Árni Mýrdal

Vesturfarar

Margrét J Benedictsson skrifaði um Árna í Almanakið 1925 og segir:,,Hann kom með foreldrum sínum vestur um haf og lifði með þeim gegnum hörmungarnar í Nýja Íslandi, bóluveikina illræmdu, skarlatssótt og fleir illfylgjur hennar. Sá tvær systur sínar deyja þar þann vetur, móður sína vaka eina yfir börnunum langar og strangar nætur, meðan faðir þeirra brauzt einn til bjargráða þeim gegnum vegleysurnar alla leið til Winnipeg. Eitt atriði segir Árni að hafi greypst djúpt á spjöld minninga sinna frá þeim tímum. Sjálfur var hann veikur, en ekki svo, að hann tæki ekki eftir því sem fram fór í kringum hann, og hefir hann þó eigi verið eldri en sex ára. Úti var stórhríð, snjórinn hlóðst upp að dyrum og gluggum. Móðir hans hafði vakað alla nóttina og hann þóttist vita að önnur systir sín væri aðfram komin, fremur máske af útliti móður sinnar en því, að hann sjálfur hefði nokkuð vit á því. Þá var barið að dyrum og einhver nágranninn kom. Sál barnsins fyltist að óumræðilegri gleði, því nú þyrfti móðir hans ekki að vera lengur ein, því um hana var hann að hugsa. Þessi nágranni yrði sjálfsagt þangað til pabbi kæmi heim. En sú varð þó ekki raunin á. Þegar nágranninn heyrði hvað um var að vera, þorði hann ekki einu sinni að koma inn. Og hver vill lá honum það? Máske átti hann líka konu og börn heima. En um það var Árni ekki að hugsa, til þess var hann altof mikið barn. En vonbrigðin urðu honum ógleymanleg. Atvikin voru nógu sérkennileg til að festa  það í minni, því þar dóu þá tvær systur hans með litlu millibili.“

Flutningar – Nýtt líf

,,Með foreldrum sínum fór Árni suður til Pembina og þaðan til Victoria, B.C., en var þá farinn að vinna fyrir sér sjálfur; byrjaði það ungur eins og var títt. Til Point Roberts kom hann með landkönnunarmönnum frá Victoria,…festi sér land eins og þeir, en lét það síðar eftir Ingvari Goodman (Vigfús Ingvar Guðmundsson úr Árnessýslu Inns. J.Þ.), sem þar býr nú. Árið 1902 settist Árni að á heimalandi föður síns, sem þá fór til Victoria. Hefir Árni búið þar síðan. Húsakynnin hefir hann stækkað og bætt, og var fyrsti maður og til skams tíma sá eini á Point Roberts, sem hafði raflýst hús sitt. Árni er sérkennilegur maður að ýmsu leyti. Stórgáfaður, en sérstaklega hneigðist hugur hans snemma að vélfræði. Hann er æfinlega skemtilegur, en skemtilegastur þegar hann er að útlista lögmál vél- eða rafmagnsfræðinnar fyrir athugulum tilheyrenda. Hann varð snemma einn af beztu mönnum A.P.A. fiskifélagsins (Alaska Packers Assocation), hafði um mörg ár aðalumsjón með vélunum á niðursuðuverkstæði þess félags á Semiamo-tanga gagnvart Blaine. En síðari árin hefir hann verið umsjónarmaður þess félags við fiskistöð þess á Point Roberts. Árni er víðlesinn; kaupir aldrei nema merkustu bækur, og af þeim á hann mikið og vandað safn. Hann er í orðsins beztu merkingu sjálfmentaður maður.“