Norður Manitoba einkennist af ótrúlegum fjölda stöðuvatna sem sum bera nöfn íslenskra innflytjenda í fylkinu. Eitt heitir Lifman Lake (Lífmansvatn) og var því gefið þetta nafn til heiðurs Baldri Bjarnþórssyni. Hér kemur sagan:
Uppruni – vesturför
Bjarnþór Jónsson fæddist í Hraundal á Mýrum 29. ágúst, 1884 sonur Jóns Þorsteinssonar og Solveigar Bjarnadóttur. Þau fluttu vestur um haf árið 1886 og settust að í Árnesbyggð í Nýja Íslandi. Með þeim fóru fjögur börn þeirra, Bjarnþór yngstur. Dvölin í Árnesi var stutt, landið erfitt og lítið um atvinnu. Þau ákváðu því að flytja til Winnipeg en samþykktu að skilja Bjarnþór eftir á Gimli hjá hjónunum Kristjáni Sigurðssyni og Guðlaugu Sigfúsdóttur. Kristján var sonur Sigurðar Jónssonar í Stóru Vatnsleysu í Gullbringusýslu og hafði fylgt móður sinni, Oddnýju Hannesdóttur til Vesturheims árið 1876. Var hún einn frumbyggja Nýja Íslands. Foreldrar Guðlaugar, Sigfús Ólafsson og Elín Jónsdóttir úr Eyjafirði fóru vestur með sín börn á sama skipi, Verónu, sama ár. Kannski vakti 14 ára dóttir þeirra Guðlaug áhuga 17 ára táningsins, Kristjáns, en fjölskyldurnar urðu samferða til Gimli sama ár. Þarna við Winnipegvatnið má gera ráð fyrir að kynni hafi tekist með þeim, hún eflaust átt erfitt með að kveðja Kristján þremur árum síðar þegar foreldrar hennar fluttu suður til N. Dakota.
Lífmann -Lifman
Kristján og Guðlaug voru gefin saman árið 1881 og hófu búskap á Gimli. Hann hafði þá ákveðið að skrifa sig framvegis Lifmann, hvers vegna er ekki ljóst og þrátt fyrir mikla leit hefur skýring ekki fundist. Nafnabreytingar Íslendinga vestanhafs voru tíðar á þessum árum fyrst og fremst vegna póstsins. Í hverri sveit, þorpi og bæ var stofnað pósthús og þangað var allur póstur sendur. Einstaklingarnir sóttu þangað sinn póst og þá vandaðist oft málið því alnafnar fengu stundum nokkrir póst á sama pósthús. Það var algengt að menn héldu til síns heima með röng bréf í vasanum, kannski kom það fyrir Kristján að hann fékk bréf í sínar hendur, stílað á einhvern allt annan K. Sigurðsson á Gimli. Menn notuðu mikið nöfn æskustöðvanna heima, Borgfjörð, Vopnfjörð, Vatnsdal, Hrútfjörð o.s. frv. Ekki hefur hvarflað að Kristjáni að skrifa sig Stóra Vatnsleysa, hvað þá Vatnsleysa eða Gullbringa, nei þægilegra nafn yrði það að vera. Lengra ná ekki þessar vangaveltur, í vesturíslenskum heimildum er nánast undantekningalaust skrifað Lifmann, stundum með einu n-i en sjaldan Lífmann eða Lífman. Þó er rétt að nefna andlátsfregn í Lögbergi árið 1943 þar sem tilkynnt er andlát Guðlaugar og greint frá því að það hafi borið að á heimili B. J. Lifman í Arborg. Í sömu grein er svo sagt frá Kristjáni, manni hennar og þar er nafn hans skrifað Kristján Lífman.
Nýja Ísland – framtíðin
Árið 1886 taka þau Bjarnþór í fóstur og þegar árin liðu var hann skrifaður Bjarnthor J. Lifman, best þekktur þó sem Thor J. Lifman. Kristján og Guðlaug tóku annað barn í fóstur árið 1892, stúlku er Lilja hét. Þau hjón reyndust þeim sem bestu foreldrar en Kristjáns naut ekki lengi við því hann lést árið 1898. Bjarnþór vann hvaða vinnu sem gafst og öðlaðist dýrmæta reynslu í Nýja Íslandi þar sem mikill uppgangur var á öllum sviðum um þær mundir. Langskólanám kom ekki til greina en Bjarnþór bætti úr því og nýtti frístundir sínar til að lesa, hann var sjálmenntaður. Bjarnþór kvæntist Kristínu Margréti Eiríksdóttur 21. apríl, 1913. Hún var dóttir hjónanna Eiríks Jónssonar og Vilborgar Stefánsdóttur sem fóru vestur frá Rangá í Tunguhreppi í N. Múlasýslu árið 1878. Þau settust að í Minnesota og bjuggu í Yellow Medicine sýslu í 16 ár. Þar fæddist Kristín Margrét í Minneota 16. mars, 1884 og ólst hún þar upp til ársins 1901, þá fluttu þau norður í Arborg í Manitoba. Thor og Magga, eins og þau voru alltaf kölluð, hófu búskap á Gimli en fluttu í Arborg árið 1918 og þar komu þau sér vel fyrir. Hann var í góðri stöðu hjá stórfyrirtæki, International Harvester Company sem seldi hvers kyns lanbúnaðarvélar og bíla. Fljótlega eftir komuna í Arborg kom í ljós rík samfélagskennd þeirra hjóna. Hann tók virkan þátt í félags- og stjórnmálum og gengdi ýmsum ábyrgðarstöðum þar í bæ og reyndar hreppnum öllum. Magga opnaði heimili þeirra fyrir aðkomufólk, vini og vandamenn víðs vegar að.
Fjölskyldan stækkar
Thor og Magga eignuðust sex börn: 1. Bergþóra f. 18. júlí, 1914 í Winnipeg 2. Margrét f. 24. febrúar, 1916 í Winnipeg 3. Laufey f. 4. október, 1918 í Gimli 4. Baldur, einkasonurinn f. 9. ágúst, 1921 í Arborg 5. Stefanía f. 4. júní, 1923 í Arborg og loks 6. Solborg Guðrún. Baldur litli dafnaði vel í æsku, gekk í grunnskólann í þorpinu og framhaldsskóla staðarins. Hann fékk gott starf hjá Sigurdsson-Thorvaldson Co og framtíðin var björt. En ófriðarár dundu á heimsbyggðinni, Baldur skráði sig í kanadíska flugherinn og í desember, 1942 flaug sveit hans til Evrópu og við tóku loftárásir í Þýskalandi. Og þar var hann skotinn niður 18. ágúst, 1943.