Ritið Vestur-Íslenzkar Æviskrár geymir ágætt yfirlit yfir störf Hólmfríðar og mikinn áhuga hennar á íslenskum uppuna sínum. Þar segir ,,Hólmfríður fluttist vestur um haf með foreldrum sínum 1900, fyrst til Mountain, N. Dakota, en síðan Árborg, Man., 1903. Ólst þar upp og hlaut þar barnaskóla- og miðskólamenntun, lauk síðan kennara prófi og var skólakennari þrjú ár. Er hún lauk miðskólanámi hlaut hún hæstu einkunnir í öllum námsgreinum, sem gefnar voru í Manitoba, og sérstök verðlaun fyrir afbragðsúrlausnir í verkefnim varðandi sögu Canada. Hefur unnið að margvíslegum menningarmálum í Canada og þá einkum meðal Vestur- Íslendinga, t. d. í þágu Þjóðræknisfélagsins og Icelandic Canadian Club. Forseti þess félags 1945-46. Varaforseti fyrir Imperial Order Daughters of the Empire, sem er eitt öflugasta kvennasamband í Canada og framkvæmdastjóri fræðsludeildar þess í Manitoba. Ritari fyrir Canadian Red Cross milli Winnipegvatns og Manitobavatns 1925-30. Í stjórn Save the Children Fund um skeið. Hefur starfað í nefndum til að safna fé til Elliheimilisins Betel á Gimli, Sunrise Lutheran Camp, kennarastóls í ísl. fræðum við Manitobaháskóla. Hefur stjórnað leikflokki í Árborg og víðar, ritað leikþætti og hlotið verðlaun í samkeppni um leiklist. Fékk m.a. námsstyrk frá Manitoba Drama League árið 1953 til að leggja stund á leiklist við listaskólann í Banff. Var aðaldriffjöðurin í nefnd þeirri, er sá um skrautsýningarvagn Íslendinga á 100 ára minningarhátíðinni í Spanish Fork, Utah, 1955. Hefur hún starfað mikið í Jóns Sigurðssonar félaginu, verið ritari þess í 15 ár og ævifélagi. Ritary fyrstu lúthersku kirkju í Winnipeg. Hefir ferðast á vegum Þjóðræknisfélagsins, æft söngflokka, kennt íslenzku og flutt erindi svo hundruðum skiptir um íslenzk menningarmál, sögu, bókmenntir og listir víðs vegar um Canada og Bandaríkin og í útvarp, og einnig fyrir Imperial Order Daughters. Heimsótti Ísland 1938 og dvaldist þar um 10 vikna skeið. Ritstörf: Í ritstjórn The Icelandic Canadian um 7 ára skeið og formaður hennar, hefur skrifað ýmsar greinar í það tímarit. Sá um útgáfu á Iceland´s Thousand Years ásamt próf. Skúla Johnson, og eru þar inngangsorð og fyrirlestur eftir hana. Grein um vestur-íslenzka listamenn í Tímariti Þjóðræknisfélagsins 1950. Lagfærði og fjölritaði bókina ,,Three times a Pioneer“ eftir Magnús G. Guðlaugsson, White Rock, B.C. (Winnipeg 1958″