Ásmundur Magnússon

Vesturfarar

Árið 1929 kom eftirfarandi umfjöllun um Ásmund Magnússon í Almanaki Ólafs S. Thorgeirssonar bls. 88.

,,Ásmundur er starfsmaður mikill, svo hann á fáa sína líka. Hann var mjög gefinn fyrir fiskveiðar og siglingar í æsku, og varð formaður á fiskibát á Manitoba-vatni fyrir innan tvítugt. Þótti gætnum mönnum þær ferðir hans löngum glæfralegar; en þær heppnuðust vel, því hann var bæði athugull og snarráður. Hann var mörg ár skipstjóri á flutningabátum á Manitoba-vatni; fyrst fyrir hérlent auðfélag, en síðar á stórum seglbát er hann smíðaði sjálfur, og setti vél í hann. Þann bát starfrækti hann fyrir eigin reikning til vöru- og mannflutninga um nokkur ár. Þá hefir starfsemi hans verið umfangsmest síðan hann flutti á Siglunes. Hann hefir haft þar stóra útgerð til fiskveiða, oft um 40 menn eða fleiri. Fyrstu árin stjórnaði hann þessu fyrir Armstrong Tr. Co., en síðar fyrir sjálfan sig og sonu sína. Hann bygði sögunarmyllu á heimili sínu og kassaverksmiðju, og hefir unnið að því alla þá tíma árs sem fiskveiðar hafa ekki verið stundaðar. Sögunarmyllan brann fyrir nokkrum árum, en hann bugði hana þegar aftur, vandaðri en áður.                                                                                                      Ásmundur naut engrar mentunar í æsku, því barnaskólar voru lítt starfræktir hér í fámennum nýlendum um 1890. En hann hefir haft góða námsgáfu, og hefir aflað sér ótrúlega mikillar þekkingar í ýmsum greinum. Sérstaklega mun hann hafa haft góða gáfu fyrir verkfræði, því hann er manna hagsýnastur um verknað allan, og laginn verkstjóri. Ásmundur er manna greiðugastur og hefir góða mannhylli.“