Sigbjörn Sigurðsson

Vesturfarar

Sigbjörn Sigurðsson

Guðni Júlíus Eyjólfsson, betur þekktur sem G. J. Oleson var afkastamikill sagnaritari í Manitoba í Kanada framan af 20. öld. Hann ritaði byggðasögur, ævisögur og minningargreinar. Árið 1940 fjallaði hann um merkan landnámsmann í íslensku byggðinni í Minnesota. Hét sá Sigbjörn Sigurðsson. Gefum Guðna orðið:

Sigbjörn Sigurðsson Hofteig

,,Sigbjörn Sigurðsson Hofteig, 1841 – 1937. Á fyrstu árum Íslendinga hér í álfu, voru það bændur og alþýðumenn, sem íslenzka merkið báru fyrst fram til sigurs. Dugnaður, framsýni og manndómur þeirra í hinni örðugu lífsbaráttu ávann Íslendingum hróður þann, sem aldrei síðan hefir verið frá þeim tekinn. Það var ekki úrkast hinnar íslensku þjóðar, sem vestur flutti frá menningarlegu sjónarmiði skoðað, þeir voru flestir fátækir, en þeir áttu andlegan auð og manndóms yfirburði, sem haslaði þeim völl meðal bestu manna hjá hvaða þjóð, sem hefði verið. Þeir voru karlar í krapinu margir íslenzku leikmennirnir, bæði hvað vit, framtakssemi og höfðingsskap snerti, og í flestum og jafnvel öllum bygðum Íslendinga voru þessir afburða menn – héraðshöfðingjar, sem höfuð og herðar báru yfir fjöldann. Einn af þessum mönnum var maðurinn, sem eg vil nú hér í stuttu máli minnast, – Sigbjörn Sigurðsson Hofteig, sem alla sína tíð hér vestra var héraðshöfðingi í Lyon County í Minnesota“.

Uppruni – vist á Hofteigi

,,Hann var Austfirðingur að ætt og uppruna, fæddur á Breiðumýri í Vopnafirði, 31. desember, 1841. Faðir hans var Sigurður Rustikusson, bónda á Breiðumýri Bjarnasonar. Kona Bjarna var Kristín Rustikusdóttir Þorsteinssonar bónda á Koreksstöðum og víðar. Þorsteinn faðir Rustikusar, var Magnússon bóndi á Sleðbrjót um 1700. Kona Þorsteins en móðir Rustikusar, var Vigdís Styrbjarnardóttir Magnússonar bónda í Jökulsárhlíð. Magnús bjó á Sleðbrjót og er sagður kominn af Mávi þeim er Mássel er við kent, – kona hans og móðir Styrbjarnar var Járngerður Ólafsdóttir, systir Ásmundar bónda hins blinda á Hrafnabjörgum í Hlíð. Móðir Sigbjörns, en kona Sigurðar Rustikussonar, var Solveig Sigurðardóttir pósts Steingrímssonar Jónssonar Þorleifssonar bónda á Hafursá, dáinn 1785. Móðir Sigurðar pósts og kona Steingríms var Snjófríður Sigurðardóttir Einarssonar hreppstjóra í Geitdal, en móðir Snjófríðar var Sólrún Árnadóttir fyrri kona Sigurðar. Hennar faðir, Árni Jónsson bóndi í Geitdal og síðar á Brú á Jökuldal Bjarnasonar, Jónssonar, Bjarnasonar prests í Bjarnarnesi 1633-71. Hans faðir Bjarni gullsmiður í Berunesi, en móðir séra Jóns var Sigríður Einarsdóttir systir Odds biskups í Skálholti. Faðir þeirra var Einar prestur Sigurðsson í Heydölum. Heimildir fyrir ættfærslu þessari, er ættartöluskrá séra Einars Jónssonar ættfræðings, er prestur var á Hofi og Kirkjubæ, hefir hann rakið ætt Sigbjörns til Björns Jórsalafara, Sæmundar fróða, Snorra Sturlusonar og Haraldar konungs hárfagra, í föður ætt. Sigbjörn mun hafa alist upp í foreldra húsum fram yfir fermingu, er talið að hann hafi farið til séra Þorgríms á Hofteigi 16 ára gamall, 19 ára gamall kendi hann alvarlegs innvortis sjúkdóms og fyrir aðstoð og tilstill

i séra Þorgríms, fór hann til Akureyrar til Jóns Finnsonar læknis. Fór hann norður með mönnum fótgangandi, komst norður í Þingeyjarsýslu, lagðist þar veikur og lá í viku, en hrestist og með aðstoð góðra manna komst hann til Akureyrar. Sigbjörn Þjáðist af alvarlegri innvortis meinsemd, en skurðlækningar voru ekki þá tíðkaðar, læknirinn brenndi hörundið og stakk síðan á meinsemdinni, þegar búið var að brenna nægilega mikið. Þegar Finnson læknir var búinn að brenna einu sinni, veiktist hann eða varð fyrir slysi, svo hann gat ekki sint Sigbirni æðilangan tíma. Brunasárið greri og bríxlaði og var nú ver viðureignar en áður, loks byrjaði læknir aftur að fást við sjúklinginn, var hann að fást við hann allan veturinn. Um vorið stakk hann á meinsemdinni og lukkaðist vel og Sigbjörn fékk fullan bata. Var það hart og kvalafult á meðan á því stóð. Séra Þorgrímur borgaði fyrir Sigbjörn en honum borgaði hann aftur hvern eyri. Séra Þorgrími og frú hans maddömu Guðríði Pétursdóttir frá Engey, bar hann söguna hið bezta, og slíku ástfóstri tók hann við Hofteig að hann tók það sem ættarnafn þegar hann kom til Vesturheims“.

Hjónaband – Vesturför

Steinunn Magnúsdóttir

,,Haustið 1868, gekk hann að eiga ungfrú Steinunni Magnúsdóttir óðalsbónda á Skeggjastöðum á Jökuldal. Hún var fædd 6. febrúar, 1848. Bjó hann þar á móti tengdaföður sínum þar til 1874, en flutti þá að Mýnesi í Eiðaþinghá, og bjó þar í 4 ár. Hann var strax á unga aldri hinn mesti dugnaðarmaður, og fljótt kom það í ljós við búskapinn að hann var framgjarn og fyrirhyggjusamur með lund manndóms og metnaðar og óx hann fljótt í áliti sveitunga sinna og var kosinn bæði í hreppsnefnd og sýslunefnd. 1878 flutti hann til Vesturheims. Erfiðar kringumstæður voru það ekki sem knúðu hann vestur um haf, eins og fjöldann af þeim, sem vestur fluttu, því honum farnaðist vel þessi fáu ár, sem hann bjó á Íslandi. En það kom að því að það þurfti að húsa upp bæinn í Mýnesi, annaðhvort varð hann nú að gera það eða flytja úr stað, svo hann kastaði teningum og flutti vestur, óefað hefði hann staðið í fremstu röð bænda heima eins og hann gerði hér og farnast vel, því það er ekki hvar maðurinn er, heldur hvað í honum býr, sem sker úr því hvað úr honum verður í lífinu. Allnokkur útflutningur hafði verið frá Austurlandi árin undanfarin, og fóru flestir til Minnesota og fylgdi hann straumnum þangað, og settist hann að í íslenzku bygðinni í Minnesota og keypti hann sér bújörð (160 ekrur af landi) í Lyon County norðaustur frá Minneota bænum, var gjaldverðið $800, fylgdi í kaupunum eitthvað af búpeningi. Borgaði hann strax $600, og ekki leið á löngu þar til hann hafði goldið að fullu. Íslands saknaði hann, og fyrst sá hann eftir skiftunum, en brátt sætti hann sig við umhverfi og ástæður á vesturhveli hnattar. Sigbjörn var spakur maður og forvitri um margt. Þegar hann kom á hæðina þar sem hann bygði í Minnesota, kannaðist hann strax við staðinn, þó hannhefði aldrei þar komið áður, hann sagði mér sjálfur að hann hefði svo greinilega séð þennan stað í svefni, sex árum áður en hann flutti frá Íslandi. Óefað hefir hönd forsjónarinnar leitt hann á þennan stað, þar sem farsæld hans og frami var svo mikill. Eins og hin sama hönd leiddi hinn forvitra Ingimund gamla úr Noregi norður í Vatnsdalinn á Íslandi þvert á móti hans ásetning. Oft hefir mér fundist andlegur skyldleiki milli þessa göfugmennis fornaldarinnar og Sigbjörns“.

Íslenskt samfélag á amerískri grund

,,Sigbirni farnaðist frábærlega vel í búskapnum, bætti hann við sig jörðum, og varð fljótt vel efnum búinn, húsaði bæ sinn vel og smekklega, og varð eins og áður er sagt höfðingi sveitar sinnar. Sigbjörn var maður með háum hugsjónum, sem hátt verðgildi lagði á andlega menningu, kostaði hann kapps og lagði mikið í sölurnar að koma börnum sínum til menta, náðu dætur hans flestar kennara stöðu, og kendu lengri eða skemri tíma. Elzta dóttir hans, Guðný, útskrifaðist af Gustafus Adolphus mentaskólanum í St. Peter, Minn., og kendi hún við æðri skóla svo árum skifti, eða þar til hún giftist. Í öllum félagsmálum sem snertu heill og velferð bygðar sinnar tók hann mikinn þátt, og stóð þar ætíð í broddi fylkingar, trúmaður var hann mikill og einlægur og forgöngumaður í kirkjulegri starfsemi síns umhverfis fram til hinstu stundar. Á fyrstu árum stafnaði hann sunnudagaskóla og veitti honum forstöðu með lífi og sál og um 15 ára skeið var hann forseti Vesturheims safnaðar. Barnavinur var hann mikill og æskunni vildi hann innræta hreina og heilbrigða trú og hollar lífsreglur. Hann var af öllum vel metinn fyrir einlægni sína, áhuga, dugnað og manndóm, hann var alvörumaður og siðavandur  og harður í horn að taka ef um mál var að ræða, sem honum fanst miklu skifta, og lét hann þá ekki sinn hlut. Var hann vel fær um að standa framarlega, því hann var vel lesinn og fróður um margt, vel máli farinn og rökfastur. Öflugur stuðningsmaður var hann Hins Ev. Lút. Kirkjufélags, og sat á þingum þess, sem fulltrúi safnaðar síns, svo árum skifti, og var þar mikils metinn. Í almennum félagsmálum bygðar sinnar tók hann mikinn þátt, hann var í stjórnarráði Verzlunarfélags Íslendinga þar í bugðinni, meðan það var við lýði, og síðar í stjórnarráði samvinnuverzlunar Norðmanna í Cottonwood. Hann sat einnig í skólaráði og gengdi ýmsum trúnaðarstöðum sem hér verður ekki um getið“. 

Eftirmál

 ,,Á heimili sínu var hann hvorttveggja í senn, umhyggjusamur og stjórnsamur. Hann og kona hans fengu almenningsorð fyrir gestrisni og hjálpsemi við fátæka. Blaðið „Minneota Mascot“ komst svona að orði í afiminningu hans:“Heimili hans stóð jafnan opið fyrir gestum og gangandi, og gestrisni hans var viðbrugðið í héraðinu, hann var af öllum virtur fyrir leiðtoga hæfileika, manndóm og ráðvendni, og elskaður fyrir hans hreina vinarþel og einlægni frá hjartans grunni.“ ,,Sigurbj. Ástvaldur  Gíslason skrifaði um hann í „Bjarma“ hlýlega ritgerð 1914. Kemst hann meðal annars svo að orði: „Margt hefir hann séð og reynt þessi 72 ár, sem hann hefir að baki, ólík mun kjör hans nú eða þegar hann byrjaði búskap í Vesturheimi, og þótt heilsa hans sé sæmileg enn, er þó munur töluverður frá því er hann forðum gekk Jökuldalsfjöll, – í fyrra var krabbamein skorið úr vör hans og hálsi, og hefir hann nú náð sér allvel aftur. En eitt er það sem ekki hefir breyst, segir hann sjálfur, guðs náð hefir aldrei breyst, hún er gleði hans og athvarf nú sem fyrrum.“ ,,Eg sá þennan móðurbróðir minn í fyrsta sinn 1896, hann kom þá á kirkjuþing, sem haldið var í Argyle. Kom hann þá til okkar og var nótt, þá var hann 55 ára. Aftur kom hann norður 15-16 árum síðar, var hann þá enn ern og ungur í anda. 13 árum eftir að Ástvaldur Gíslason skrifaði í „Bjarma“ greinina, heimsótti eg hann í Minnesota haustið 1927, og hraðaði nú för fanst mér komið í eindaga að eg fengi að sjá hann lifandi, þá var hann 86 ára, brá mér í brún að sjá hann ernan og sprækan og enn ungan í anda. Aftur heimsótti eg hann 1930, þá var hann enn furðu hress, en að mestu farin að sjón. Gekk hann fram fyrir þingheim fyrir þingheim á kirkjuþinginu í Minneota og talaði til þingsins af krafti, mun það hafa verið í síðasta sinn, sem hann ávarpaði kirkjuþing. Alt þetta sýnir hve mikið andlegt og líkamlegt þrek var í hann spunnið og hve vel hann fór með sitt pund. Og enn átti hann nokkur ár að baki. Það var ekki fyri en 5. jan. 1937 að ljósið brann út. Hann hafði fótaferð til hins síðasta, og hann fékk rólegt andlát. Kona hans dó 1. október 1933. Það sem maðurinn sáir, það mun hann og uppskera. Sigbjörn sáði vel og hann uppskar vel. Fáum hafa farnast betur hér vestra en honum, og ættlegg hans, fáir hafa verið gæfusamari. Hann var vel efnum búinn, hann átti myndarleg og gæfusöm börn og barnabörn, hann var hraustur og heilsugóður lengst æfinnar sem var lengri en alment gerist, – hann átti rólegt og fagurt æfikvöld, var þakklátur og sáttur við lífið og beið með eftirlöngun að sigla á hið ókunna haf. Hann hjálpaði mörgum með góðum ráðum, og gaf mörgum. Það var honum nautn að láta gott af sér leiða. Það hefði óhætt mátt leggja honum þessi orð í munn:“Það er ekki það sem eg ber úr býtum í lífinu sérstaklega sem skiftir máli, heldur hitt hvað eg get lagt til, á hvern hátt rg get auðgað lífið bezt. Það er þýðingarmest.“