Í VÍÆ V. er eftirfarandi frásögn um Baldvin Árnason, betur þekktur vestanhafs sem Capt. Baldi Anderson: ,, Kapteinn Baldvin (Baldi) Anderson var þjóðsagnapersóna í lifana lífi sökum hressilegrar glaðværðar sinnar, bjartsýni og dugnaðar. Hann vann ýmis störf í æsku, m.a. var hann 15 ár á flutningaskipum á Winnipegvatni og lengi skipstjóri á m.s. Áróru og þar fékk hann kapteinsnafnbótina. Þegar C.P.R. járnbrautarfélagið var að leggja járnbraut norður eftir byggðunum tók hann að sér verkefni fyrir félagið og fékk að byggja hótel á landamerkjum Gimlisveitar (við Boundary Creek). Seinna byggði hann svo annað hótel á Gimli og má segja að hótelrekstur hafi verið hans aðalstarf á því tímabili. Var mikil umferð, líf og fjör á þessum hótelum á landnámsárunum.“
Ferðalög og baðströnd
,,Hann ferðaðist talsvert, t.d. fór hann til Alaska til að kynnast fiskveiðum þar, einnig til Churchill við Hudsonflóann og eitt sinn fór hann suður í Bandaríkin til að leika í kvikmynd, þar sem þurfti að nota hundaeyki. Voru fengnir 3 íslenskir menn frá Gimli með hunda sína og sleða til að leika í þeirri mynd. Hann byggði sér heimili á landareign, er hann fékk eftir föðursinn og nefndi það Laufskála og bjó þar æ síðan, utan 3 ár er hann flutti til Mikleyjar og bjó þar, en flutti svo aftur í Laufskála. Það vildi þannig til, að í Laufskálalandi var einmitt það svæði á Víðinesi, sem Íslendingarnir komu fyrst að landi 22. okt. 1875 og sögufrægt er. Það var draumur Baldvins að koma þar upp útivistarsvæði (Summer Resort), en það voru dótturbörn hans, sem gerðu það að veruleika á tímabili. Það verk annaðist Árnasonsfjölskyldan, lagði vegi, kom upp sumarbústöðum, útbjó baðströnd, sem heitir Baldi´s Beach eftir Baldvini.. Þá var búið vel um hinn sögufræga hvíta stein, honum til varðveislu, en í skjóli hans fæddist fyrsti Íslendingurinn í Nýja-Íslandi, skömmu eftir að fólkið kom þar að landi. Á sínum tíma opnaði forseti Íslands, Ásgeir Ásgeirsson þennan reit öllum almenningi, er hann var í heimsókn í Canada. Flóð úr Winnipegvatni hafa seinna spillt að einhverju leyti þessum sögureit.“