Jón Ólafsson í Winnipeg

Vesturfarar

Winnipeg í lok 19. aldar

Jón Ólafsson gaf út blaðið Öldina í Winnipeg og ritstýrði þar bæði Lögbergi og Heimskringlu. Hann hafði ákveðnar skoðanir á íslenska samfélaginu í Winnipeg og lét þær í ljós, vakti lesendur til umhugsunar.  Hann skrifar grein í Lögberg 4. júní, 1890 sem hann kallar ,,Fram, Fram Íslendingar“: ,,Það eru víst engin tvímæli á því, að af öllum óenskum þjóðum í Manitoba erum vjer Íslendingar fjölmennastir. Vjer teljum oss 10 þúsundir. – Vjer erum svo fjölmennir í einu hjeraði hjer, að vjer ættum fyllsta rjett á að hafa Íslending hjer á löggjafarþingi fylkisins. Vjer erum svo fjölmennir í bænum (líkl. þjett voð 3000) að vjer bæði getum ráðið bæjar-kosningum í einu bæjar-kjördæminu og enda haft úrslitaáhrif víðar, er svo ber undir. Stöku sinnum höfum vjer og beitt oss dálítið að kosningum hjer í bænum. Það vorum t.d. eiginlega vjer Íslendingar, sem skárum úr með voru fylgi og gerðum Ryan að borgmeistara hjerna um árið. Vjer eigum meðal vor marga góða og milisvirða menn, mikilsvirða einnig meðal hjerlendra manna. Úti í sveitunum eigum vjer bændur, sem ekkert þjóðerni þyrfti að bera kinnroða fyrir en mundu hvervetna telja sjer sóma að geta tileinkað sjer. Vjer eigum íslenzka kaupmenn hjer í smærri og stærri stýl sem njóta almennrar virðingar og trausts.“                 

 Hvar eru Íslendingarnir? ,, En áhrif þau sem vjer höfum sem þjóðflokkur, og tillit það sem hjerlendir menn taka til vor sem þjóðflokks, stendur ekki í neinu hlutfalli við fjölda vorn og þýðingu. Vjer Íslendingar t.d. erum 9. hluti Winnipeg-bæjar; 9. hver maður er hjer Íslendingur. Hjer er þó t.d. enginn Íslendingur í bæjarstjórn, í stað þess að vjer ættum rjett á að hafa 1 til 2 fulltrúa þar. Af 13 bæjarembættismönnum (Civic Officers) er enginn íslenzkur. Af 22 friðar-dómurum eru einir 2 íslenzkir (W. H. Paulson og Sigtr. Jónasson) ; en vel að merkja, þeir eru hjer skipaðir af stjórninni ekki þjóðkjörnir. Einn einasti Íslendingur hefur hjer stöðu á stjórnarskrifstofu. Hjer í bænum munu vera eitthvað milli 200 og 300 Svíar, og svo sárafáir Norðmenn og Danir, að naumast verði tugum taldir. En þessum 300 Skandinöfum ber miklu meira á en Íslendingum. Hjer er sænsk immigrations-skrifstofa, engin íslenzk. Hjer kemur út innflutningsblað á sænsku kostað af Dominion stjórninni (Kanadastjórn innsk. JÞ); ekki kostar hún né styður íslenzk blöð (stjórnarstyrkurinn til Heimskringlu var líka frá Dominion stjórninni (sambandsstjórninni); en ekki Manitoba-stjórninni). Þessir 2-300 Svíar hjer hafa nýlega farið fram á, að það verði settur sænskur póstþjónn hjer á pósthúsið, af því að svo mikið væri um sænsk brjefaviðskifti, og það er enginn vafi að þeir fá þetta. En vjer Íslendingar, sem erum vel 10 sinnum fleiri hjer í bæ, og gefum út tvö stór vikublöð (ið eina sænska vlað, immigrationblaðið, er mánaðarblað, hvert er, á móts við hálft Lögbergs nr.) – vjer Íslendingar, sem erum allir læsir og klórandi – en það er meira en um aðra Skandinafa verði sagt – vjer förum ekki fram á neitt og fáum því ekki neitt. Þá er nú ekki að tala um þessar þýzku gyðinga-rolur, sem hjer eru í bænum. Enda þótt margfalt færri en vjer, er miklu meira tekið tillit til þeirra.                                                                                                                 

Hvert skal stefna? ,, Af hverju kemur þetta?  Orsakirnar munu vera fleiri en ein. Fyrst skulum vjer nefna eina, sem virðist liggja nálægt; hún er sú, að þjóðerni vort er smátt. Ættland vort Ísland er fámennt. Vjer ætlum að þessi ástæða eigi minnstan þátt í þessu þó, og að það sje mest sjálfum oss að kenna, ef hún hefur verulega þýðingu. Vjer bentum á það í síðasta blaði, að hver aðkomuþjóð hjer í landi er metin, ekki eptir því, hve fjölmenn heimaþjóðin er, heldur eptir því, hver innflutningsvon er frá henni. Ítalir og Spánverjar eru fjölmennari þjóðir en Norðmenn, en Norðmenn eru ólíku meira metnir hjer vestan hafs, og það af þeirri góðu gildu ásæðu, að þeirra þjóð, þó fámenn sje, er frjósöm innflutninga-uppspretta, og innflytjendur þaðan í góðu áliti fyrir dugnað og starfsemi. Þótt því Ísland sje fámennt land, þá getur það framleitt 600 till 1000 innflytjendur hingað árlega án þess að ganga sjálft til þurðar. Frjósemi fólksins er mikil, og eykst er vel lætur í ári og rýmkar um atvinnu heima, eins og hlýtur að verða fyrir útflutningana: Kaup stígur, landskuldir falla, eða stíga að minnsta kosti ekki, og við það auðveldist aðgangurinn að því að verða sjálfum sjer ráðandi og stofna fjölskyldu. Ísland hefur til þessa verið einna þýðingarmesta innflytjenda uppspretta þessa fylkis utan álfunnar. Ef vjer því ekki sjálfir erum svo einfaldir að vera að reyna að ljúga því ; menn hjer, að það megi takast að taka alla Íslendinga upp og flytja þjóðina í heild sinni hingað, svo Ísland standi autt eftir – ef vjer þannig sjálfir reynum að gera lítið úr landi voru og þjóðerni sem innflutninga-uppsprettu og koma því þannig í fyrirlitning. þá ætti það ekki að standa oss í vegi þótt þjóðerni vort sje ekki fjölmennara en það er. Önnur orsökin, og vafalaust aðalorsökin, er framtaksleysi sjálfra vor. – Það ber meira á 10 Svíum eða Norðmönnum eða Dönum heldur en 2- 3000 Íslendingum í þessari álfu. Þessi hnefafylli af Skandinöfum, sem er hjer í bænum, heldur aldrei svo tveggja kvígilda fund, að þeir fái ekki einhvern af merkum embættismönnum hjér til að skipa forsæti (mayor eða ráðgjafa eða þvíl.) og svo er sjeð um að fregnritarar ensku blaðanna sje við eða fái skýrslur. Tilvera þessara þjóðflokka borast þannig óaflátanlega inn í eyru hjerlendra lesenda. Um oss er öðru máli að gegna. Frá oss heyrist aldrei neitt. – Þetta er sumpart vanhirðu vorri eða hugsunarleysi að kenna; sumpart óbeit vorri á að ,,auglýsa oss“, gera vart við oss eða láta bera á oss. En slíkt er mesta fásinna ,,Mann får tude með de ulve man er ude“ segir Ibsen. Vér verðum að minnast þess að að hjer slær lífið hraðara en heima á Íslandi; hjer svo margt, sem heimtar athygli manna, að vjer fáum ekkert af henni, nema við gerum eitthvað til að draga hana að oss. Hjer verður maður að ölnboga sig áfram, til að komas áfram. Og vjer hefðum allir gagn af því, að þjóðerni vort sætti meiri athygli. Allir iðnrekendur (business-menn) hafa gagn af því að heyra til þjóðerni, sem nokkurs er metið. Og vjer Íslendingar hjer erum allir iðnrekendur í einhverjum skilningi. Það er skylda vor við sjálfa oss fyrst og frems og þar næst hvers við annan, að láta ekkert færi ónotað til að vekja athygli á þjóðerni voru og fjölda vorum.“                                                                                                                                                                                     

Íslendingadagur í Manitoba: ,,Allar þjóðir hafa sína þjóðlegu tyllidaga; þannig halda Norðmenn 17. maí (stjórnarskrárdad sinn) og Danir 5. júní (sinn gundvallarlagadag) árlega með mikilli viðhöfn hvervetna hjer í álfu. Því höldum vjer Íslendingar eigi vorn þjóðlega tyllidag líka? T. d. 2. ágúst, ársdag 1000 ára þjóðhátíðar vorrar, þann dag sem stjórnarskrá vor gekk í gildi. Það má segja að hún sé lítilmótleg og ónóg. Hún er þó sá grundvöllur sem vér landrjettindalega stöndum á; og hvað ófullkomin sem hún er, þá hefur hún þó bætt söðu vora sem þjóðar. Og dagurinn er að því leyti þægilegur, að það er um góðviðristíma; vorannir og sumar-annir eru þá allar að baki, en uppskera ekki byrjuð enn. Þann dag ættum vjer Íslendingar hjer vestra að halda sem árlegan þjóðhátíðisdag vorn. Hvervetna um land ættum vjer að láta bera sem mest á oss þennan dag og sjá um að hjerlend blöð fái fulla vitneskju um allt sem gerist, og ekki gleyma að að minnast á fjölda vorn hjer í fylki – 10,000 Íslendinga! – og hjer í bæ – 3000 landa. Þá ættum vjer hjer í bænum að ganga í fylkingu um bæinn og síðan hafa skemtisamkomu á eptir. Allir landar af öllum flokkum og skoðunum ættu að sameinast um þetta, því að hvað sem annars á milli ber, þá erum vjer þó allir Íslendingar og látum oss þykja sóma að vera það. Vjer skorum á hina heiðruðu ritstjórn systurblaðs vors Heimskringlu, að styðja að þessu máli. Vjer skorum á stjórnir allra félaga hjer í bænum, að verða samtaka ritstjórnum beggja hinna íslenzku blaða sem að gagnast fyrir þessu. Sömuleiðis á ritstjóra ,,Sameiningarinnar“. Allir þeir, sem á einn eða annan hátt, hvort heldur í verklegum eða andlegum fjelagsskap eru leiðandi menn í stærri eða smærri fjelögum eða flokkum ættu að fylgjast að um þetta sem einn maður – sem sannir Íslendingar. Til þess að koma þessu á þyrftu ýmsir þessir menn að komasaman fyrst til undirbúnings, halda svo almennan fund með löndum hjer í bænum. En sem sagt: það þarf að byrja að hreyfa þessu. Sje menn samdóma um að gera þetta, þá verður eitthvað til með að koma því á. Fram nú, Íslendingar.“ 

Óvæginn ritstjóri: Jón Ólafsson varð strax umdeildur sem ritstjóri enda hikaði hann ekki við að segja sína skoðun tæpitungulaust í Heimskringlu. Hann lét menn fá það óþvegið t.d. Einar Hjörleifsson en um hann sagði Jón eitt sinn:,, Einar Hjörleifsson, stagkálfurinn, var að gjóta glyrnum til kjördæmisins og smjatta – en allar hans gorkálfs-vonir hlutu að stranda á því eina atriði, þótt ekki hefði verið annað, að hann getr ekki gert sig skiljanlegan á ensku“ og um Hans Vilhelm Pálsson, sem seinna sat á fylkisþingi í Saskatchewan, sagði hann: ,,Ef þessi mannsmyndar-háðung, sem gengr hér undir nafninu W.H.P., væri maðr, þá mundi hún skammast sín fyrir að vera gripinn svona hvað eftir annað í illkvitni og lygum. En kvikindið er nú einu sinni svo gert, að það getr ekki lært að skammast sín – og ég ætla ekki að fara að leggja rækt við að kenna því það. Það er hvort sem er svo alment hatað og fyrirlitið meðal landa hér vestra, að orð þess eru virt af almenningi eins og þau eru verð.“  Öllu hrikalegri er svo lýsing Jóns á Lögbergi:,,Vesalings leigublaðs-kálfskinns-náraklippings-skækillinn! Þrátt fyrir mútur og snýkjur og sleikjur og slor-spæni er það nú svo á rassinum, að það getur ekki komið út nema einu sinni um vikuna – sjálfsagt með 6 til 7 dálkamegrunasóttina, sem vön er að þjá snepilinn.“  (SÍV5 bls10-11) En önnur lýsing á Lögbergi í bundnu máli var svona:

Lögbergs – skonkur lýgur og stelur,
Lögbergs-skonkur drengskapinn selur,
Lögbergs-skonkur lyginni m….,
Lögbergs – skonkur kyrkjuna sýgur.

Engan skal undra orð Einars Hjörleifssonar við brottför Jóns úr borginni og suður til Bandaríkjanna þegar hann óskar þess að blaðamennska Vestur- Íslendinga megi verða ,,ánægjulegra og þokkalegra verk en hún hefur verið að undanförnu.“

Punktar um Jón Ólafsson: Um ritsjórn Jóns Ólafssonar var skrifað:,, Hann var ekki ritstjóri Heimskringlu lengi , en fæstum mun dyljast, að það var hann, sem hóf Heimskringlu eins hátt og hún hefur komist sem skemtandi og fræðandi blað. Andi hans var svo víðsýnn í ritstjórnarsessinum og hann hafði svo gott lag á að gera lesendum sínum skiljanlega alla helztu viðburði í umheiminum. Að færa lesendum sem glöggastar og beztar fréttir var ætíð takmark hans, við hvaða blað sem hann var riðinn. Hann var heldur ekki blindur fyrir því, sem var að gerast í lífi Vestur-Íslendinga. – Því til sönnunar má benda á það, að fyrstur allra mentamanna hér varð hann til þess að benda á Stephan G. Stephansson og skáldskapargildi kvæða hans.“ (SÍV5 bls. 10) Og á öðrum stað segir um Jón:,, Vestur- Íslendingar eiga Jóni Ólafssyni mikið að þakka.“ (SÍV5 bls, 11) Tryggvi Oleson skrifar í SÍV5 bls 10-11 að tilvitnanir hér að ofan séu Ólafs Tryggva Jónssonar, ritstjóra Heimskringlu frá 8. mars, 1917-13. ágúst, 1919.