Thorstína S. Jackson skrifaði um Björn í rit sitt Saga Íslendinga í N. Dakota og segir:
,,Björn var settur til menta, og var því nær útskrifaður úr Reykjavíkurskóla, þegar skólapiltar gerðu upphlaup á móti skólastjóra, Sveinbirni Egilssyni. Hann hætti þá við nám og kvæntist Ólavíu Ólafsdóttur prests á Kolfreyjustað….“
Og faðir Thorstínu, fornvinur Björns skrifaði um hann í sínu riti Brot af Lannámssögu Nýja Íslands sem kom út í Winnipeg árið 1919:
,,Björn var vel gefinn maður, hár á vöxt og tígulegur á velli, sterkur vel og glíminn eftir því. Hann hafði til æfiloka sterkt hald á því, sem hann lærði í skóla, t.d. latínu, var laginn vel að segja unglingum til við bóknám. Hann var skemmtinn í tali og glaðvær, einkum í samkvæmi með kunningjum sínum; þá varð alt, sem dapurt var, að rýma fyrir glaðværðinni. Hann var vinsæll og bar í sér áhuga fyrir velferð þjóðar sinnar. Var á Íslandi alþingismaður fyrir Suður-Múlasýslu og tvisvar endurkosinn“.(bls 78)