Jóhannes Halldórsson

Vesturfarar

Minneota í Minnesota

Jóhannes Halldórsson var meðal fyrstu Íslendinga til að flytja vestur til Norður Ameríku. Fáeinir landar hans höfðu sest að í Wisconsin á árunum 1870-1873 og þangað fór því Jóhannes árið 1873. Hann bjó þar á ýmsum stöðum nærri Milwaukee og gaf sér tíma til að kynnast samfélagi í mótun. Með dýrmæta reynslu sem hann öðlaðist á fimm árum þar flutti hann vestur til Minnesota og kom þar til Minneota, lítils þorps í uppvexti á tiltölulega ungu landnámssvæði. Gunnlaugur Pétursson var fyrstur Íslendinga til að nema þar land árið 1875 og var duglegur að lýsa landkostum til vina í Wisconsin og ekki síður heima á Íslandi. Jóhannes var fyrsti Íslendingurinn til að setjast að í Minneota, gerði það vegna þess að þar taldi hann mestar líkur til að hann gæti stundað verslunarstörf en þau heilluðu hann mjög. Jóhannes tók virkan þátt í samfélagsmótuninni í þorpinu, til dæmis var hann var fyrsti féhirðir bæjarstjórnarinnar. Verslunarstörf ýmis konar heilluðu hann og árið 1883 stofnaði hann íslenska verslun í félagi við Jónatan Jónatansson. Nefndu þeir verslun sína Frost & Peterson, Jóhannes hafði tekið nafnið Frost, hefur eflaust hugsað til fósturjarðarinnar þegar hann valdi nafnið en faðir Jónatans var Pétursson og skrifaði Jónatan sonur hans sig Peterson vestra! Þeir ráku verslun þessa saman í nokkur ár en slitu svo samstarfinu. Jóhann hóf aftur verslunarstörf árið 1890 og vann við verslun í einhverri mynd alla tíð.

Nýtur samfélagsþegn

Hvar sem Íslendingar settust að saman í stórum eða smáum hópum vestan hafs og mynduðu íslenska byggð voru ætíð meðal þeirra einstaklingar sem tóku af skarið og leiddu hópinn. Þegar áformin um alíslenska nýlendu í Manitoba urðu að engu í Nýja Íslandi um 1880 varð ljóst að íslenskir innflytjendur í Kanada eða Bandaríkjunum voru þátttakendur í mótun nýrra þjóða, voru hluti ungs samfélags í mótun. Til að geta sem best tekið þátt og komið ár sinni vel fyrir borð áttuðu menn sig á nauðsyn þess að læra ensku, góð ensku kunnátta var lykillinn að framtíðinni. Jóhannes Halldórsson var einn þeirra sem lagði sig fram við að enskunámið, áhugi hans á verslun og viðskiptum hafði eflaust sitt að segja. Þegar hann sest að í Minneota er hann fljótlega ráðinn túlkur hjá jármbrautarfélaginu sem lagði járnbrautir um héraðið með höfuðstöðvum í Minneota. Hann hafði kynnst norskum innflytjendum í Wisconsin og kynntist þeirra nýlendum, meðal annars kirkjumálum en engin ríkiskirkja hefur nokkurn tíma verið í Norður Ameríku, innflytjendur urðu alfarið að taka kirkjunnarmál í sínar hendur. Stofna söfnuði, ráða presta og reisa kirkjur. Í Minnesota myndu Íslendingar söfnuði, einn slíkur var í Minneota og tók Jóhannes alla tíð virkan þátt. Meðal annars tók hann að sér stjórn sunnudagaskóla safnaðarins í mörg ár. Hann átti mikinn þátt í myndun slíks skóla í bænum Blaine í Washington en þar bjó hann árin 1907 til 1911.