Ingimundur Ólafsson

Vesturfarar

Ingimundur Ólafsson tók virkan þátt í félagsmálum landa sinna á Big Point í Manitoba. Einkum vann hann kappsamlega við eflingu lestrarfélagsins Árgalans og efldi verulega bókasafn þess. Þegar hann ákvað að flytja til Reykjavíkur við norðaustanvert Manitobavatnið var honum haldið veglegt samsæti 26. febrúar, 1916 í samkomuhúsinu Herðurbreið á Big Point. Þar var eftirfarandi ljóð frumflutt af höfundi þess, Þorsteini Björnssyni, betur þekktur í byggðinni sem S. B. Olson:

Glaðir verum á góðri stund
gullfögur orð, er gerði ræða
skáldið, er hann í efnum kvæða
Vildi skemta á vina fund.
Eg vil nú orð þau endurtaka
og allri deyfð í burtu stjaka,
svo öll sem hér nú eigum sess
í anda verðum glöð og hress.

Eg þykist hér á öllum sjá
einlægnis brag og vott um gleði
því góðum vin´nú skemta á
og það er ekkert um að gera
við öll nú segjum svo skal vera
að gera þetta gleði stund
og gleðja vel hann Ingimund.

Vinur, þú ert í vina hring
vinskapur jafnan sýnir merkin
og gleymum ei þín að virða verkin
sem vannst fyrir byggð og almenning.
Því mátt þú stærstu þakkir hljóta
og þar með byggðar heiðurs njóta
Félagsstörf þín öll fyr og síð
til frama voru landi og lýð.

Þegar í fjarlægð flytur brátt
fylgja þér bestu kveðjur vina
sem óska þér fagra framtíðina
friðsama daga í gleði og sátt.
Og vona þú hverfir oft í anda
aftur hingað til Big Point stranda
í minni þér geymist sérhvert sinn
sérstaklega þó „Árgalinn“.