygðar, er siðleg og efnaleg heilsa slíkra landa sem Vesturheims, Canada og Eyálfu hlýtur lífsnauðsynlega að byggjast á -höfðingsskap, hreysti og þrautseigju jarðyrkjarasns. Föðurlandsást, velgengni og andleg framtíð eru komin undir því, að þannig sé lífi lifað, sem sagt er frá í þessum æfiskýrslum. Bókmentir allra tíma eru háðar þeim einkunnum, sem Þorleifur Jackson sýnir í svo ríkum mæli í þessu verki, gáfu hins gagnorða, rækt við þau söguatriði, sem lýsa andanum, auðmýkt hins skapandi, örlynda höfundar, er gleymir og glatar, og einmitt þess vegna finnur sjálfan sig í fögnuði þess að lýsa lífi annara, en það er sérstakur hæfileiki, er vex af sér sjálfum við óbilandi, safnandi reynslu í eigin skóla. Þetta er gagngerð list, full af framkvæmdum, lífrænu afli, er kveður hásöng fyrir atorku tilvistar vorrar eins og hún er, fyrir víðáttu jarðvegsins eins og hann er, fyrir hinum sannandi vitnisburðum um hversdagsiðju mannlegrar æfi eins og hún er og fyrir ánægju yfir grundvallarlögum lífsins eins og þau eru. Íslenzkar bókmentir hafa, frá því er Saga hófst, ætíð átt þessa máttugu, aðalbornu, einkunn hetjulundar, frelsisástar og sannleiksþrár. Vegna þess dæma margir á meðal vor að þær standi hæst í heimi. Það sem er nýtt í þessu verki eftir Þorleif Jackson, er samræming þess, á slíkum grundvelli, við yfirlit og skipulag sögu í hinum nýja heimi. Þegar Walt Whitman skrifaði um mikilfeng kvæði frá öðrum löndum, sem gegnum aldir breiddust út og gagntóku Vesturheim – “varð þá nokkurt þeirra samræmt við þessi ríki, eða átti eðlilega við þau eins og þau eru og eiga að vera? Er nokkurt þeirra slíkt, að ekki sé bygt á afneitun og móðgun gegn lýðveldinu?“, er kemur fram hjá Þorleifi Jackson, þar sem hetjudáðir hins hversdagslega lífs eru látnar nægja sem söguefni, og þar sem höfundurinn setur sér ekkert hærra mið, en að segja sannleikann skýrt, blátt áfram og áheyrilega. Jackson hefir sameinað beztu eftirmynd íslenzkrar ættasögu við hinn göfugusta anda amerískrar lýðhollustu. Til fullnaðarstarfsins við það bindi verksins, sem ófullgert var þegar dauða höfundarins bar að höndum, gekk dóttir hans, Thórstína Jackson, með þeirri rækt við minning föður síns, við hugsjónir hans, reynslu og staðfestu, að fullkomið samræmi var við anda verksins í heild.

Sig. Percy Grainger

20. júní, 1925