Páll Reykdal: Heimir Þorgrímsson skrifaði sögu Lundarbyggðar sem birtist í Saga Íslendinga í Vesturheimi IV. Þar segir m.a. um Pál Reykdal:
“Páll var fæddur á Íslandi árið 1878 og kom til Kanada níu ára gamall. Í byggðina kom hann með foreldrum sínum árið 1880(á að vera 1887). Hann mun hafa verið bráðþroska og snemma aflað sér þekkingar á ensku máli, því það er í frásögur fært, að á fyrstu árum nýlendunnar hafi landnámsmenn leitað til hans, þegar þeir þurftu að standa í bréfaviðskiptum við hérlend stjórnarvöld eða einstaklinga. Hefur þá einnig komið snemma í ljós, hvað Páll var bóngóður og ætíð reiðubúinn að leysa vandræði allra, sem til hans leituðu, ef hann mátti því við koma. Páll virðist hafa verið sjálfkjörinn leiðtogi yngri manna í öllu því, sem að félagsskap laut. Hann var forgöngumaður í Good-Templarastúkunni, sem Arinbjörn Bardal stofnaði við Lundar árið 1909, og í Málfunda- og kappræðu- félagi, sem stofnað var árið 1895. Einnig er sagt, að hann hafi verið góður styrktarmaður lestrarfélagsins, sem hleypt var af stokkunum 4. febrúar 1904. Páll varð snenima frægur fyrir mælsku og mun hafa komið fram á flestum samkomum, sem haldnar voru í byggðinni, á meðan hann átti þar heima. Síðast og ekki sízt var Páll lífið og sálin í öllum íþróttum og var sjálfur ágætur glímumaður og manna fóthvatastur. Líklega er það ekki ofsögum sagt, að Páll hafi verið félagslyndasti maður, sem verið hefur í Lundarbyggð. Páll var um eitt skeið einn at mestu afhafnamönnum byggðarinnar. Árið 1904 byrjaði hann að verzla á Oak Point, en mun hafa hætt því um 1905. Eftir að járnbrautin kom til Lundar árið 1911, flutti Páll þangað og rak verzlun í stórum stíl, ýmist einn eða í félagi við aðra, þar til hann flutti til Winnipeg árið 1928. Páll rak oft stóra útgerð á Manitobavatni og keypti mikið af fiski. Einnig hafði hann og félagar hans oft á tíðum mikla sveit manna við heyskap, og seldi hann hey víðsvegar um vesturfylki þessa lands. Ekki mun hans þó fyrst og fremst minnzt sem verzlunarmanns, því að verzlun á Lundar hefur til skamms tíma gengið frekar skrykkjótt, endla auðgaðist Páll ekki á kaupsýslu sinni þar. Ekki þarf að taka það fram, að Páll lét sig öll mál sveitar sinnar miklu varða. Hann mun t. d. hafa verið í nefnd þeirri, sem send var á fund fyIkisstjórnarinnar til þess at fá því framgengt, að sveitarfélag ( municipality) væri stofnað. Þetta tókst árið 1913, og varð hann fjórði oddviti sveitarinnar og hélt þeirri stöðu í átta ár (1920-1928), en fyrirrennari hans var Jón Sigfússon, fyrsti landnámsmaður byggðarinnar, og hafði hann þá gegnt því embætti um fimm ára tímabil.
Stjórnmál: Á sviði stjórnmálanna var Páll frá barnæsku öflugur stuðningsmaður íhaldsflokksins (Conserveative). Ekki veit eg hvort það stafaði af meðfæddri íhaldssemi eða af því, að hann varð snemma andvígur lúterskunni og átti því ekki í annað hús að venda í pólitískum skilningi (en eins og vitað er fylgdu lúterskir vanalega Liberalflokknum, en andstæðingar þeirra íhaldsmönnum). Má víst að miklu leyti þakka Páli þann stuðning, hvað mikill sem hann var, sem Íslendingar veittu leiðtoga íhaldsflokksins, Arthur Meighen, um og eftir lok fyrra heimsstríðsins, en kosningu náði hann tvisvar í Portage la Prairie kjördæminu, sem í þá tíð taldi til sín íslenzku byggðirnar austan Manitobavatns. Segja fróðir menn, að Arthur Meighen, sem ekki kallaði allt ömmu sína, hafi metið Pál mikils og talið hann meðal öruggustu stuðningsmanna sinna í þessu fylki. Tvisvar sótti Páll um kosningu til fylkisins undir merkjum íhalds-flokksins, í bæði skiptin á móti Skúla Sigfússyni. Páll leitaði fyrst kosningar árið 1915, en þá var íhaldsstjórnin, sem lengi hafði setið að völdum, óðum að tapa vinsældum, og var Skúli sigursæll í þessari viðureign. Svo fór einnig þegar þeir kepptu með sér aftur áriò 1927. Þegar Lundarbúar minntust 60 ára afmælis byggðarinnar sumarið 1947, tók Páll mikinn þátt í undirbúningi hátíðarhaldsins, þótt hann væri þá búsettur í Winnipeg. Við þetta tækifæri flutti hann ræðu og sagði þar sögu byggðarinnar, sem hann er manna kunnugastur. Þeim, sem ekki vissu, hvað Páll cr stálminnugur, mun hafa þótt það undrun sæta, að hann skyldi geta nefnt með nafni hverja eina og einustu manneskju, sem til byggðarinnar kom fyrstu fjögur árin, og tilgreint um leið, hvaða land hver tók án þess að styðjast við blað eða bók. Þá má ekki gleyma því, að Páll átti einnig mikłnn og góðan þátt í því, að saga byggðarinnar, sem hér hefur mest verið stuðst við, var eins vel úr garði gerð og raun varð á. Síðan Páll flutti til Winnipeg hefur hann rekið fiskverzlun í allstórum stíl. Hann á einnig nokkrar beltisdráttarvélar (caterpillars), sem notaðar eru víð vetrarflutninga í norður hluta Manitobafylkis. Sér til dægrastyttingar spilar Páll bridge og er talinn með þeim alra fremstu í þeirri list. Meðan Páll var á Lundar, var ham sagður með beztu taflmönnum sveitarinnar, og átti þó Lundar í þá daga mörgum góðum taflmönnum á að skipa.“