Hólmfríður Stephensen lést í Chicago árið 1898, um fertugt. Hún hafði þá búið í Bandaríkjunum í aldarfjórðung og upplifað ótrúlega tíma þar um slóðir. Innflutningur hvaðanæfa til landsins var engum líkur, uppgötvanir og framþróun í vísindum voru ótrúlegar um þær mundir. Hólmfríður gekk menntaveginn og fór snemma að skrifa og semja, las mikið og lét skoðanir sínar í ljós um menn og málefni í ritgerðum og ritdómum. Hún gleymdi aldrei íslenskum uppruna sínum, skrifaðist á við ættingja og vini heima á Fróni. Árið 1897 var leikrit hennar,,Sálin hans Jóns míns“ gefið út á Íslandi og var það fyrsta leikritið sem gefið var út eftir íslenska konu. Í verkinu fjallar Hólmfríður um vesturíslenskan veruleika eins og hann kom henni fyrir sjónir á síðustu árum 19. aldar. Vesturíslenskan hafði slitið barnskónum, málið sem sögupersónur tala ber þess vitni.
Sennilega hefur Matthías Jochumsson verið heimilisvinur því Þorvaldur, faðir Hólmfríðar og skáldið þekktust vel. Þegar það spurðist vestur um haf að Matthías hefði áhuga á að heimsækja íslenskar byggðir vestanhafs sendi hún honum bréf sem greinilega hreif því hann orti til hennar af því tilefni. Ljóðið er niðurlag minningarorða Matthíasar sem birtust í Framsókn, blaði íslenskra kvenna í maí árið 1900 og hljóða svo: ,,Blöð vor hafa alt of lítið minnzt þessarar merkiskonu, sem í fyrra dó í Chicago á bezta aldri. Eg mundi lítið eitt eftir henni frá því áður en hún flutti vestur 1873 með foreldrum sínum 13-14 ára gömul. Síðar lærði eg vel að þekkja hana fyrst gegnum bréfaskifti og svo í ferð minni vestur 1893. Hafði faðir hennar lofað mér, að hún skyldi taka á móti mér, ef eg kæmi vestur og hann yrði fallinn frá. Þetta varð. Hún og systkini hennar veittu mér beztu viðtökur. Fríða sál, bar í mínum augum af flestum íslenzkum konum í Ameríku, þeim er eg sá. Hún var fríð sýnum og einkar snotur, lipur og glaðleg og gædd fyrirtaks gáfum. Hafði hún og hlotið flesta þá skólamenntun, sem heldri manna dætur fá í stórborgum. Hún var skáldkona og prýðisvel ritfær (á ensku) og sendi oft ritgerðir og dóma um bækur í blöð og tímarit. Hún var söngfróð og málaði (stundum með mikilli snilld) og enga íslenzka konu hefi eg þekkt fjölmenntaðri eða færari að umgangast hinn svo kallaða fagra og stóra heim (le beau monde) hvort sem tala þurfti ensku, frönsku, ítölsku eða þýzku. Hún lagði mikla elsku á sína gömlu og einkum sögu hennar og kvæði. Það var og hún, sem ein (að því eg veit til) hélt bókmenntum vorum á lofti og ritaði um þau í amerísk blöð og gerði það með miklum listasmekk. Það var hún sem las yfir og lagaði ávarp það sem eg færði forstöðumanni Chicago sýningarinnar, og hefð eg aldrei fundi hans náð, hefðu hún ekki náð fundi þessa háa herra fyrir mig. Eg á bæði bréf frá hennar hendi og ritgerðir. Allt á ensku. Væri sumt af því meir en þess vert að það kæmi á prent á íslenzku. Hennar fyrsta bréfi (frá 1888) svaraði eg með stökum þessum:
Eg sá þig barn með bjarta lokka
á bak við marga tímans hrönn
Með augun blá og yndisþokka
Mín ættlandsdóttir hrein og sönn!
Ei kyssir sól og sunnanandi
á sumarmorgni kalda grund
svo yndislega upplífgandi
sem orð þín, svanni, mína lund.
Og aldrei fósturfold þín teigar
er fyrsti morgungeislinn skín
eins glatt og lystugt ljósins veigar
og línur þínar sólin mín.
Eg fann þar líf, sem fjöri gæddi
og fann þar yl, sem vermdi mig
og fann þar auð, er gulli gæddi
minn grýtta og svala vetrarstig.
Eg fann þar mína fornu drauma
hinn fagurhvelfda dísarsal
og ódauðlega Edenstrauma
í æsku minnar sumardal.
Þú ert af segulbergi brotin
frá bragningum er kyns þín rót
og því er guðvafsgulli skotin
þín göfuglynda sál, mín snót.
Eg syng ei hér um Sjafnar funa
en satt er enn, eg reyni það
sem er eilífð hrífur manninn muna
hin milda snót, sem Gothe kvað.
Ó þigg nú, mær, í þessu stefi
frá þinnar móður aringlóð
eitt guðlegt skar, sem geymt eg hefi
og gaf hún mér í bróðurlóð.
M.J.“