Anna Geir

Vesturfarar

Jóhanna Geirlaug Jóhannsdóttir (Lauga Geir) skrifaði grein um móður sína, Önnu Geir sem birt var í „Pembina County Pioneer Daughter Biographies“ sem George A. Freeman bjó til prentunar og gefið var út í N. Dakota árið 2004. Greinin er á ensku  og þannig er hún birt í enska hluta vefsíðunnar en hér að neðan er grein sem byggir á verki Laugu Geir:

Ísland og Ameríka – örlagarík vesturför 

Anna Kristín Jónsdóttir var dóttir Jóns Jónssonar og miðkonu hans, Guðrúnar Bjarnadóttur sem bjuggu á Kolsstöðum í Miðdölum í Dalasýslu. Hér ólst hún upp í leik og starfi með bræðrum sínum, Jóni, þeim eldri og Gunnlaugi þeim yngri en báðir fluttu þeir vestur og bjuggu í Thingvallabyggð í N. Dakota. Móðir hennar lést þegar börnin áðurnefnd voru lítil og tók nú eldri systir við móðurhlutverkinu, ósérhlífin og kröfuhörð. Að því kom að húsbóndinn kvæntist í þriðja sinn, á heimilið kom ekkja með sinn barnahóp. Ólíkt ,,vondum“ stjúpmæðrum reyndist hún einstaklega blíð og gerði ekki upp á milli barnanna. Árin liðu, Anna þroskaðist úr barni í ungling og loks myndarlega konu. Þegar hér er komið sögu er hún 26 ára og í sveitinni töldu menn víst að senn gengi hún í farsælt hjónaband þar um slóðir. Á þessum tíma voru Íslendingar farnir að flytja vestur um haf til að setjast að í Bandaríkjunum eða Kanada. Fregnir þaðan náðu eyrum Önnu, hún las hvað hún fann um Ameríku og hugur hennar fór á flug. Sagt var frá miklu vatni einu í miðju Kanada,Winnipegvatni sem fullt var af fiski, umvafið miklum, skjólgóðum skógi sem úr mætti vinna húsbyggingarefni og þar sáu stjórnvöld til þess að allir landnemar fengju tækifæri til að skapa sér og sínum gott lífsviðurværi. Kanada er fyrirheitna landið sögðu umboðsmenn þarlendra stjórnvalda og þessu trúðu fjölmargir Íslendingar árið 1876. Það ár fóru um 1200 þeirra vestur um haf og meðal þeirra var Anna okkar Jónsdóttir. Hún tilkynnti sínum nánustu ákvörðun sína og þegar þeir lögðust gegn þessari ákvörðun og reyndu að telja henni hughvarf sagðist hún vera viss um að Ameríka væri betra en Ísland. Hún kvaddi aldinn föður sinn og annað heimilisfólk, fór um borð í Verona á Borðeyri ásamt fjölmörgum úr nærliggjandi sveitum. Eflaust var ösin það mikil að hún tók ekkert sérstaklega eftir Jóhanni Geir Jóhannessyni, öldnum föður hans, Jóhannesi Grímssyni eða sonum Jóhanns, þeim Einari Kristjáni eða Jóhannesi Magnúsi en það átti eftir að breytast. Jóhann hafði lagt kapp á að læra ögn í ensku, notaði til þess orðabók og var óþreytandi að aðstoða landa sína á siglingunni vestur. Anna heillaðist af þessum manni og lét ekki nærri tuttugu ára aldursmun trufla hugsanir sínar um hann og ákvað að þann mann vildi hún eiga. Þau urðu samferða frá Quebec til Nýja Íslands og sennilega var um það samið að hún yrði bústýra hjá honum í nýlendunni.

Hjónaband í óbyggðum Kanada – Hörmungar í íslenskri byggð  

Heimurinn sem beið hennar við Winnipegvatn var annar en umboðsmennirnir heima á Íslandi höfðu lýst. Vissulega var skógur allmikill við vatnið en fáir nýkomnir höfðu einhver tök á að hefja búskap eða veiðar. Veturinn áður hafði leikið frumbyggja hart í Nýja Íslandi þegar milli 35-40 manns dóu úr skyrbjúg og Anna og Jóhann höfðu vart komið sér fyrir í kofa um haustið þegar fregn barst um nýlenduna að einhverjir hefði veikst við Íslendingafljót af erfiðum sjúkdómi. Þetta reyndis vera bólusótt sem breiddist hratt út um nýlenduna.  Jóhann varð fyrir því áfalli að missa annan son sinn um veturinn, bólusóttin þyrmdi ekki Einari Kristjáni. Þau settust að í kofa sunnan við svonefnda Hnausabyggð og gengu í hjónaband árið 1877 en þá var séra Jón Bjarnason kominn í nýlenduna. Menn reyndu hvað þeir máttu um sumarið að hreinsa bletti í skóginum til ræktunar og slóu það gras sem þeir fundu því von var á kúm. Þrátt fyrir hamingju hennar fór Anna að efast um að hún væri komin á betri stað en Ísland og fór að hugleiða hvar mætti finna betri. Jóhann lagi sitt af mörkum við uppbyggingu mannlífs við hrikalegar kringumstæður. Hann bjó yfir leiðtoga hæfileikum því ráð hans og hugmyndir dugðu vel. Hann hafði sankað að sér bókum á ýmsum málum, var ólatur við lestur þeirra og miðlaði ýmsum fróðleik um frumbýlingsstörf. Hamingjan í kofanum í Hnausabyggð bar ávöxt því Anna fór á fund séra Jóns Bjarnarsonar með nýfæddan son árið 1879 og skírði prestur hann Kristján Einar. Sá var varla ársgamall þegar foreldrarnir ákváðu að hann skyldi verða bandarískur þegn.

Flutningur til Norður Dakota 

Séra Páll Þorláksson gerðist líka prestur í Nýja Íslandi og það voru menn úr hans söfnuðum sem hvöttu til brottflutnings úr Nýja Íslandi, þeir voru sannfærðir um að þar væri engin framtíð. Prestur þeirra fór fyrir landskoðunarnefnd til Norður Dakota og þar fundu þeir svæði sem vel gæti hentað íslenskum landnemum. Fljótlega fóru menn suður þangað og þegar komið var yfir landamærin, all drjúgan spotta frá Pembína þorpi var landið flatt, tiltölulega trjálaust en grösugt. Jóhann var hugsi, hann var ekkert að yngjast og að hefjast enn og aftur handa við nýtt land þótti honum íhugunarefni, erfiðið sem beið hans dró úr honum kjark en eiginkonan var ósmeyk. Við skulum fara, sagði hún, því hér er engin framtíð fyrir okkur og börnin. Það var svo í maí, 1880 að Jóhann hóf reksturinn suður, þeir fáu gripir sem hann átti skyldu með. Segir Lauga Geir að þeir hafi verið haldnir mikilli kanadískri ættjarðarást og ekki viljað fylgja húsbóndanum en öðru máli gengdi þegar Anna kom á vettvang. Gekk hún nú fáeinar mílur á undan og fylgdu gripirnir henni fyrirvaralaust og kom Jóhann þeim suður. Seinna um sumarið var Anna svo ferðbúin og fór með fáeinum húsmæðrum sem beðið höfðu á meðan menn þeirra komu yfir fjölskylduna þaki í nýrri sveit í nýju landi. Þær fengu bátsferð úr Nýja Íslandi eftir Winnipegvatni og upp Rauðá suður til Pembína þorps. Þar biðu kvennanna uxateymi og vagnar sem fluttu hópinn vestur eina 100 km á nýja heimaslóðir. 

Nýja heimilið í nýrri byggð

Hvergi segir Lauga að móður hennar hafi brugðið þegar hún leit nýja heimilið sitt í N.Dakota í fyrsta sinn. Í frekar litla hæð hafði Jóhann grafið allstórt herbergi og tyrft yfir. Dyr voru litlar og lítill gluggi þar fyrir ofan hleypti inn dagsljósi. Dakotamoldin er svört og þannig voru veggir og gólf. Anna vissi að þetta var bráðbirgða heimili fjölskyldunnar og ekki þurfti hún lengi að bíða því rúmu ári seinna var risinn kofi sem á voru tveir gluggar, baðstofa og eldhús. Húsgögn voru fábrotin, rúm, eitt borð, stólar og eldavél. Seinna var svo bætt við öðru herbergi. Þessi tveggja herbergja kofi var heimili Önnu Geir, heimili sem færði henni oft svo mikla hamingu en þar vitjaði líka sorgin. Lífið í litlu samfélagi tók smátt og smátt á sig mynd, mannlífið svo íslenskt en atvinnuhættir að mörgu leyti framandi. Jóhann Geir plægði akur sinn með hjálp uxa, sáði að vori og uppskar að hausti. Þannig urðu til verðmæti. Á veturna bauð hann drengjum í nágrenninu heim til sín til að læra ensku og nutu þeir góðs af. Þarna í kotinu ól Anna börnin sín, fyrst fæddist Margrét árið 1881, Anna bættist í hópinn 1883 og Kristín 1884. Dæturnar voru stolt Önnu, hennar framlag til samfélagsins. Flestum þótti Margrét þeirra fríðust, Anna einstaklega blíð og nærgætin, Kristín varkár og fróðleiksfús. Þannig liðu árin hvert af öðru, fæðukistan í N. Dakota lokaðist aldrei tóm svo fátt virtist geta breyst en sú varð þó raunin.

Dauði Jóhanns – Lífsbaráttan harðnar

Árið 1887 veiktist Jóhann og náði sér ekki. Hann var rétt 57 ára gamall, aðeins sjö þeirra hafði hann notið í Dakota. Um vorið árið 1888 fæddist svo dóttir, henni var gefið nafn hans og skírð Jóhanna Geirlaug, í daglegu tali alltaf kölluð Lauga Geir. Ekkjan og móðirin Anna stóð nú frammi fyrir því að sjá fimm börnum sínum farborða. Hún leitað til stjúpsonar síns, rétt 17 ára unlings og reyndist hann vel. Vinnan var ærin frá morgni til kvölds en samhent unnu þau og fundu lausnir. Það var svo dag nokkurn að nágrannakonu bar að garði, Þórdís hét sú Guðmundsdóttir, eiginkona Davíðs Jónssonar frá Syðri Reykjum í Torfastaðahreppi í Húnavatnssýslu. Lauga litla átti erfitt þennan dag og þurfti móðirin mikið að sinna ungbarninu. Hún sagðist sjá að Anna hafði  meir en nóg að gera með barnahópinn og svo alla vinnuna. Hennar yngsta væri nokkurra ára og eldri börn mín hjálpa mikið. Spurði svo Önnu hvernig væri að hún tæki Laugu til sín og annaðist hana þangað til Anna ætti betur með að annast hana. Þórdís hafði eignast 14 börn og voru 8 enn á heimili hennar en Anna treysti henni og tók tilboðinu. Þær bjuggu um barnið, pökkuðu niður fötum þess á meðan Magnús beitti uxa fyrir kerru. Þögul fóru þau leiðina heim til Þórdísar, Lauga litla sofnað þar eftir nokkra stund og laumaðist þá Anna frá henni, upp í kerruna hjá Magnúsi og þögul fóru þau heim. Um þetta leyti voru bræður Önnu sestir að í íslensku byggðinni í Dakota og má segja að þar hafi fjölskyldan frá Kolstöðum verið sameinuð á ný að nokkru leyti. Bræðurnir reyndust systur sinni vel og hún gat miðlað af sinni reynslu. Fimm ár höfðu liðið frá andláti Jóhanns þegar sonur hans, Magnús veiktist og lést.

Óvæntur bjargvættur – Gleðigjafi

Það voru góð ráð dýr nú í lífi Önnu, sonur hennar Kristján rétt 14 ára.  Hún réði til sín vinnumann, Eggert hét sá, stundum sagður frá Söndum en hann dugði skammt, féll frá eftir fáeina mánuði. En þá bar að garði íslenskan farandverkamann, heimilis- og auralausan. Hér var Káinn kominn með alla sína kosti og lesti og bauð Önnu þjónustu sína. Lauga segir hann hafa verið fullmikið fyrir sopann, en þegar sá gállinn var á honum þá gusuðust frá honum vísur og ljóð öllum til mikillar gleði og skemmtunar sem heyrðu. Anna umbar ,,túrana“ hans bara eins og hvað annað og kannski má eigna henni mikinn þátt í sköpunarverki hans því ófáar vísur og kvæði urðu til á árum Káins á heimili Önnu Geir. Börnin elskuðu hann, löðuðust að honum, hann vann við bústörfin og reyndist ómetanlegur veturinn 1896 en þá var hann ómissandi. Jólin 1895 veiktust dæturnar þrjár hver af annarri og voru rúmfastar með háan hita. Næsti læknir bjó  í litlu þorpi, Park River og um hávetur var nánast ógerlegt fyrir hann að húsvitja. Káinn aðstoðaði hann við ferðalagi og tvisar heimsótti hann kot Önnu en ráð hans dugðu lítt. Anna var 12 ára 23. desember þegar hún dó, Margrét 14 ára á gamlárdag þegar hún dó og Kristín litla fylgdi systrum sínum 13. janúar. Eftir átti Anna nú aðeins Kristján, ekki gat hún hugsað sér nú að heimta Laugu til sín, hún var of tengd Þórdísarfjölskyldu. Aldrei ræddi Anna um þennan vetur með einhverjum óhug heldur sagði hún árum seinna að ef börnin mín sem lifa mig hafa eitthvað gott um mig að segja verð ég þakklát, guð almáttugur mun annast þau sem horfin eru. Kristján sonur hennar vann öll bústörfin með hjálp Káins sem alla tíð reyndist Önnu ótrulega tryggur. Árið 1901 flutti Anna í nýtt hús, kvaddi kofann sinn með söknuðu en fagnaði því þegar Kristján kvæntist árið 1908 og byggði við hús Önnu fyrir sig, konu sína og börn. Að hafa barnabörn sín svo nærri fram í andlátið

 Ferðalok 

 Lauga segir að 21. desember, 1923 hafi verið óvenulega mildur og bjartur vetrardagur á léttunni í N. Dakota. Fjölskyldan öll safnaðist saman við líkbörur Önnu Geir, þeim leið eins og kyrrð vetrarins virti horfinn anda hennar. Þennan dag var hún lögð til hvíldar við hlið manns síns, rétt hjá dætrum sínum þrem og einum stjúpsyni. Einum kafla í ferðasögu Íslendinga til N. Dakota var lokið.

Káinn orti

Í dánarheim vitja ég þín dapur í kvöld
í draumi þig litið ég hef.
Við gröfina sit ég, þó golan sé köld,
og grátandi flyt ég þér stef.

Þú vissir það ein, hvað ég unni þér heitt,
og ást þín var stöðug til mín;
vinan mín bezta, sú bón er nú veitt,
þú baðst mig að koma til þín.

Svo flyt ég þér kveðju frá henni, sem hér
í heimi þig elskaði bezt,
og gleymir því aldrei, hvað góð þú varst sér,
en grætur og syrgir þig mest.

Og börnin þín smáu, sem misstu þó mest,
þau muna, hvað amma var góð,
og geta ekki hugann við gullin sín fest.
en ganga um stofuna hljóð.

Og hún, sem að var þér svo hugljúf og blíð
og hjúkraði á síðustu stund,
við sorgina heyir hið sárbitra stríð
með saknaðar blæðandi und.

Og þegar að veturinn víkur á braut
og vorfuglar kveða sín ljóð,
og blómin síg vefja um brekkur og laut,
ég bý um þig, elskan mín góð