Árni F Magnússon

Vesturfarar

Jón Jónsson frá Sleðbrjót skrifaði þætti í Almanak Ólafs Þorgeirssonar í Winnipeg, þar á meðal um landnema í Grunnavatnsbyggð í Manitoba. Hann fékk landnema til að segja sína sögu, lýsa komunni til Vesturheims og fyrstu áranna þar. Árni F Magnússon sagði svo í sínu bréfi sem birt var í Almanakinu árið 1912.

A. M. Freeman: ,,Eg er fæddur á Fótaskinni í Þingeyjarsýslu 27. mars, 1854. Skírnarnafn mitt er Árni Frímann en vegna þess að klaufalegir bókhaldarar í þessu landi, þar sem eg vann fyrstu árin gátu aldrei bókað rétt föðurnafn mitt og nærri lá oft að eg tapaði fyrir það peningum, þá réð eg það af að skrifa mig A.M. Freeman og hef gengið undir því nafni síðan. Foreldrar mínir voru: Magnús Jónsson, Jónssonar er eitt sinn bjó á Barðsá við Eyjafjörð og Guðrún Jónsdóttir, Halldórssonar er síðast bjó í Árbót í Aðal-Reykjadalnum. Foreldrar mínir bjuggu einnig í Aðal-Reykjadalnum. Þegar eg var 16 ára fór eg frá foreldrum mínum og gjörðist vinnumaður á ýmsum stöðum í sveitinni. Tvö ár var eg lausamaður, gjörði eg það til þess að afla mér lítilsháttar mentunar. Fyrri veturinn naut eg tilsagnar í skrift, reikningi og dönsku hjá þeim síra Benedikt Kristjánssyni á Grenjaðarstað og Jóni Þórarinssyni á Laugavatni, en síðari veturinn nam eg lítið eitt í ensku hjá síra Lárusi Eysteinssyni, er þá var á Helgastöðum því eg var þá þegar alráðinn í að fara til Canada. Árið 1884 flutti eg vestur um haf með föður mínum, sem lifir enn og er til heimilis hjá mér. Við komum til Winnipeg 10. ágúst. Tæpu ári síðar giftist eg. Konan mín er Jónína Elizabet Björnsdóttir, bónda Jónssonar frá Dálkastöðum við Eyjafjörð. Móðir konu minnar var Soffia Sigurðardóttir, Þorsteinssonar, var Sigurður, faðir hennar, bróðir þeirra Indriða gullsmiðs á Víðivöllum og síra Hjálmars er síðast var prestur í Kirkjubæ í Hróarstungu. – Eg dvaldi tæp 3 ár í Winnipeg og flutti þaðan hér í bygðina“.