Jóhannes Einarsson

Vesturfarar

Jóhannes Einarsson var nokkuð sérstakur vesturfari vegna þess að nánast frá fyrsta degi í Kanada virtist hann vita hvernig hann ætlaði að fóta sig í nýju, ört vaxandi samfélagi á sléttunni. Eftir að hafa svipast um í N. Dakóta þar sem móðir hans bjó nærri Mountain, fór hann til Winnipeg, dvaldi þar um hríð en fór síðan vestur á sléttu þar sem nú er Saskatchewan. Hann var svo lánsamur að mikill reynslubolti, Gísli Egilsson var þá á sömuleið en Gísli flutti vestur árið 1876, nam land í Nýja Íslandi, flutti þaðan árið 1880 og nam nú land í Hallsonbyggð í N. Dakóta. Sennilega hefði Jóhannes átt erfiðara uppdráttar fyrstu árin ef Gísli hefði ekki verið nágranni hans. Á árunum 1890-1892 fluttu allmargir Íslendingar í unga byggð sem nefnd var Lögbergsbyggð. Ótrúlegt þurrkaskeið hófst á sléttunni vorið 1892, allir brunnar þornuðu upp, hvergi var vatn að hafa í ungri byggð. Þegar brottflutningar úr byggðinni hófust sat Jóhannes, líkt og Gísli sem fastast eftir. Jóhannes bjó í Saskatchewan alla tíð og varð stórbóndi og mikill gæfumaður. Ritstjóri Almanaksins, Richard Beck þekkti Jóhannes vel og birti í tímaritinu ágætis grein um hann árið 1944. Gefum ritsjóranum nú orðið:

,,Saga Íslendinga í Vesturheimi er að miklu leyti saga bænda og bændalífs, því að meginlandnám þeirra eru í akuryrkjuhéruðum kringum vötnin í Manitoba, á sléttunum þar og í Saskatchewan og Norður Dakota. Sem bændur annars staðar hafa þeir orðið að heyja þá baráttu við duttlungafull og óútreiknanleg náttúruöflin, sem Stephan G. Stephansson lýsti svo ógleymanlega í orðunum :“Eg er bóndi, allt mitt á undir sól og regni.“ Og sá leikur var ennþá ójafnari, baráttan stórum harðariaf árum, á frumbýlingstímabilinu, er brjóta þurfti land undir plóg, ryðja sjálfa mörkina, og við marga aðra örðugleika var að glíma. Því er það, að í íslenzkum nýlendum hérlendis tala sjálfir steinarnir um hæfileika kynstofns vors til að þola þunga þrautir, horfast djarflega í augu við örðug lífskjör, en ganga þó að lokum sigrandi af hólmi. Þessvegna er oss einnig skylt og holt, að minnast þessara frumherja vorra, landnámsmannanna og landnámskvennanna, er borið hafa merki vort fram til sigurs í landi hér. Í þeim hópi stendur bændaforinginn Jóhannes Einarsson í Lögbergsbygðinni í Saskatchewan framarlega, en hann átti áttatíu ára afmæli síðastliðið sumar og minntust sveitungar hans þeirra tímamóta í athafnasamri og nytjaríkri æfi hans á maklegan og virðulegan hátt.“

Uppruni, æska og menntun

,, Jóhannes er fæddusr 19. júní 1863 í Grenivík í Höfðahverfi við Eyjafjörð. Foreldrar hans voru Einar Jóhannesson frá Finnastöðum í Köldukinn og Elíná Jónasdóttir frá Hvammi í Höfðahverfi. En frá því öðru aldursári ólst hann upp hjá Jóni Loptssyni skipstjóra í Keflavík austan Eyjafjarðar og Óvídá Jónasdóttur, móðursystur sinni. Þegar Jóhannes var sex ára gamall, fluttust þau í Haganes í Fljótum, og var hann síðan hjá fósturforeldrum sínum í Haganesvík þangað til 1875, en þá fluttu þau búferlum norður í Hvamm í Höfðahverfi, og þar átti Jóhannes heima eftir það þangað til hann fluttist vestur um haf 1889.                                                                                                                                                                                                                                                 Jón Loptsson hafði lært sjómannafræði í Kaupmannahöfn og hélt uppi sjómannaskóla í Haganesi 1871-72. Var það sjómannaskóli hins eyfirska ábyrgðarfélags, en sbo nefndist félagsskapur eigenda hákárlaskipa á þeim slóðum. Er enn til í vörslum Jóhannesar bók mað nöfnum og prófeinkunnum þeirra, er nám stunduðu á sjómannaskóla fóstra hans og útskrifuðust þaðan vorin 1871 og 1872. Þar sem hér var um brautryðandastarf að ræða, mun Jóhannes sjá til þess, að bók þessi, er jafnframt veitir fræðslu um hvað var kennt á skólanum, lendi ekki í glatkistunni. Mjög snemma fór Jóhannes einnig að fást við sjómennsku, og formaður varð hann kornungur bæði í Grenivík og Hrísey. Var hann síðan formaður að staðaldri öll árin þangað til hann fluttist af landi burt. Að dæma af vinnubrögðum hans síðan hann kom hingað vestur, þarf eigi að efa, að hann hafi verið bæði hinn öruggasti og kappsamasti sjósóknari. Skólaganga Jóhannesar var af harla skornum skammti, eins og títt var um íslenzka sveitapilta á þeirri tíð. Fyrstu fræðslu sinnar, lestrarkennslu, naut hann hjá Þorkel Þorkellssyni þeim, er orti sálminn alkunna „Eg fell í auðmýkt flatur niður“; hefir það nám sýnilega gengið greitt, því að lesið hafði Jóhannes alt Nýja Testamenyið er hann var fimm ára gamall. Seinna var hann tvo vetur við nám hjá séra Tómasi Björnssyni, presti á Hvanneyri og síðar að Barði í Fljótum. Einnig stundaði hann part úr vetri nám á Akureyri hjá Guðmundi Hjaltasyni, og ber hann þeim sérstæða frömuði íslenzkrar alþýðumentunar hið besta söguna.“           

Samvinnuhreyfingin – störf á Íslandi                                     

,,En takmarkaða skólagöngu sína hefir Jóhannes, að dæmi hinna ágætustu alþýðumanna íslenzkra fyr og síðar, bætt sér upp með víðtækum lestri góðra og nytsamra bóka. Hann er handgenginn íslenzkum fornbókmenntum, eigi síður en nýrri bókmenntum þjóðar vorrar, og verður oft til þeirra vitnað bæði í samtölum og opinberum ræðum, því að hann er ágætlega minnugur. Þá hafa honum verið sérstaklega að skapi rit um heimspekileg efni og þjóðfélagsmál, og er hann víðlesinn í þeim fræðum. Einkum hefir samvinnuhreyfingin verið honum huglætt umhugsunarefni um dagana, enda er hann þaulkunnugur sögu hennar og trúr málsvari málsvari hugsjóna hennar. Var hann seinast er fundum okkar bar saman (síðastliðið sumar) að lesa nýútkomna sögu samvinnuhreyfingarinnar í Canada, og þótti honum sem þar væri eigi alstaðar ritað af nægum skilningi eða þekkingu á grundvallaratriðum þeirrar hreyfingar; en skarpa gagnrýni brestur hann eigi, er hann kýs að líta hlutina gegnum það sjóngler, enda er það rammíslenzkt eðli og djúpstætt í kynstofni vorum. Þar er einnig langt frá því að vera nokkur tilviljun, að hugur Jóhannesar hefir á fullorðinsárum sérstaklega hneigst að samvinnustefnunni og samvinnumálum bænda. Hann var á æsku og unglingsárum mjög handgenginn Einari Ásmundssyni í Nesi, einum af frömuðum samvinnustefnunnar (kaupfélagsstefnunnar) á Íslandi, enda voru þeir frændur eigi fjarskyldir. Guðrún móðir Einars var dóttir Björns Jónssonar í Lundi, en Katrín amma Jóhannesar var alsystir Björns. Hélst samband þeirra frændanna eftir að Jóhannes fluttist vestur um haf og á hann nokkur bréf frá Einari, er lýsa vel þeim merkilega manni og framfaravini. Á yngri árum sínum kynntist Jóhannes einnig mörgum öðrum af samvinnufrömuðum norðanlands.                                                                                                                                                 Sjálfur gerðist hann einnig snemma á árum starfandi að þeim málum. Hann var deildarstjóri Kaupfélags Þingeyinga í Grýtubakkahreppi frá 1886 til 1889, er hann fór vestur. Einnig var hann formaður stjórnarnefndar sparisjóðs Grýtubakkahrepps síðasta ár sitt á Íslandi, en hann hafði átt hlut að stofnun sjóðsins; geymis hann enn fyrstu viðskiptabókina, sem gefin var út, og lagði fyrsta innleggið í sjóðinn. Sýna framangreind störf, hvers álits Jóhannes naut þá þegar meðal sveitunga sinna, þú ungur væri. Hafði það og áður sýnt sig, að tiltrú var til hans borin fram yfir það, sem almennt gerist, eins og nú mun sagt vera. Árið 1881 var síldveiðifélag stofnað við Eyjafjörð og höfðu félagsmenn tvö „nótalög“ og vel þekkta Norðmenn til yfirstjórnar; voru fjórir Íslendingar kosnir til þess að læra veiðiaðferðina og var Jóhannes einn þeirra. Eigi átti félagsskapur þess sér þó langa sögu, því að harðindaárið 1882 gerðu aðengu framhaldsstarf hans. Ennfremur hafði hann með höndum árin áður en hann fór af Íslandi skrifstofustörf í hrepps- og sveitarmálum, fyrst frá fóstra sínum, Jóni Loftssyni, er var hreppstjóri og oddviti, og seinna hjá tengdaföður sínum, Þorsteini Jónassyni á Grýtubakka, er gengdi sömu trúnaðarstörfum.“               

Vesturför – Saskatchewan

,,Giftust þau Sigurlaug Þorsteinsdóttir og Jóhannes 22. júní, 1886; komu vestur um haf eins og fyr getur, árið 1889 og fóru fyrst til Norður Dakota, en þar var þá fyrir móðir Jóhannesar og hafði tekið heimilisréttarland nálægt Mountain 1882. Eigi áttu þau Jóhannes og Sigurlaug þó langa dvöl sunnan landamæramma, því að sumarið eftir að þau fluttust þangað (1890) fluttu þau til North West Territory, þar sem nú er Saskatchewanfylki, og hafa átt þar heima jafnan síðan í lögbergsbyggðinni íslenzku, í grennd við Calder. Komu þau vestur þangað á hinum fyrstu landnámsárum, áður en sveitafélög höfðu þar mynduð verið. En fyrsti vísir til sveitastjórnar var það, að árið 1892 voru stofnuð svonefnd „local improvement districts“ (hreppsfélög), og myndaði Jóhannes allmörg þeirra á þessum slóðum fyrir hönd stjórnarinnar. Var hann síðan hreppstjóri (Overseer) og skrifari Lögbergsbyggðar um árabil. Seinna voru myndaðar stærri sveitaheildir og árið 1910 var öllu fylkinu skipt í sveitafélög (municipalities) og varð Jóhannes þá sveitarstjóri (Reeve) bæði í Lögbergs- og Þingvallabyggð og skipaði þann sess fram til ársloka árið 1917, endurkosinn hvað eftir annað. Seinna gegndi hann sama embætti í nokkur ár. Má og geta þess hér, að þegar sveitarstjórn sú, sem nú er viðlýði, var sett á laggirnar, samdi Jóhannes frumvarp að aukalögum („bylaws“), er náðu samþykki dómsmálaráðherra fylkisins, og hrfir oftar en einu sinni verið til þeirra vitnað af dómurum, er málum var ráðið til lykta. Gekk hann ríkt eftir löghlýðni og trúmennsku í sveitarstjórninni og sveitamálum, og gustaði stundum um hann á þeim árum, enda stóð hann jafnan í fylkingarbrjósti í samvinnumálum bænda, og hélt fast fram málstað sínum og þeirra, er því var að skipta. Hann var einn af stofnendum og í stjórnarnefnd samvinnufélags bænda, er stofnað var í bænum Salt Coats í nágrenni hans árið 1891, eftir danskri fyrirmmynd; var það fyrsti félagsskapur með samvinnusniði í Vestur Canada. Eigi varð félagið þó langlíft, en smjörbú þess hélt áfram sem einkafyrirtæki fram til 1896. Árið eftir (1897) byrjaði Sambandsstjórnin að glæða mjólkurframleiðslu í Canada og setti á stofn félög hér og þar í landinu á sama grundvelli og tíðkaðist í Danmörku. Var þá byrjað að starfrækja rjómabú í Churchbridge (1899). stærsta félagsskap af því tagi í Norðvesturlandinu á þeim tíma, og var Jóhannes forseti þess árum saman. Einnig var hann um nokkurra ára skeið foresti Búnaðarfélags Churchbridge-bæjar (Churchbridge Agricultural Society). Þá hefir þátttaka hans í hveitisamtökum bænda í Saskatchewan (Saskatchewan Wheat Pool) eigi síður verið merkileg; hann var kosinn fyrsti fulltrúi frá byggð sinni á þing þeirra samtaka árið 1924 og var fulltrúi samtals 10 ár, seinast 1936. Naut hann mikils álits samverkamanna sinna bæði vegna einlægs áhuga síns á sameiginlegum málum þeirra og vegna víðtækrar þekkingar sinnar á sögu og hugsjónum samvinnustefnunnar. Með því er þó alls eigi sagt, að Jóhannes hafi séð rætast alla drauma sína um framkvæmdir á þeim sviðum til almenningsheilla; en þó á brattan hafi oft verið að sækja og blásið hafi um hann á mannfundum og í opinberum störfum, hefir hann eigi glatað trúnni á sigurmátt hugsjóna samvinnustefnunnar né heldur trú á mennina. Frá því á landnámsárunum hefir Jóhannes einnig látið sér umhugað um fræðslumál byggðar sinnar, og var það eitt fyrsta opinbert verk hans eftir að hann fluttist þangað að standa fyrir byggingu fyrsta skólahúss í byggðarlaginu árið 1891, en hinn góðkunni Íslendingur, Klemens Jónsson í Selkirk, Man., smíðaði húsið sem stendur enn. Síðan var Jóhannes skólaráðsmaður (Trustee) um 15 ára skeið. Fyrir og eftir aldamótin var hann einnig friðdómari (Justice of the Peace), ennfremur var hann fyrsti póstafgreiðslumaður í Lögbergsbyggð.“