Séra Friðrik J Bergmann

Vesturfarar

Wesley College í Winnipeg, seinna Winnipeg University

Séra Friðrik J Bergmann Mynd VÍÆ IV

Friðrik Bergmann naut þess strax í barnæsku að foreldrar hans vildu að hann menntaði sig. Í heimahúsum lærði hann að lesa og draga til stafs og svo tóku við kennslustundir hjá séra Jóni Austmann, séra Árna Jóhannssyni og séra Davíð Guðmundssyni. Vorið 1874 fór hann til Reykjavíkur og þreytti inntökupróf í Latínuskólann en hagir foreldra hans breyttust, þeir ákváðu að flytja til Vesturheims. Friðrik var bersýnilega hlynntur þeirri ákvörðun því í stað þess að hefja nám í Latínuskólanum fór hann vestur um haf árið 1875 og mun hafa farið til Wisconsin þar sem Páll Þorláksson var um þær mundir. Friðrik fór í íslensku nýlenduna í Shawano þar sem Páll undirbjó bróður sinn, Níel Steingrím fyrir nám í norskum latínuskóla í Decorah í Iowa. Þar var Friðrik yfir veturinn og fram á sumar 1876 en um haustið fóru þeir til Decorah og lauk Friðrik stúdentsprófi þaðan árið 1881. Hann hóf guðfræðinám í Osló í Noregi árið 1883 og var þar fram á vor 1885. Þaðan lá leiðin til Philadelphia þar sem hann hélt áfram námi og lauk prófi vorið 1886 og var vígður prestur 17. júni, sama ár til íslenskra safnaða í N. Dakota. Þar þjónaði hann átta söfnuðum frá 1886 til 1893. Hann þjónaði í N. Dakota til ársins 1902, flutti þá til Winnipeg um haustið og var ráðinn kennari í íslenskum fræðum við Wesley College í borginni. Hann tók kalli Tjaldbúðarsafnaðar Í Winnipeg og þjónaði honum til æviloka. Hann varð varaforseti Hins evangeliska lútherska kirkjufélags Íslendinga í Vesturheimi en vegna ágreinings um trúfræði sagði hann sig úr félaginu árið 1909.

Friðrik fór snemma að skrifa greinar í blöð og tímarit. Hann var ritstjóri Aldamóta árin 1891-1903 og Breiðablika 1906-1914. Af fjölmörgum greinasöfnum má nefna Eina lífið 1903, Vafulogar 1906, Treginn og tárin 1911, Viðreisnarvon kirkjunnar 1911, Trú og þekking 1916, Hvert stefnir 1916 og  Sögur Breiðablika 1919.