Jóhann Elíasson Straumfjörð

Vesturfarar

Í riti sínu Frá Austri til Vesturs, sem gefið var út í Winnipeg árið 1921 skrifar Þorleifur Jóakimsson eftirfarandi um landnámsár Jóhanns og fjölskyldu í Mikley:

Eldsvoði á Mikley: ,,Þegar Jóhann kom vestur í annað sinn 1876, fór hann til Nýja Íslands og til Mikleyjar, og kom að landi suðaustan á eyjunni við eyri eina; sá hann þar borð upprekið og nefndi því eyrina Borðeyri. Var svo bærinn, sem bygður var þar, nefndur eftir eyrinni. Skamt fyrir norðan Borðeyri nam Jóhann land og nefndi Barkarstaði, gaf landinu það heiti af því hann þakti hús sitt með berki af birkitrjám, svo það læki ekki. Hér um bil hálf hústóftin sést enn, þótt ellileg sé, og djúp laut í henni miðri, þar sem kjallarinn hefir verið. ( Þorleifur hefur farið þar um á öðrum áratug 20. aldar: Innskot JÞ)  Næsta vor, 1877, flutti Jóhann sig frá Barkarstöðum norður á eyjuna, til Gull Garbor, nam þar land og nefndi Höfn. Þar brann hús hans um næturtíma um hávetur, en af því Jóhann var karlmenni og snarráðugur, gat hann bjargað fólki öllu og flestum húsmunum. Varð hann að brjóta glugga á loftinu, er hann vaknaði við eldinn, og fleygði þar út rúmfötum ofan í snjóinn, en konu og börnum þar ofan á. Var þá þekjan öll logandi, er það var búið. Svo náði hann stó og öðrum munum út úr húsinu niðri, meðan loftið var að brenna, og einhverjum kartöflum úr kjallaranum. Hann slapp út rétt áður en húsið féll saman. Elzta son sinn, Jón Elías, þá um 9 ára gamlan, sendi hann til næsta bæjar að fá hjálp. Drengurinn fáklæddur hljóp alt hvað hann gat, tók víst ekki mikið eftir þó nærri lægi að vetrar næturfrostið á Mikley skaðaði hann.
Fólkið á bænum, sem hann var sendur  til, lét hann fara ofan í hlýtt rúm. “                                                     

Frekari flutningar: ,,Nú færði Jón sig lengra norður á eyjuna, nam sér land í þriðja sinn og nefndi Grund; þar bjó hann til þess hann eftir þriggja ára dvöl hann eftir þriggja ára dvöl í Mikley árið 1879 flutti til Engeyjar, sem er lítil eyja norðvestur af Mikley. Bjó hann sér fleka úr bjálkum og flutti á honum fólkið og það lítið, sem hann átti, yfir í nýju eyjuna. En svo varð honum ekki viðvært þar lengi. Eftir ársdvöl þar flæddi vatnið upp á eyjuna, svo hann varð að flýja þaðan. Fór hann þá suður í Víðirnesbyggð og var á Steinstöðum og Hólmi þar til vatnið lækkaði við Engey. Fór Jóhann þá þangað aftur og bjó myndarlega um sig, setti upp vindmylnu og malaði í henni korn sitt. Með eimvél sagaði hann borðvið, eldivið og til ýmislegs fleira notaði hann hana. Vatn leiddi hann inn í fjósið þannig að það rann sjálfkrafa til gripanna, en úti við brunn sást, þegar nægu vatni hafði verið veitt inn. Þegar fram í tímann sótti hjá fjölskyldunni á Engey, fór eldri sonur Jóhanns, Jón Elías, sem nú er bóndi í Grunnavatns-bygð, að hjálpa föður sínum með því að fara út í vinnu til fiskiveiða og svo upp til Winnipeg. Árið 1902 flæddi vatnið yfir Engey og eyðilagði engi og akra Jóhanns. Varð hann þá að flytja af eyjunni í annað sinn, flutti til Grunnavatns-bygðar, nam land og bjó þar til þess hann lézt.“

Þegar Jón Elías hafði aldur til og burði fékk hann vinnu hjá Íslendingum sem stunduðu fiskveiðar norðarlega á Winnipegvatni en á þessum tímum, í lok 19. aldar mátti veiða á vatninu yfir sumartímann. Hér að neðan fylgir bréf sem Jóhann sendi syni sínum frá Engey með fiskimanni sem var á leiðinni norður þangað sem Jón Elías var við veiðar.

Engey, 25. ágúst 1888.                                                                                                                                                                                Ástkæri Nonni minn! – Guð gefi þér allar stundir til lukku og blessunar. Eg þakka þér fyrir tvö bréf, sem eg meðtók næstliðið sunnudagskvöld, og þar með fylgdi bréf, líklega til Jóa (Jóhanns bróður Jóns), og líka kom poki með snærum. En eg veit ekki hvenær annað bréfið til mín hefir verið skrifað, því það er ekki dagsett. – Fréttir eru engar að skrifa þér, alt er hér tíðindalaust og okkur líður öllum bærilega fyrir guðs náð. En mamma þín er búin að vera nokkuð lengi kaffilaus og þykir það leiðinlegt. Við erum nú að klára heyskapinn á hólmanum og hugsum um að fara suður þangað sem eg heyjaði í fyrrasumar, núna eftir helgina. Gras hefir verið allsstaðar lítið á þurlendi í sumar og heyskapur gengur seint hjá okkur. Maður var hér á ferð, sem var að reyna að fá sögunartimbur, og lézt mundi máske setja niður mylnu á Blacks tanganum; en hvort það verður nokkuð, er óvíst. Eg hefi í hyggju að fara upp til Winnipeg, þegar eg er búinn að heyja, þó eg hafi ekkert að fara með, því eg er nú fátækur af flestu. Eg ætla að biðja þig að skrifa mér til, það allra fyrsta að þú getur, og láta mig vita hér um bil hvað eg megi eiga von á að fá marga dollara hjá þér,  því þú veizt nú um tímann sem þú munir verða, nefnilega til friðunartímans, og getur þá ætlast á hvað þú munir fá í það heila; en eg þarf endilega að vita hvað mikið þú ætlar mér, áður en eg fer upp eftir, því eg reyndi þá að fá dálítið lán upp frá upp á það, en það verður líklega ekki hægt, svo eg máske má fara upp eftir aftur á bátnum mínum, þegar þú kemur. Bara dragðu ekki að skrifa mér strax og koma því að Grund. Það verður enginn tími til fyrir þig að hugsa um lengri vinnu en til friðartímans, því það tekur mikinn tíma að búa út nesti og hvað annað fyrir veturinn. Eg ætla að biðja þig að fá fyrir mikig nokkuð mikið af snærum, ef þú getur fengið það með góðu verði, og svo sem 200 olíu flam. Mamma þín og alt fólkið biður kærlega að heilsa þér, og eg kveð þig kærri kveðju og bið guð að annast þig lífs og liðinn. Það mælir þinn faðir.

J. Straumfjörð

P.S. – Mundu eftir að fá miki af snærum, því það er sagt að það megi fá þau ókeypis. Eg skrifa þér og læt liggja fyrir þér bréf á Grund, þega þú kemur að norðan.  Peninga þarftu að fá í kaupið sem allra mest, en síður vörur.   Sami. 

Jón Elías flutti sig um set árið 1890 og fór suður til Winnipeg. Þar fékk hann kyndarastarf hjá borginni og vann þar fyrstur Íslendinga. Þar var hann þegar faðir hans skrifar honum bréf síðla árs 1891:

Engey, 28. nóvember, 1891     

Kæri Nonni minn.  Guð gefi þér allar stundir til lukku og blessunar í Jesú nafni. Eg þakka innilega fyrir tilskrifið með Stjána, sem og alt gott mér auðsýnt. Stjáni kom að kvöldi þess 19. þ.m. og þá voru þeir Jói bróðir þinn, og Fúsi og Jón á Víðimýri ferðbúnir norður. En næsta dag var ófært veður, svo þeir fóru ekki fyr en þann 21. Ís er orðinn þykkur og hart frost nú í morgun, 47 gráður. Ekki hef eg frétt enn neitt af fiskiaflanum norður frá. Jón á Víðimýri kom heim á mánudaginn, var veikur, svo hann varð að fara heim, en þá var ekki búið að leggja neitt af hvítfiskanetum, en það fiskast nokkuð á litla nesinu. Stjáni fór norður með Jóa, enda þó ekki væri um mörg net að gera og sízt að gagni, því tvíbreiðu netin mín, sem þú hafðir fyrir austan í fyrra, eru grautfúin, svo þau eru ekki leggjandi, og eg get ekkert bætt af þessum görmum.                                                                                                                                   

Eg sé um skepnurnar, nema það sem Ásta hjálpar til þess, því Rænka liggur, er búin að vera veik nærri viku, en er nú skárri. Ef þú kemur fyrir Jólin, þá er áríðandi að þú fáir duglegan mann fyrir þig á meðan. Það væri gott , að þú fengir einn eða tvo vel duglega hunda og kæmir með, ef þú gætir fengið þá fyrir lítið eða ekkert. Eg man ekki hvort eg bað þig að hjálpa mér með tvær tylftir af glösum með töppum, í bréfinu sem eg skrifaði seinast, eða ekki, en mig vantar þau. Við höfum númerin á skónum telpnanna megi vera 5, en það væri bezt að taka það fram þar sem þú kaupir þá, að þú fengir skifti, ef þeir ekki passa. – Eg bið þig að bera kæra kveðju mína og okkar til Jóa og Nonna og Þóru, og segðu Jóa að eg skrifi honum bráðum, en eg kem því ekki við með þessari ferð. Móðir þín og systkini biðja kærlega að heilsa þér, og að endingu kveð eg þig kærri kveðju og bið góðan guð að annast þig. Það mælir þinn faðir.                                                                                                                                                                                           J.Straumfjörð.