Í riti sínu ,,Frá Austri til Vesturs“ skrifar Þorleifur Jóakimsson um Jónas:,, Jónas í Hulduárhvammi var nokkuð einkennilegur maður, spaugsamur var hann en stundum óvæginn í orðum og grófyrtur, en varla mun nokkrum hafa getað þótt við hann, því hægt var að skilja að hugur fylgdi ekki alténd máli og að innra fyrir hjá honum bjó drengskapur og göfuglyndi. Jónas hafði sterka trú á því, að vel mætti lifa í Nýja Íslandi, ef bjargræðisvegirnir þar væru vel notaðir.“
Jónas lýsti skoðun sinni í bréfi til Framfara sem birt var í blaðinu 29. október árið 1879. Brottfluttningar frá Nýja Íslandi stóð þá yfir, einkum fluttu menn í nýja, íslenska byggð í N. Dakota. Jónas segir: ,,Mikið ágæti væri það, ef eldiviðarsalan gæti komist hér á, því það er einmitt, eins og þér segið, atvinnuleysið, sem fjötrar framfarirnar. Hvílíkt forðabúr er ekki vatnið hérna, ef efni jykust til að koma upp hæfilegum skipum og veiðarfærum. Hvílíkt forðabúr væri ekki ströndin, þegar búið væri að ryðja hana og plægja, og fallegt verður að sjá fögur skip og fjörga drengi sigla á vatninu framundan fallegum bæjum og fögrum ökrum, og þegar hjarðirnar hlaupa úr skrúðgrænum girðingum ofan á sandinn til að anda að sér hinum kælandi loftstraumum frá vatninu að hrista af sér ólukku flugurnar.
Íslendingum hefir verið brugðið um það, að þeir einblíndu of mjög á stundarhaginn, og því munu menn hafa svo mikið álit á Dakota, en varla munu 20 ekrur í Dakota happadrýgri, þegar stundir líða, en fimm ekrur hér, þegar litið er á þá gnægð fiskjar, sem hér er að fá; 25 hér verða á móti 100 þar. Við Mývatn á gamla Íslandi er dæmið deginum ljósara þessu áliti mínu til sönnunar, því engin sveit heima stóð móti Mývatnssveit til jafnaðar, þegar hafísar og jarðeldagos kreptu að landinu. Þetta gjörði silungsveiðin, sem guð varðveitti í vatninu, þó jörðin í kring stæði í hinum dimmrauða hraunleðju loga frá eldfjöllunum.“