Antoníus Eiríksson

Vesturfarar

Í riti sínu Frá Austri til Vesturs sem er framhald af landnámssögu Nýja Íslands og kom út í Winnipeg árið 1921, segir höfundurinn Þorleifur Jóakimsson (Thorleif Jackson) svo frá Antoníusi bls 145-146:

,,Antóníus Eiríksson bjó á Steinaborg á Berufjarðarströnd, flutti þaðan vestur um haf til Nýja Íslands 1879, nam land í austurparti Fljótsbygðar og nefndi Þykkvabæ. Hann var vel efnaður, þegar hann kom vestur, svo hann gat keypt sér meiri bústofn en vanalegt var að nýbyggjar gátu gjört á þeim dögum. Auk þess var hann hjálpsamur og kunni líka að meta það, sem gert var fyrir hann. Hans er getið í Framfara, 2. árg. 1879, 32. tölublaði, og er greinin um hann hér prentuð“:

“ Þarfur maður í bygð. Antóníus Eiríksson frá Steinaborg við Berufjörð á Austurlandi á Íslandi, er kom að heiman í sumar, hefir keypt 8 kýr af ýmsum mönnum hér í bygð fyrir 26-33 dollara, og sumpart lánað út aftur fátækum mönnum. Þetta hefir sérstaklega komið sér vel þeim sem seldu, í þeirri peningaeklu sem hér er. Auk þess hefir sami maður lánað ýmsum bygðarbúum um 350 dollara, svo þannig eru frá honum í veltunni hér í bygð undir 600 dollarar. – Á safnaðarfundi hér á Lundi (í Riverton: innskot JÞ) 21. þ.m. gaf hann nokkur bushel af kalki til guðþjónustuhúss safnaðarins.“

,,Í sama tölublaði og þessi grein er, vottar Antóníus þakklæti sitt manninum, sem tók á móti honum þegar hann kom að heiman og léði honum húsaskjól um tíma“:

Þakkarávarp – Eg vil geta þess opinberlega, að þegar eg kom að heiman frá Íslandi í sumar með fólki mínu samtals 6 manns, var sem oss bæri að beztu bróðurhúsum, þar sem við komum til Þorsteins Antóníussonar á Ási hér í bygð. Auk þess sem hann tók sem alúðlegast á móti mér og mínum, eru voru svo mjög þurfandi og eftir sig af ferðalaginu, hefir hann síðan veitt oss hinn bezta viðurgjörning og atlæti í öllu tilliti, enda sézt það á því, að enginn af mínu fólki hefir veikst, en svo margir aðrir þeirra er að heiman komu í sumar, sýkst meira og minna. Fyrir þetta votta eg honum mitt innilegasta þakklæti og bið honum allrar blessunar og heilla.“