Ólafur S. Þorgeirsson, útgefandi Almanaksins í Winnipeg, bjó á Akureyri árið 1874 og fygdist með undirbúningi vesturfara það sumar. Hann skrifar um Friðrik og tilhugalíf hans og Sigríðar það ár í Almanakið 1916 og segir:,, ..Man sá er þetta ritar, að segja frá því, að tilhugalíf þeirra hófst á Akureyri, meðan beðið var eftir vesturfara-skipinu, sem það árið, eins og oftar, varð löng bið eftir.“
Friðrik Sigurbjörnsson og unnusta hans, Sigríður Jónsdóttir frá Litlu Strönd við Mývatn komu til Winnipeg haustið 1875. Þar mun Friðrik hafa reist kofa í svokölluðu Hudson´s Bay Flats hverfi ásamt nokkrum öðrum Íslendingum og var þetta vesæla kofahverfi kallað Shanty Town. Séra Páll Þorláksson var á leið til Nýja Íslands haustið 1876 og 6. september gaf hann þau saman í hjónaband í Winnipeg og munu þau hafa verið þau fyrstu íslensk hjón þar gefin saman.