Jón Hildibrandsson

Vesturfarar

Þorleifur Jóakimsson skrifaði um Jón Hildibrandsson í riti sínu Brot af Landnámssögu Nýja Íslands og þar segir hann:

,,Jón flutti til Winnipeg sumarið 1880 og var þar í 7 ár og fjóra mánuði. Vann fyrst á C.P.R. járnbrautinni rúma fimm mánuði og svo við smíðar eftir það mestallan tímann, sem hann var í bænum. Hann hjálpaði Helga heitnum Jónssyni* til að byggja Framfarafélagshúsið** sumarið 1881, og fimm önnur hús bugði hann með Helga. Hann bjó á Young stræti, keypti þar bæjarlóð og bygði sér þar hús. Til Nýja Íslands flutti hann aftur 1887 og var kominn þangað 24.desember. Hann nam land þrjár og hálfa mílu fyrir norðan Hnausa P.O., og nefndi Kolsstaði. Jón hefir mikið unnið við smíðar í bygð sinni. Í safnaðarmálum hefir hann tekið góðan þátt.Var skrifari Breiðavíkur safnaðar frá því hann var myndaður, til þess á ársfundi 1916, að hann sagði af sér. Hann hefir sterkt minni og kært er honum í tali við hina eldri menn að hverfa til ættjarðarinnar og rifja upp æskuminningar. Hann varð fyrir því slysi 23. desember síðastl.(innskot:JÞ 1918) að hús þeirra feðganna (innskot:JÞ Sigfús) brann; gat ekki heitið að nokkru, sem í því var, yrði bjargað. Sárast þótti Jóni að missa alt íslenzka bókasafnið sitt, sem hann og synir hans lásu í altént þegar tími gafst til þess. Jón er bjartsýnn maður og hefir ekki látið hugfallast í öldugangi lífsins.“

*Helgi Jónsson var mikill athafnamaður í Winnipeg um og upp úr 1880. Auðgaðist nokkuð og lét til sín taka í málefnum Íslendinga í Winnipeg. JÞ.

**Íslendingafélag var stofnað í Winnipeg 6. september, 1877. Það gekk undir ýmsum nöfnum til ársins 1881 að nafnið “Framfarafélag Íslendinga í Vesturheimi“ er samþykkt og hélst það. JÞ.