Björn Jónsson

Vesturfarar

Um Björn segir ÞÞÞ í öðru bindi ,,Saga Íslendinga í Vesturheimi“ bls. 124: ,,Þegar Páll Þorláksson var á leið til Quebec að mæta hópnum að heiman haustið 1873, var hann að spyrjast fyrir um þenna Björn, sem orðið hafði eftir úr hópi þeirra árið áður nálægt Grand Haven, og farið að vinna þar við múrsteinagerð. (innsk JÞ. Páll Þorláksson leiddi 17 manna hóp frá Eyrarbakka til Wisconsin árið áður) Gaf danskur maður Páli þær upplýsingar, að Birni hefði ekki fallið vinnan, þótt tvo dollara fengi hann í daglaun, farið svo þaðan að höggva skóg, og úr skógarvinnunni aftur um nýár og á sögunarmylnu í borginni Saginaw í Michiganríki. Hafði hann haft það á orði að sér leiddist og verið að tala um að hverfa heim aftur. Segir Páll, að þeir félagar hans hafi haldið, að hann væri dauður, því hann hafði lofað að skrifa þeim en engin lína komið frá honum, en þegar Páll frétti þetta áleit hann að Björn hefði ekki hirt um að láta þá vita um sig. – Trúlegt er, að Björn sé þá eini Íslendingurinn, sem sögur fara af í Michigan-ríki, en um veturinn skrifar Vigfús Sigurðsson bókbindari það heim – þá nýluttur til Rosseau í Ontario, – að mikið sé um manndrápin í Ameríku, og endar þann póst svo: “Líka hefi eg frétt, að Íslendingur einn í Michigan hafi verið drepinn fyrir 250 dollara, sem hann hafði á sér.“ (innskot JÞ. Bréf þetta dagsett í Rosseau, 18. janúar, 1873 og prentað í Frá Austri til Vesturs í Winnipeg 1921). En frétt þessi er má ske hvergi staðfest, og ekki heldur víst, að hún eigi við Björn Jónsson.“