Guðrún Guðmundsdóttir

Vesturfarar

Guðrún Ásbjörg Guðmundsdóttir fæddist í Grindavík 12. desember, 1886, dóttir Guðmundar Einarssonar og Herdísar Aradóttur. Guðrún flutti vestur til Kanada árið 1913 en árið áður fór maður hennar, Guðbergur Magnússon vestur. Þau höfðu gengið í hjónaband í október árið 1911 og fyrsta barn þeirra sá dagsins ljós árið 1912. Þau settust að í Víðirbyggð en sú byggð var þéttsetin, nánast hver einasti skiki var frátekinn. En þar þraukuðu þau í sjö ár en þá gafst Guðbergur upp á baslinu, fjölskyldan flutti til baka til Íslands. Ekki var sú ferð til fjár því Guðbergur andaðist í byrjun árs, 1922 og brátt sá Guðrún að ekkja með þrjú börn komst engan veginn auðveldlega af á þeim árum á Íslandi og tók hún þá ákvörðun að snúa aftur vestur. Þann 30. október, 1922 sigldi Guðrún með börn sín þrjú, Hólmfríði, Vilborgu og Guðmund og komu þau til New York í nóvember. Áreiðanlega hefur fyrri vesturför Guðrúnar gengið snuðrulaust, þá fór hún til Quebec í Kanada og þaðan með lest vestur til Winnipeg. Þótt straumur vestur til Ameríku hafi verið stöðugur um árabil voru vesturfarir Íslendinga miklu færri eftir 1914 og nánast alltaf farið um Kanada. Það er því ekkert undarlegt við það að landamæraverðir áttu í vandræðum með Guðrúnu. Þótt hún hafi búið í Manitoba í sjö ár þá varð sú dvöl lítið til að efla enskukunnáttu hennar fyrst og fremst vegna þess að hún bjó þá í íslenskri byggð þar sem íslenska var töluð á hverjum bæ.

Ellis Island –  Þúsund ára dautt tungumál!

Landganga á Ellis Island snemma á 20. öld.

Dagblaðið New York Times birti grein 16. nóvember, 1922 um ýmsa örðugleika landamæravarða á Ellis Island í New York. Dæmi var tekið um móður þriggja barna sem augljóslega tilheyrði engum hópi annarra innflytjenda því ekki bar nokkur sem til hennar heyrðu kensl á tungutakið og voru tilkvaddir túlkar ættaðir frá Norðurlöndum meðal annarra. Eflaust hafa þeir allir verið fæddir í Bandaríkjunum því málakunnátta þeirra hjálpaði Guðrúnu ekki nokkurn skapaðan hlut, ekki heldur þegar hún dró fram ávísun upp á 500 bandaríska dali því ekki nokkur stafur hjálpaði til við að greina uppruna hennar. Þegar loks vegabréfin voru skoðuð þá komust verðir að því að hún væri frá Íslandi en það hjalpaði henni lítið þegar hún reyndi að útskýra tilgang ferðarinna til Ameríku. Loks kom þar að danskættaður maður, námsmaður, sem hlustaði á Guðrúnu og greip þá andann á lofti; þetta var mál norrænna manna sem settust að á Íslandi fyrir þúsund árum, mál sem enginn talaði lengur, fannst aðeins í mörg hundruð ára gömlum ritum. Við þessi tíðindi komst Guðrún áfram og með aðstoð góðra manna í nærliggjandi banka fékk hún ávísuninni skipt og hélt áfram vestur áleiðis til Manitoba.

Landnám í Manitoba

Arborg 1916. Íslendingafljót fremst. Mynd A Century Unfolds

Guðrún átti vini og vandamenn í Víðirbyggð og þar komst hún yfir landskika og kom sér fyrir. Ekki kom annað til greina hjá ungu landnámskonunni en að hefja búskap, nokkrar kýr, fáein svín og nokkrar hænur var bústofninn og með þessu gat hún fætt og klætt sig og sína. Nánast allar konur í byggðinni prjónuðu sokka og vettlinga og var Guðrún engin eftirbátur þeirra og seldi sína framleiðslu fiskimönnum. Hún tók virkan þátt í félagsmálum og lagði sitt af mörkum til samfélagsins t.d. var hún félagsmaður í Ardalkvenfélaginu, meðlimur í Þjóðræknisdeildinni Esju í Arborg og vann sjálboðavinnu á bókasafni deildarinnar. Þá vann hún ljósmóðurstörf í sveitinni, oftast í umsjá héraðslæknisins en fyrir kom að hún tók ein á móti þegar læknis naut ekki við. Árin liðu í sátt og samlyndi, börnin uxu úr grasi, eignuðust sínar fjölskyldur og brátt bættust barnabörn við Guðrúnu til mikillar gleði. Að því kom að Guðrún kaus tilbreytingu, hún lét flytja hús sitt í Arborg og leigði það út en flutti sjálf til Winnipeg þar sem hún bjó til ársins 1956 en þá flutti hún til baka í Arborg. Hún rak gistiheimili í húsi sínu og drýgði þannig tekjurnar. Það var svo árið 1971 að hún ákvað að flytja á dvalarheimilið Betel á Gimli. Þar eignaðist hún marga vini og hitti gamla kunningja.  Frásögn þessi byggir á góðri grein eftir Kris Gudmundson sem birt var í byggðasögunni ,,A Century Unfolds“  Hann lýkur greininni á skemmtilegri sögu af Guðrúnu á Gimli:,,Ég man eftir heimsókn til Guðrúnar á Betel eitt sinn, fann hana við spilaborðið eins og svo oft áður þar sem hún spilaði við þrjár vinkonur sínar. Hún bauð mér upp á herbergið sitt og þar spurði ég hana hver hefði unnið? Hún svaraði:,, Maður verður stundum að leyfa þeim að vinna, þær eru jú að eldast.“,, Guðrún var rúmlega níræð“ JÞ