Ágúst Magnússon

Vesturfarar

Fyrstu ár Ágústs Magnússonar frá Vatnsnesi í Húnavatnssýslu í Vesturheimi vöktu athygli Þorleifs Jóakimssonar, sagnaritara, þegar hann vann landnámssögu Nýja Íslands. Í riti sínu ,,Framhald af Landnámssögu Nýja Íslands“, sem kom út í Winnipeg hjá Columbia Press Ltd. árið 1923 segir hann svo um Ágúst:

,,Hann er fæddur í Kothvammi á Vatnsnesi í Húnavatnssýslu, 25. október, 1863. Foreldrar hans voru hjónin Magnús Magnússon og Margrét Jónsdóttir, bæði fædd og uppalin í Húnavatnssýslu. Ágúst var uppalinn hjá frænda sínum, Jóni Árnasyni, er bjó á Illugastöðum á Vatnsnesi, þar til hann var 12 ára gamall. Næstu þrjú ár var hann hjá Jakob Bjarnasyni tengdasyni Jóns Árnasonar, fór svo aftur til fóstra síns, og var hjá honum þar til veturinn 1885, að hann fór til sjóróðra suður á Seltjarnanes, til Guðmundar Einarssonar í Nesi, og var hjá honum tvo vetur og eina vorvertíð, en að sumrinu leitaði hann til æskustöðvanna. Árið 1886 tók hann undirbúningspróf í skrift og reikningi, og fékk leyfi til að vera tekinn inn í búnaðarskóla næsta vor, og bauðst Jakob Bjarnason til að ábyrgjast allan kostnað. 

Blikur á lofti:

,,Það sama vor, 1887, kom hinn illa þokkaði heimskautabúi, og lagðist að Norðurlandi.“ Bregðum okkur aftur í tímann og skoðum hvernig Ísafold segir frá tíð, ís og hallæri í pistli þann 29. júní: (innskot JÞ) ,,Rigningatíð mikil hefir verið hér um Suðurland nú í 3 vikur, til mikils baga fyrir fiskverkun, en hefir hleypt upp gróðri í betra lagi, þó ekki hafi verið hlýtt í veðri. Norðanlands og vestan hefir verið þurrviðrasamara og hlýindi meiri, þrátt fyrir hafísinn, sem enn mun vera ófarinn frá landinu, svo að trútt sé. Á helginni síðustu (26. þ. m.) var enn mikill ís á Húnaflóa norður af Vatnsnesi og út með eystra landinu.“ (úr safni Trausta Jónssonar veðurfræðings) ,,Húnaflói allur varð þakinn hafís, og gróðurlaust varð langt fram á sumar. Breytti þá Ágúst áformi sínu með að fara á búnaðarskólann, og setti sér að verja öllum kröftum til þess, að koma foreldrum sínum úr harðinda og hungurplássi, sem þá var víða á Norðurlandi, þangað sem æfikvöld þeirra kynni að verða sólskinsríkara, heldur en síðustu ár þeirra höfðu verið á hina kalda og hrjóstuga, en þó kæra Vatnsnesi. Og til að ná því takmarki, var ferð byrjuð 24. ágúst, 1877, frá Borðeyri á skipinu Camoence á leið til Vesturheims, þangað sem vonirnar höfði vísað mörgum áður, – þangað, sem að blíða náttúrunnar og frjóvmagn jarðarinnar breytti í flestum tilfellum fátækt í sjálfstæði. “ (Lesandi kann að draga þá ályktun af þessum skrifum að Magnús og Margrét hafi farið vestur með Ágústi. Svo var ekki. Hann fór vestur til að undirbúa ferð þeirra þangað. Innskot JÞ) ,, Þótt vonarljósið væri bjart, þótti samt sárt að skilja við æskustöðvarnar, þungar voru öldurnar norður Húnaflóa, vestur fyrir land og til Reykjavíkur; þaðan var haldið til hafs 28. ágúst, og annan dag septembermánaðar, var lending tekin í Granton, og farið með járnbraut til Glasgow, þaðan sem haldið var með gufuskipi Allan-línunnar, Grecian, næsta dag, og komið til hafnar í Quebec þann 13. sama mánaðar. Voru í þeirri ferð nálægt 300 Íslendingar.“ 

Ágúst og Sveinn fóru með T. C. Rae til Montreal og þaðan norður til Matagami. Þar vestur af í Ontario voru þeir félagar í ferðum á slóðum indjána. Leiðin frá Montreal til Matagami var rúmir 700 km.

Á slóðum Indjána: 

,,Ágúst og Sveinn Bergmann Þorbergsson (úr Árnessýslu) skildu við hópinn í Quebec, og réðu sig til vinnu hjá skozkum verzlunarstjóra, T. C. Rae, er verslaði við Hudsons flóafélagði (Hudson Bay Company) norður af Ontario, nálægt Matawagamnegue, var í byrjun talað um tveggja mánaða tíma, og tvö pund sterling um mánuðinn í kaup fyrir hvern þeirra. En síðar reyndist margt öðruvísi en túlkað hafði verið, svo að ef sannleikurinn hefði allur verið sagður í byrjun, hefði hvorugur bundist þeim vistarböndum. Ferðin frá Quebec til Matawagamnegue var breytileg, fyrst með járnbraut til Montreal; þar dvaldi Rae í tvo daga og eyddi þeim tíma til að skemta nýju vinnumönnunum sínum, og aðra tvo daga var hann í Matawa. Íslendingarnir kunnu aðeins fáein orð í ensku; var þá farið að dreyma um alsnægtir og listisemdir, þegar járnbraurtarlestin, sem þeir ferðuðust með stansaði í Matagami, þar sem nálægt 30 indjánar heilsuðu Mr. Rae með beigingum og bugti. Með þeim hóp var þeim vísað að fara út í skógarrjóður og neyta þar kvöldverðar, samkvæmt indjánasið. Reyndist þeim fyrsta máltíðin ekki ljúffeng, og svo var lagst til hvíldar, og hafði hver eina ábreiðu og eina eða fleiri skógargreinar fyrir kodda. Draumar voru breytilegir, og þegar lýsti af degi, var allur hópurinn látinn raða sér kringum lítinn eld, og morgunverður tekinn. Við hverja máltíð var búið til brauð, steikt flesk og hitað te. Tólf pund af hveiti, tvö pund af svínaflesk, og te eftir þörfum, var ætlað hverjum vinnumanni til hverrar viku, og engin önnur fæða í ferðalögum. Eftir máltíð var gengið þangað sem skip og farangur félagsins var, voru það átta stórir barka-bátar, og bar hver þeirra nálægt 30 hundruð pund og fjóra menn, var þeim stundum mokað áfram, stundum róið, og stundum siglt, þegar vindur var hagstæður, og leið lá eftir löngum vötnum, svo voru bátar og farangur borið millum vatna í 18 stöðum á þessari leið, og lengsti áfanginn var um 3 mílur, var þá hafður selflutningur, og farinn fjórðipartur úr mílu í senn, og hvíldust menn á því, að hlaupa við fót byrgðarlausir aðra leið. Vegurinn lá mest í gegnum skóglendi, en víða brunninn skógur og ógreitt yfirferðar. Reglan var, að hver maður maður bæri 200 pund (tvo hveitipoka) og stundum 260 pund (tvö kvartel) af söltuðu fleski. Þegar svona hafði verið ferðast í sjö daga, var lent við verzlunarstöð félagsins í Matawagamnegue, þar voru nokkrir sterkir og reisulegir bjálkakofar, þrjú íveruhús, kirkja (enska kirkjan, Church of England), stór verzlunarbúð og fjós fyrir 10 gripi.                                                                                                                                                                                                                  Þegar vatnaferðum var hætt á haustin, var aðal vinnan að ferðast meðal Indjána og skifta vörum, voru þá vanalega tveir saman, gengu á snjóskóm (þrúgur) og drógu flatsleða með áætlaðri þyngd fyrir hvern 200 pund. Í þeim ferðum var altaf sofið undir beru lofti við elda hvað kalt sem veður var, aðeins ríkustu Indíánar áttu sér barkarkofa, allur fjöldinn með konur og börn, braut lim af trjánum og bjó til skýli vindmegin við eldana og óhætt mun að fullyrða að engir auðmenn lifandi við alsnægtir í skrautlegum höllum, hafa verið ánægðari, heldur en fjöldinn af þessum Indjánum, sem í sannleika áttu ekkert annað skýli en frosna limið, engann forða fyrir næstu daga, með eina lélega byssu, öxi og hníf, voru þeir eins ánægðir, eins bjartsýnir og djarfir eins og nokkrir auðmenn undir vernd mentunarinnar hafa nokkru sinni verið, að sönnu fljótir að reiðast og hefnigjarnir, en á sama tíma drenglundaðir og hjálparfúsir. Hið eina, sem virtist angra hina eldri og framsýnari, var óttinn fyrir því að Sakanass (hvítu mennirnir) héldu áfram að stela þeirra landi, og eyðileggja þeirra hjarðir.

Árið 1888: Tveir mánuðir á ári, janúar og febrúar voru ákvarðaðir fyrir vinnumenn félagsins, þó ársmenn væru, til að fara á veiðar, var þeim talin sú veiði í kaupbætir, en urðu þó að selja félaginu. Höfðu þeir Ágúst og Bergmann nálægt 30 dollara hver í kaupbætir fyrir sína vinnu. Árið 1888 byrjuðu þeir að vinna í Matawagamnegue. Bergmann vildi þá fara að hætta og neitaði algjörlega að vera lengur, því hann væri kominn nær dauða en lífi, vegna harðrar vinnu og ónotalegs fæðis og þá sérstaklega vegna leiðinda, var honum þá tilkynt, að engar ferðir yrðu farnar til járnbrautar fyr en ísa leysti næsta vor, og mundi hann ekki geta farið einsamall á þriðja hundruð mílur í gegnum óbygðir, og hlyti hann því að bíða til næsta vors. Ágúst voru boðin 27 pund sterling um árið (135 dollarar) ef hann vildi vera, og þótti það á þeim tíma hátt kaup hjá því félagi. Gaf hann kost á vistarráðningi, ef félagið lánaði honum 100 dollara, og var það sagt velkomið. Þá peninga sendi hann foreldrum sínum í janúarmánuði, og var þá takmarkinu náð, þó eftir væri að fella marga svitadropa og lifa margar leiðindastundir, sem aðallega byrjuðu fyrsta júní, daginn sem Bergmann fór alfarinn frá Matawagamnegue, þeir félagar höfðu lifað saman marga erfiða stund, stundir er höfðu bundið þá sterkum vináttuböndum, og sá skilnaður var báðum þungur. Þá var Ágúst látinn vera heima, og lét Tae hann vinna með sér, og hann, sem oft hafði virst harðstjóri, breytti skapi sínu svo til batnaðar gagnvart Ágúst, að það var vafamál, hvort hann hefur eignast nokkurn trúari vandalausan vin en Rae. Samt fagnaði Ágúst lausnardeginum í byrjun júní 1889, þegar barkarbáturinn bar hann að járnbrautarstöðinni í Matagami og farbréf var fengið á leið til Winnipeg.

Manitoba: Ágúst fór hefðbundna leið suður til Montreal og þaðan til Toronto. Þá tók við lestarferð vestur til Winnipeg í Manitoba og þar beið Sveinn Bergmann hans á járbrautarstöðinni. (innskot JÞ),,Varð mikill fagnaðarfundur, er þeir félagar hittust aftur, og endurnýjuðu þeir vináttu sína í greiðasöluhúsi B.S.Lindals. Næst var járnbrautarvinna fyrir þá báða á Rauðárdalsbrautinni, nærri tvo mánuði og svo þreskingarvinna fyrir Ágúst í nánd við Brandon. Voru þá foreldrar hans og þrjú systkini þangað komin og leið öllum vel. Leið svo tíminn, að Ágúst vann járnbrautarvinnu, og bændavinnu, og um tíma við smíðar. Einnig sagði hann til nokkrum íslenzkum börnum um vetrar tímann, og árið 1891 fór hann í félag við mann, Jón Jónsson að nafni. Keyptu þeir Brandon Laundry (þvottahús), starfið og áhöldin fyrir 400 dollara; unnu saman við það verk rúmlega tvö ár, og höfðu allgóðan afgang eftir kosnaði. Þá reis úr logni og blíðu ímynduð alda, svo ókyrrast fór sambúð skyldmenna, og sú bára bar Ágúst og foreldra hans til Nýja Íslands, í hina svokölluðu Ísafoldar-bygð; og ári síðar skolaði brimið einnig systkynum hans, Guðmundi og Rósu til Nýja Íslands; var það stór óhagur fyrir þau bæði, því þeim leið ágætlega vel í Brandon, mistu arðsama vinnu er þau höfðu haft hjá enskumælandi fólki, og töpuðu eigum, en miklir erfiðleikar biðu þeirra, eins og flestra, er land nema eignalausir, og svo kom virkileg alda 1895, þá alt undirlendi flæddi í Ísafoldar-bygð og rak bygðar menn á flótta. (Mikil flóð úr Winnipegvatni).                                                                                                                                                                                                        Sumarið 1896 og 1897 vann Ágúst hjá fiskifélögum á Winnipeg-vatni. En á báðum vetrum á þeim árum hafði hann heimili sitt í Engey (smáeyja norðvestur af Mikley), hjá Jóhanni Straumfjörð, og fimta febrúar 1898, hafði lánið leitt hann að því takmarki að eignast fyrir konu Ragnheiði, dóttur Jóhanns Straumfjörðs.“