Snemma árs, 1880 var Jón sestur að á landi í Akrabyggð í N. Dakota og skrifaði eftirfarandi bréf í bænum Cavalier 7. janúar. Þórstína Þorleifsdóttir birti bréfið í bók sinni Saga Íslendinga í N. Dakota trúlega vegna þess að það lýsir vel landsháttum svo og gangi mála hjá landnemum. Hvorki hún né Jón nefna móttakanda, bréfið er svo stílað: ,,Heiðraði landi minn“ en um einhvern Jón er að ræða því í lokalínu skrifar Jón: ,,Eg óska þér, kæri nafni, góðs og gleðilegs árs:“ Hvernig bréf þetta komst í hendur Þórstínu á þriðja áratug 20. aldar er óljóst en annað hvort var móttakandinn búsettur einhvers staðar í Vesturheimi eða hafi flutt vestur seinna og haft bréf Jóns meðferðis. Seinni kosturinn sennilegri vegna upplýsinganna sem Jón setur í bréfið, hann lýsir öllu eins og móttakandi þekki ekkert til Vesturheims. (JÞ)
,,Bréf skrifað af Jóni Jónassyni lækni, frá Syðstavatni í Skagafirði“.
,,Af alúð þakka eg þér hér með fyrir meðtekið bréf frá þér, af 2. desember, f. árs, til mín komið 23. s.m., sem mér þótti mikið vænt um, því síðan eg kom í þenna nýja stað, hefi eg fáum skrifað, og fáir mér. Þú mælist til þess í brefi þínu, að eg skrifi þér dálítið af þessari nýlendu, og vil eg reyna það hér með, í fáum orðum. Nýlenda þessi myndaðist af Íslendingum, af fáum mönnum í fyrrasumar, en næstliðið sumar fluttist hingað á annað hundrað manns, svo nú mun í það heila vera á þriðja h.( eg veit ei talið nákvæmlega), og landtakendur eru um 60, en áreiðanleg vissa fyrir, að hér komi í vor margt af löndum, bæði frá Minnesota, Wisconsin, Fargo (bær hér suður með Rauðá), sem og frá Nýja Íslandi. Svo fult útlit er fyrir að hér verði að fáum árum mikið bygt af löndum; bygðin hefir lagst mestmegnis suður með Pembina-fjöllum, suður fyrir Tunguá (Tounge River), sem fellur austur í Rauðará, og er skamt frá bygðinni upp að fjöllum, sem er fremur misjafnt land. Aðallandslagi þannig varið; að skógar meiri og minni með pörtum, og þess á milli öldumyndað grasland, sumstaðar dálítið samblandið, á aðalhæðunum víða ágætis engjalönd, og hafa margir landar náð hér bæði skógi, akurlendi (slétt grasland) og engjum, og má það teljast ákjósanleg eign. Hér má kallast næstum alstaðar fallegt útsýni, en að yfirborði má hér kallast meira af grassléttum en skógi, og eru hér í suður, austur og vestur af fjöllunum, fjarska stór svæði, sem enginn byggir; en loftið er hreint, en kalt mun vera hér oft á vetrum, en hitar eru einnig sterkir á sumrum, en heilsufar manna yfir höfuð má heita hér gott. Hveitiuppskera varð hér í sumar frá 25 til 35 bushel (1 bushel = 27.22 kg. Innskot Jónas Þór) af ekru; hafrar frá 50 til yfir 60 b. af ekru, maís veit eg ekki um, en hann spratt hér vel. Kartöflur frá 14 til 28 faldar, og kölluðu menn það hér misbregðast, en af káltegundum veit eg ei um. Við erum ennþá 28 mílur frá aðalmarkaði, en við höfum fulla von um að járnbraut komi bráðum til okkar. Hvað framtíð snertir hér, þá get eg ei annað sagt, en að margfalt horfir betur hér við að geta lifað, en í Nýja Ísl., þrátt fyrir alla eymd og hrakninga okkar hér komnum, þar við máttum kallast sem rúinn horgemlingur; já, sumir sem húðflettir af stjórnendum nýlendunnar; því hér er margfalt auðunnari jörðin og ekki afrakstursminni, miklu þurrari, næstum alls staðar beztu vegir með sárlitlum umbótum, og svo er maður reglulegur eigandi að jörðum sínum hér, og getur, ef vill, selt verk sín strax á þeim. Hér eru þrennslags lönd tekin; það fyrsta er stjórnarland, 160 ekrur, og kosta pappírarnir 17 dollara – frítt að öðru leyti; annað keypt land á $200 – umbótin á því rentulaust í 30 mánuði; þriðja svokallað viðarplöntuland (það er á skóglausum sléttum), og á að planta skóg á 8 ekrum, og borgar maður það land á $17 – að öðru leyti frítt, og þarf aldrei að búa á því eina nótt. Stjórnin hér í sýslunni má heita góð, og engar kvaðir liggja hér á nýl. utan vegavinna. Hér eru nú til, sem eg veit, meðal landa 18 uxapör, og er það ei lítið á svo stuttum tíma, en gripatala að öðru leyti er mér ókunn; margir landar hafa plantað töluvert fyrir hveiti að sumri, og mun það að ekrutali vera um 160 alls. Séra Páll Þorláksson, sem er prestur okkar, hefir safnað gjöfum hjá Norðmönnum löndum hér til hjálpar, og hafa flestir þegið þá hjálp, og það er það sem menn styrkjast hér við í vetur í tilliti til matbjargar, því í sumar sem leið gátu menn ei afkastað meiru en að byggja og láta plægja eða plægja sjálfir, vinna fyrir fatnaði sínum og sinna og matarforða. Komist nú þessi hópur af hér til næstu uppskeru, og geti haldið slíkri stefnu að vinna með löndum sínum (sem eg hefi bezta von um), þá er eg sannfærður um, að við skörum á öðru ári mikið fram úr áðurverandi nýlendu vorri, því nú strax er hér orðið meira plægt, en þar eftir 4 ár, en hér 1 sumar að heita má. Mér og mínum líður bærilega, lof sé guði, og hér er eg mikið rólegri, sér í lagi vegna barna minna, að eg álít þau hér betur komin: eg hefi tekið hér land og er búinn að plæja 6 ekr., sem eg ætla að sá hveiti að sumri; eg á 2 kýr tilvonandi, 2 uxakálfa vorborna, svo hefi eg undir höndum 1 uxapar, sem Jónas sonur minn á, sem er í sambjörg við mig ennþá, svo við getum plægt jarðir okkar. Ekki er eg kominn enn í hús mitt, heldur er eg hjá Samson, tengdasyni mínum, en býst við að flytja mig um eða eftir sumarmál. Fátt er um störf hér enn í kirkjumálum, utan að búið er að setja 3 barnaskóla á fót í vetur (kent í þrem stöðum), og fer það vel fram. Menn búast hér við góðum daglaunum að sumri, því hveitið er hér óðum að stíga í verði, 95c til $1.00 “bushel“-málið.
Eg bið þig að bera Brynjólfi fr. beztu kveðju mína, og það með að eg biðji hann að misvirða ei seinlæti mitt að hripa honum línu, sem svar upp á seinasta bréf hans til mín. Eg hefi verið hér ærið pennalatur. Fyrirgefðu mér klórlínur þessar, og láttu mig ei gjalda þess í næsta bréfi þínu, þar þetta bréf er svo flýtislega úr garði gert, og vildi eg bæta um það seinna, ef eg lifi. Eg óska þér, kæri nafni, góðs og gleðilegs árs; já, guð gefi ykkur öllum blessað og arðsamt ár.
Þinn einl.
J. Jónasson“