Friðrik Guðmundsson

Vesturfarar

Friðrik Guðmundsson kom úr íslenskri sveit út á kanadísku sléttuna í Saskatchewan árið 1905, sem þá laðaði að landnema úr ýmsum byggðum Íslendinga í Manitoba, N. Dakota og Minnesota. Ennfremur höfðu íslenskir vesturfarar, líkt og hann, áhuga á þessu nýja svæði. Friðrik kom þangað með fjölskyldu sína og hófst strax handa við að byggja yfir hana kofa og hreinsa land sitt. Landið hans var í Vatnabyggð skammt frá Mozart og á næstu árum lærði hann margt um kanadískan landbúnað, kvikfjárrækt og akuryrkju. Hann varð vitni og þátttakandi í myndun samfélags sem byggði talsvert á íslenskri arfleifð í bland við Norður Ameríska atvinnuhætti, trú- og stjórnmál. Hann var athugull og skrifaði stöðugt hjá sér eitt og annað um þessi frumbýlingsár, sendi seinna handrit til Ólafs S. Thorgeirssonar í Winnipeg, ritstjóra og útgefanda Almanaksins svokallaða. Ólafur birti fyrsta þáttinn árið 1917 og hér gefum við Friðriki orðið: ,, Það mun sönnu næst, að telja landnámsár þessarar byggðar tímabilið frá 1891-1908, eða 17 ár. Eftir þann tíma var að vísu hægt að ná sér í heimilisréttarlönd, sem þá voru annað tveggja, mjög lítils virði eða þá að þau höfðu verið gefin inn aftur fyrir einhverja orsök, af mönnum, sem áður höfðu tekið þau. Vatnabygðin er eflaust stærsta íslenzka bygðin, sem enn hefir verið stofnuð í Ameríku. Frá austri til vesturs er hún 48 mílna (76.8 km) löng. Frá suðri til norðurs er hún misjafnlega breið, frá 12-24 mílur (19,2 km – 38,4 km). Eftir þeim nákvæmustu upplýsingum, sem eg hefi getað aflað mér, mun hún liggja 1810 fet yfir sjávarflöt, eða rúmum 800 fetum hærra en Hólsfjöll og efstu bæir á Jökuldal á Íslandi. Sá hluti nýlendu þessarar, sem að miklum meirihluta er skipaður íslenzkum landnemum, mun vera til jafnaðar 10 mílur (16 km) á breidd og 48 mílur (76,8 km) á lengd eða 480 ferhyrningsmílur (768 ferkílómetra)“. 

Fjöldi jarða og íbúa: Friðrik fjallar næst svolítið um tegund jarða og stærða þeirra. Bendir á að sum séu svonefnd heimilisréttarlönd sem fengust gefins, önnur voru keypt af járnbrautarfélagi. Þá seldum menn oft lönd sín eftir einhver ár en með allt þetta í huga þá áætlar hann að á þessu nýlendusvæði séu 1200 ábúðarlönd og segir svo:,, Ef eg svo dreg ályktun af nágrenni mínu og þeim hluta byggðarinnar, sem eg þekki bezt til, þá þykir mér eigi ólíklegt, að tveir-þriðju hlutar ábúendanna séu Íslendingar. Með öðrum orðum, að um 800 íslenzkir bændur byggi þessa nýlendu. Æði mikið öruggari þori eg að tilfæra þessa tölu, þenna mjög svo álitlega bændaflokk, af því það kemur að mestu leyti heim við það, sem hinn athugali eftirlitsmaður innflytjendanna, Tómas Pálsson, sagði mér, áður en eg fór að grenslast eftir ástæðum hér lútandi. Í íslenzkum landsskýrslum frá 1860 hafa tvær fjölbygðustu sýslurnar á Íslandi, Árnessýsla og Þingeyjarsýsla, saman lagt 750 lögbýli. Það er ekki líklegt, að nokkur breyting sé orðin á því, til þessa tíma. Má af þessu sjá, að álíka mörg íslenzk heimili eru í þessari íslenzku nýlendu, eins og í tveimur hinum áminstu sýslum heima. Ef eg hinsvegar vildi gera grein fyrir, hvað margir landar eru hér alls, ungir og gamlir, þá er örðugt við það að eiga, því eigi hefir verið tekið hér manntal Íslendinga, enn sem komið er. Það hefir að vísu komið til orða, að prestar safnaðanna í þessari bygð, með að stoð góðra manna, skrifuðu niður íslenzku heimilin, hver innan sinna takmarka, og fólksfjölda á hverju þeirra fyrir sig, og mun jafnvel talsvert vera byrjað á þessu, þó það sé ekki svo vel á veg komið, að það verði lagt hér til grundvallar. Hins vegar er engri áreiðanlegri tölu hægt að ná, nema margir telji og allir sama daginn, þar sem menn eru stöðugt að fara og koma í atvinnuleit og verzlunarerindum“.

Niðurstaða: Friðrik ályktar að íslensk heimili séu jafn mörg austast og vestast, svo og í miðri byggðinni. Hann kveðst hafa talið íslensk heimili í þremur sveitum og sé fjöldi íbúa hvers heimilis rúmlega fjórir og segir næst:,, Ef eg því byggi á þessum grundvelli og geri ráð fyrir að 4.5 maður komi til jafnaðar á hvert íslenzkt heimili í þessari bygð, þá ættu að vera um 3.600 heimilisfastir Íslendingar hér, fyrir utan alla þá verkamenn, sem hvarfla til og frá, og marga þá menn, sem í bæjum búa, reka þar atvinnu, en hafa aldrei tekið hér land, eða búið úti í sveitinni. Mér þykir því mjög líklegt, að Íslendingar séu í raun og veru fleiri í þessari bygð, en eg hér geri ráð fyrir. Þegar eg nú hefi gengið frá manntalinu, þá verður mönnum líklega ósjálfrátt að hugsa sem svo: Hver er hvalur sá, er dregur menn á þessa fjöru? Og hvað hefir þetta mikla þjóðarbrot vort fyrir stafni? Ekki þurftum vér að setja lög og rétt í landi voru, eins og þá forfeður vorir numdu Ísland forðum daga og byrjuðu þar að búa um sig fyrir framtíð sína og afkomendanna. Undir vernd og veldi hinnar brezku krúnu gátu menn strax ókvíðnir og áhuggjulausir lagt sig alla og óskifta að yfirdrotnun jarðarinnar og náttúrunnar auðæfa. Það var ekki um að villast, jarðvegurinn bar það með sér, að hann var frjósamur. Það hlaut því að vera sameiginlegt áhugamál og kappsmál allra, að geta sem fyrst og mest unnið jarðveginn fyrir kornræktina“.