Stefán Einarsson, ritstjóri Heimskringlu, birti eftirfarandi dánarfregn í blaðinu 30. ágúst, 1839
Sigfús Björnsson bóndi að Fagranesi við Riverton, Man., andaðist á almenna sjúkrahúsinu í Winnipeg þann 21. júlí s. l. eftir stutta legu þar, en langan sjúkdóm heima fyrir er vaxandi fór. Hann var fæddur á Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, 18. maí 1863. Foreldrar hans voru Björn Jónsson og Björg Halladóttir, voru þau af merkum ættum komin á Austurlandi. Sigfús ólst upp hjá foreldrum sínum en fór til Vesturheims árið 1888, ári fyr en foreldrar hans og systkini. Hann vann árum saman við ýmsa vinnu og á ýmsum stöðum, á vötnum úti og við járnbrautalagningu, en taldist til heimilis í Fagranesi hjá (foreldrum sínum er þar bjuggu, og settist þar að búi 1898. Árið 1900 kvæntist hann Margréti Sveinborgu Jóhannesdóttir Jóhannssonar frá Vindheimum í Skagafirði og Margrétar Sigurgeirsdóttir. Konu sína misti Sigfús frá börnum þeirra ungum, þann 16. jan. 1912. Börn þeirra eru: Margrét Elinborg, gift Hermanni Thorsteinson útvegsmanni í Riverton, Man.; Björn, bóndi í Fagranesi, ógiftur. Björg, gift Jóni Aðalsteini Laxdal, búa þau í Fagranesi. Jóhanna Vilborg, verzlunarmær, d. 8. des. 1931, Ingibjörg Sveinborg, gift Kristjáni Thorsteinsson, Riverton. Systkini Sigfúsar eru Ingibjörg, kona Sigurðar Jónssonar Olson, bónda á Keldulandi við Riverton, göfuglynd kona og stórmerk, og Halli útvegsbóndí og fiskikaupmaður á Vindheimum, nú látinn, ógleymanlegur starfs- og athafnamaður og höfðingi að hjartalagi og framkomu. Ávalt var með þeim systkinunum hin kærasta vinátta og stóðu þau við hlið Sigfúsar er hann var eftirskilinn með hóp móðurlausra barna sinna, Ingibjörg tók dætur hans til ársdvalar, og eina þeirra fóstraði hún upp að öllu leyti. Einnig naut hann ágætrar hjálpar frænda sinna Sigfúsar og Hildibrandar, sona Jóns Hildibrandssonar frænda hans, er studdu hann á ýmsan hátt með trúfastri og göfugri frændsemi þegar kjör hans voru örðug og róðurinn þungur. Sigfús, sem þegar er á minst var af ágætum ættum kominn, og bar þess merki í svip og atgerfi sem systkini hans. Hann var fágætur fjörmaður, karlmenni að burðum og harðfylginn athafnamaður á yngri árum, en fjör í hugsun og hreyfingum og framkomu einkendi hann til efstu æfistunda. Léttlyndi hans og græskulaust gaman gerði hann ógleymanlegan, framkoman öll var hispurslaus, hreinskilin og blátt áfram. Öllum er kyntust honum var það ljóst að hann batt ekki bagga sína með sömu handbrögðum og samferðafólk hans. Skapgerðin og upplagið var mjög svo íslenzkt, tijfinningar sínar, sem eg hygg að verið hafi miklar og heitar, virtist hann oft gera sér far um að dylja, með gamanyrðum eða yfirborðskulda, en við nána kynningu duldist engum gullið er í sálu hans bjó. Oft virtist mér hann vera sambland af barni og víkingi. Hjálpsemi við aðra einkendi hann. Hann unni mjög ætt og sagnfræði og var þar vel heima fram yfir það er tök voru til og var unun hans og yndi um þau efni að tala. Hugsjón hans að mega ala upp börnin sín og dvelja með þeim, varð að sigursælum raunveruleik, böndin milli föður og barna traust og djúp. Naut hann samvinnu þeirra — og umönnunar í sjúkdómsstríði — afleiðingum af áfalli er lengi varði, og hann mun aldrei hafa þaðan af heill heilsu verið —þaðan af heill heilsu verið — og svo í hinsta stríði. Kveðja þau hann með þakklæti og trega. Hann var kvaddur af fjölmennum hópi frændaliðs og vina og sveitunga þann 26. júlí. Fór athöfnin fram frá Fagranes heimilinu og kirkju Bræðrasafnaðar og var mjög fjölmenn. Vertu sæll, fjörugi, fróði og trygglyndi Íslendingur! S. Ólafsson