,,Eg er fæddur á, Garði í Kelduhverfi í Norður- Þingeyjarsýslu 19. marz 1845. Foreldrar mínir voru síra Magnús Jónsson, Jónssonar prests að Grenjaðarstað, sem eitt skifti var Konrektor á Hólum, líklega um 1700 eða fyrr. Móðir mín var Þórvör Skúladóttir frá Múla í Aðalreykjadal, Tómassonar prests, og Þórvarar Sigfúsdóttur prests í Höfða. Eg ólst upp í Garði hjá foreldrum mínum, þar til 7 ára að aldri, þá fluttust þau austur að Ási í Fellum í Norður-Múlasýslu og dvöldu þar tvö ár, en árið 1855 fluttust foreldrar mínir norður að Grenjaðarstað, því þá gjörðist faðir minn aðstoðarprestur hjá föður sínum, síra Jóni, sem áður er nefndur. Hin fyrsta vetur á Grenjaðarstað 1855-6*, vorum við 3 bræðurnir sendir út á Húsavík, til þess að njóta tilsagnar í skrift og reikningi hjá húskennara Jakobs Johnsens. Kennari okkar var Bjarni Gunnarsson, sem ritaði hina snotrustu hönd, er til var á Íslandi í þá daga. Undir próf þurfti eg að ganga hjá Johnsen gamla með því að skrifa nafnið mitt, og fekk þann vitnisburð, að eg skrifaði með hreppstjórahönd, sem víst hefir ekki verið burðug í þá daga, og var eg þá á 1o ári. Um veturinn dvaldi eg og elzti bróðir minn, Björn, hjá Sigfúsi sýslumanni Sohulesen, móðurbróður mínum, en Jón Skúli hafði aðsetur hjá Johnsen og föðursystur minni, Hildi. Næsta vetur eftir fékk faðir minn fyrir heimiliskennara síra Benedikt Kristjánsson aðstoðarprest í Múla, (sem síðar varð tengdafaðir minn), til þess að kenna mér og okkur bræðrum skrift, reikning og dönsku. Þegar síra Benedikt fór frá Múla, kom í hans stað síra Magnús Jónsson, síðast prestur í Laufási, og bættust þá fleiri námsgreinar við, svo sem réttritun, landafræði, danska, enska og þýska, þótti þetta mikið, eftir því sem þá gerðist, og kom mér að góðu gagni síðar meir. En eitt virtist mér þó vanta, sem mér síðar varð ljóst, en það er að benda unglingum á einhvern vissan atvinnuveg, helzt það sem hann kýs sjálfur, ef vit er í, svo hann geti haldið að einhverju vissu takmarki. En á Íslandi er þó ekki um margt að kjósa, og þess vegna vilja víst allir komast á landssjóð, sem engum er í sjálfu sér láandi, því fátt annað er lífvænlegt. Þó hefir nú þetta mikið breyzt til hins betra, síðan eg fór af Íslandi“
*Þetta haust, eða snemma um veturinn, brann að kalla allur bærinn að Múla, og fluttist þá mikið af heimilisfólkinu ofar að Grenjaðarstað, þar á meðal amma mín, Þórvör Sigfúsdóttir var hún þá búin að liggja í kör nokkur ár, og man eg að hún var borin í brekánum ofan að Grenjaðarstað.
Samkvæmt því sem áður er skýrt frá, hafði eg í uppeldinu fengið nokkurn forða, gott nesti, til þess að byrja ferðina út í lífið, og eftir þetta liðu unglingsárin og eg vandist sveitavinnu, stundum í góðum félagsskap og stundum líka í hinum lakari eins og geta má nærri, þar sem oftast voru í heimili um 20 manns á Grenjaðarstað í þá daga. Eg var bráðþroska og fullvaxinn hér um bil 18 ára gamall. Glímu og fleiri aflraunir voru þá tíðar í sveitunum, ásamt sundkenslu.
Vangaveltur á Íslandi – Vesturför: Á þessum árum, eða 1865 og þar eftir, var farið að hreyfa útflutningum frá Íslandi, og var eg einn sem snortinn varð af utanfarar fýsn. Einar Ásmundsson frá Nesi var hinn fyrsti maður, sem hreyfði þessu; útvegaði hann sér ýms rit og landalýsingar, bæði á dönsku og þýzku; gekk það milli manna í sveitunum, sem gátu notið þess, og svo sögðu þeir sem þetta lásu hinum, því allir gjörðust nú forvitnir um þessa nýlundu. Dreyfðist þetta ótrúlega fljótt út um þingeyjar- og Eyjafjarðar-sýslur. Fyrst hafði þó verið minst á Grænland svo Brasilíu og síðast Kanada og Bandaríkin. Mig fýsti þó að leita gæfunnar í útlöndum, og óáran og missindisstjórn hertu á útfararlönguninni. Jón Ólafsson var þá meðal annars að gefa út „ Baldur“ og margt fleira mætti telja. Utanferð mín drógst þó ein tvö ár fyrir sérstakar ástæður, en loksins varð þó af því 1873, að eg lagði af stað frá Íslandi ásamt 9 öðrum og var ferðinni heiti til Bandaríkjanna. Ekki var kostur á öðru en seglskipum til þess að komast frá norðurlandinu, tók eg mér því fari með verzlunarskipi Örum & Wulfs frá Húsavík. Var það gamalt skip, sem nefndist Hjálmar. Skipstjóri var Sivert, alþekt sjóhetja og vanur Íslandsferðum; hafði verið í förum í mörg ár. Hjálmar átti að fara til Noregs og urðum við að hlíta því. Skipið lét í haf 1. eða 2. júní á hvítasunnudag, að mig minnir, því til Bergen komum við 12. s. m. en fyrsti lendingarstaður var þó Christianssand, þar sem við höfðum dvalið fáa daga. Höfðum bezta leiði og skamma útivist. Vindur stóð af landi þegar við létum í haf frá Húsavík og lá moldviðrismökkur yfir Sléttunni og Langanesinu; var það hið síðasta, sem eg sá af landinu í það skifti. Fjallasýn var engin fyrir rykmekkinum. Í Bergen skiftum við peningum og fleira. Gufuskipið, sem við fórum með, tilheyrði norsku félagi, enda voru á skipinu 5 eða 6 hundruð Norðmenn, alt útflytjendur til Bandaríkjanna. Á Atlantshafi vorum við 14 daga og lentum í New York 26. júlí. Inn á höfnina komum við um hánótt, og vöknuðu þá margir þegar er skipið lagðist; gat eg þá séð lengd borgarinnar strandlengis, sem öll var sett rafmagnsljósum. Næsta morgun fórum við inn á Castle Garden, keyptum þar farbréf og lögðum af stað degi síðar vestur í þetta stóra land, ókunnugir með öllu bæði stöðum og landsháttum. Hraðfrétt hafði eg þó sent Jónasi Jónssyni, sem nú er í Winnipeg, og ætlaðist til að hann mætti okkur á vagnstöðvunum í Milwaukee. Hraðfrétt þessi barst Jónasi daginn eftir að við komum þangað. Þegar er lestin var að renna inn á vagnstöovarnar í Chicago, þyrptust að lestinni hópar af skríl með ópi og óhljóðum, og var eg ekki sérlega hrifinn af þeirri kveðju; gefur það manni dálitla hugmynd um alt það mannfélags sorp, sem lifir í Chicago, og það jafnvel enn þann dag í dag. Til Milwaukee kom eg 4. júlí og leizt mér ekki vel á skothríðina, heyrði þó bráðum hvernig á henni stóð; náði þó með heilu og höldnu í gistihús þar sem eg mætti þegar nokkrum löndum, er flestir höfðu komið til bæjarins árið áður. Eftir að hafa hvílt mig fáa daga, réðst eg í vinnu hjá írskum bónda; eitthvað vann eg þó áður í húsbúnaðar verksmiðju, og um haustið réðst eg hjá öðrum bónda til vistar yfir veturinn, en um vorið 1874 hvarf eg aftur til Milwaukee, sem um þá daga var eins og heimili mitt, af því að þar héldu til nokkrir Íslendingar, eins og áður er sagt. Nokkru eftir að eg kom til Milwaukee, um sumarið, var farið að tala um landaleitir, því flestir landar vildu verða óðalsbændur, ef þess væri kostur; var því skotið á fundi til að ræða landtökumál. Meðal annarra voru á þeim fundi : síra Páll heitinn Þorláksson, Jón Halldórsson frá Stóruvöllum, Árni Sigvaldason, Ólafur Ólafsson frá Espihóli, Sigurður Kristopherson o. fl. Var á þessum fundi áfráðið að eg færi, ásamt öðrum manni, að grenslast eftir landnámi fyrir Íslendinga. Ferðaðist eg þá yfir ríkin Iowa og Nebraska, og gat eg stansað hvar sem vera vildi, þessi ferð varð þó að mestu árangurslaus, því alt land var upp tekið í þessum ríkjum, nema járnbrautarlönd. Samferðamaður minn, Jón Halldórsson, og eg festum þó kaup á landi sem við síðar sleptum. Þetta sumar vann eg hjá bændum við uppskeru, og þótti mér sú vinna erfið.
Íslandsför: Um haustið, 16. október, lagði eg af stað heim til Íslands. Fór eg þá um Quebec og þaðan til Skotlands; þurfti að bíða á aðra viku í Leith eftir póstskipinu, sem fara átti til Reykjavíkur. Í Reykjavík beið eg þangað til norðanpóstur lagði af stað, 3. desember 1874, og náði eg alla leið heim rétt fyrir jólin; var eg þá búinn aò vera burtu hér um bil 1 ár og 7 mánuði. Af þeinn tíma hafði eg dvalið 15 mánuði í Bandaríkjunum, en hitt af tímanum gekk til ferðarinnar fram og aftur. Í þetta skifti var þó dvölin á Grenjaðarstað ekki langvinn, en í sambandi við hana skal eg þó geta þess, að það var eitt af verkum mínum heima að vefa. Var þar sem víða annarstaðar í Þingeyjarsýslu vönduð mjög öll dúkagjörð, og vakti það mig til að þýða stutta, danska Litunarbók, kom hún út á Akureyri árið 1877 og hafòi hún þá verið notuð nokkur ár af Ingibjörgu systur minni. Sumarið 1876, þann 29. júlí, gekk eg að eiga jungfrú Guðrúnu E. Benediktsdóttur frá Múla, og hið sama sumar fluttist eg að Múla og tók næsta ár við búi tengdaföður míns. Bjó eg þar þangað til árið 1882; þá fluttist eg ásamt konu og þremur börnum austur á Seyðisfjörð. Til þess að komast þangað þurfti eg að bíða fram undir haust á Akureyri, því hafísinn fylti þá alla firði og þokur voru á hverjum degi í heilan mánuð eða meir. Bjargarskortur var á víða og fleiri ókostir, sem fylgja reglulegri óáran eins og þá átti sér stað. Eftir rúmra fjögra ára dvöl á Seyðisfìrði, réð eg af um veturinn 1886 að flytjast í annað sinn til Ameríku, og hafði eg þá komist í samband við Anchor- línufélagið, með því að útvega félaginu nokkra vesturfara, svo samferðamenn mínir urðu um 40 mnns. Sameinaða fjelagið flutti hópinn til Skotlands og Laura lagði af stað frá Seyðisfirði 12. júlí og hélt til Granton, en þaðan fórum við til Glasgow og biðum þar eina 5 daga; kom öllum sú dvöl vel eftir ferðina frá İslandi. Frá Glasgow fórum við 5. júlí til Liverpool og svo þaðan beint til New York. Þar skildist nú að ferðamannahópurinn, því allir samferðamenn mínir fóru þaðan til Kanada, en eg hélt áfram vestur eftir Bandaríkjunum.
Nebraska – Minnesota: Tìl Long Pine í Nebraska komum við loks 6. ágúst, eftir næstum mánaðar mjög svo þreytandi ferð. Í Long Pine (mjög lítið þorp) hitti ég strax fornvin minn og leikbróður, Jón Halldórsson því eg hafði ákveðið, áður en eg fór af Íslandi, að setjast að nálægt honum og öðru fólki, er eg þekti þar. Um landgæði vissi eg lítið eða ekki neitt. Fyrsta veturinn dvaldi eg hjá Jóni Kristjánssynini, hálfbróður Jóns, sem áður er nefndur. Þegar um haustið tók eg út rétt á 160 ekrum af stjórnarlandi, og öðrum 160 ekrum, sem eg fekk með tveim skilmálum að planta á því 10 ekrur af trjám. Í sama mund tók eg líka mitt fyrsta borgara-bréf. (Afsalaði sér íslenskum ríkisborgararétti og gerðist bandaríslur þegn:innskot JÞ) Um vorið 1887 fluttist eg á landið, eftir að eg hafõi bygt á því hús úr hnausum; var það skjólgott og ekki mjög heitt á sumrum. Í þessum moldarkofa lifði eg svo í 5 ár, gjörði allar þær umbætur á löndunum, sem lögin kröfðu, en af því að jarðvegur var ekki góður, hæðóttur og sendinn og langt var fyrir börnin í skóla, sem líka var léleg kensla í, sá eg að þetta gat ekki orðið mitt framtíðar heimili, svo eg afréð að flytja til Minnesota, með því eg var líka þá búinn að fá fullan rétt á löndunum og gat farið hvert sem eg vildi. Eftir að hafa spurt mig fyrir hjá manni, sem eg þá ekki þekti, Leifi Hrútfjörð (Þetta mun vera Þorleifur Guðmundsson f. í Dalasýslu 16. október, 1853, d. í Duluth 9. maí, 1932: Innskot JÞ) að Baldur í Manitoba réð eg af að flytja til Duluth, þar sem eg hefi lifað síðan, og kom eg þangað seint í apríl 1892. Börnin 3 byrjuðu nú strax fyrsta haustið að ganga á alþýðuskólann og svo á lýðháskólann (High school) í 4 ár. Þau luku námi í þessum skólum og eitt þeirra í ríkisháskólanum. Í endalok vertíðar eru nú börnin mín orðin 5, 4 stúlkur og 1 drengur (ekkert dáið), og þau tvö sem bættust við í þessu landi, hafa nú Iokið sama námi og hin þó er nú það yngsta enn í lýðháskólanum hér í bænum. Ein af dætrunum og svo drengurinn, eins og áður er sagt, hafa tekið próf frá ríkisháskóla. Tvær stúlkur kenna hér í alþýðuskóla í bænum, en sonur minn vinnur í bókhlöðu í Washington D. C. Ein dóttir mín er gift Baldri Benediktssyni og búa vestur á Kyrrahafsströnd; hafði hún áður verið kennari í nokkur ár. Í þessum fáu síðustu línum er nú uppskeran talin, eftir alt stritið, og er ekki mitt að dæma um það, hvernig hún hefir orðið, en svo mikið er víst, að eg hefi aldrei iðrast eftir að hafa fluzt til þessa lands, og efast mjög um, að árangurinn hefði orðið meiri á mínu kæra föðurlandi, Íslandi. Til verðugrar minningar um konu mína, sem dó síðastliðinn vetur (27. janúar, 1913), skal þess getið, að hún átti mestan þátt í uppeldi barnanna. Sjálf hafði hún haft allgott uppeldi í föðurgarði bæði til munns og handa, og á iðnaðarsýningu, sem stóð yfir í Reykjavík árið 1883, hlaut hún verðlaunapening fyrir útsaum, er þar var sýndur. Ritað í októbermánuði 1913 Sigfús Magnússon
Þorleifur Jóakimsson leitaði víða fanga þegar hann safnaði efni í rit sín. Ljóst að honum hafa borist íslensk fréttablöð en þau voru dugleg að birta bréf frá íslenskum landnámsmönnum í Vesturheimi á Vesturfaratímabilinu 1855-1914. Í Frá Austri til Vesturs, sem kom út árið 1921 er að finna brot úr bréfi Sigfúsar Magnússonar sem ritað var í Nebraska árið 1874. Sama ár höfðu fáeinir Íslendingar samankomnir í Milwaukee kallað saman fund þar í borg til að stofna félag sem annast átti leit að hentugu nýlendusvæði fyrir íslenska vesturfara sem komnir voru til Vesturheims. Fundinn sátu Páll Þorláksson, Ólafur Ólafsson, Sigfús Magnússon, Jón Halldórsson, Sigurður Kristófersson og Árni Sigvaldason. Var þá afráðið, að senda Sigfús í landaleit til Iowa og Nebraska en einhverjar hugmyndir höfðu þeir um þessi ríki því Torfi Bjarnason síðar skólastjóri í Ólafsdal ferðaðist þar um haustið árið áður og lýsti landi þar um slóðir fyrir Íslendingum í Milwaukee. Fundurinn bauð Sigfúsi að kjósa mann sér til samfylgdar og valdi hann Jón Halldórsson. En skoðum glefsu úr bréfi Sigfúsar: (JÞ)
,,Úr bréfi S. M., 14. Júní, 1874.
Lancaster P.O., Nebraska
Sama daginn og eg endaði brefin heim síðast, 5. maí, fórum við Jón Halldórsson af stað frá Milwaukee og komum til Chicago kl.5 e.m. sama dag; gengum við beina leið frá vagnstöðvunum til landsöluskrifstofu Burlington and Missouri járnbrautarfélagsins og keyptum þar landskoðunar vegabréf. Eftir þeim getur maður staðið við og skoðað land hvar sem maður vill á leiðinni, og þar eð félagið gefur næstum ókeypis ferð hingað til Nebraska, lætur það þessi vegabréf gilda sem borgun upp í hina fyrstu leigu sem borguð er um leið og landið er keypt; en kaupi maður ekki land af þessu félagi, fær hann ekki ferðina borgaða. Vegabréf okkar Jóns kostuðu hvort um sig 25 doll. 25 cents og giltu til Lincoln höfuðstaðarins í Nebraska; eru þar enn ekki nema 1245 íbúar. Lincoln er héðan frá landinu, sem eg keypti, 20 mílur í norður. Frá Chicago fórum við aftur af stað kl. 10 um kvöldið 5. maí og komum til Burlington í ríkinu Iowa klukkan 8 morguninn eftir, 6. maí. Höfðu þá vagnarnir hrist okkur hálfsofandi í 10 kl.-stundir, svo okkur var orðið mál á hressingu. Eftir það gegngum við inn á landskrifstofu, skoðuðum landabréf og spurðum um alt, sem okkur datt í hug. Þann sjöunda maí kl. 5 og hálf f.m. komum við til Villisca, sem er lítið þorp í Iowa, fórum þaðan fótgangandi sex mílur í norðvestur til að skoða land, sem boðið var til sölu; var það hálend slétta, fyrir 11 til 17 dollara ekran. Ekki leist okkur á þetta land, sem var of þurt og hátt. Eg gleymdi að segja þér frá brúnni yfir Mississippi fljótið rétt hjá Burlington; voru vagnarnir fleiri mínútur að renna yfir hana, enda fóru þeir ekki hraðar en maður gengur. Brúin er svo ramgjör, að fáir geta ímyndað sér það. Undir henni eru afar stórir stampar þríhyntir og snýr eitt hornið í strauminn; þeir eru fullir af grjóti. Eftir eins dags dvöl í Villisca fórum við þaðan 8. maí og komum til Missouri-fljótsins kl. 9 f.m.; var þar til að taka svo stórt gufutröll, að það tók tvo vagna fulla af fólki og rann með þá yfir um; tók þá annað tröllið við og dróg þá áfram. Var það skrítið að sigla á vatni og vera þó í gufuvagni. Kl 10 komum við til Plattenmouth, sem er lítill bær vestan við Missouri-fljót, allskamt þaðan sem Laplatte áin rennur í það. Bærinn stendur í kvos upp frá fljótinu, sem brattar skógivaxnar hlíðar liggja að og sumstaðat klettar. Fljótið er breitt, með sandeyrum, sem alt af eru að breytast, og sitja skipin oft föst á þeim. Í Plattemouth töfðum við í klukkustund, og fórum þaðan með brautinni, sem liggur eftir vesturbakka La Platte. Til Lincoln komum við kl. 4 eftir miðdag 9. maí, þar dvöldum við til hins 12. og vorum að bíða eftir bréfi frá Lárusi Bjarnasyni bróður Torfa, en máttum þó fara frá Lincoln áður en það kom til Salthills. Þar skoðuðum við land og sáum land Torfa, sem búið var að sá hveiti í, héldum áfram þaðan samt gangandi og til Firth, vorum þar um nóttina og löbbuðum enn af stað til að hitta Lárus, þar til við fundum hann. Hjá húsbónda hans vorum við tvær nætur, vorum við þá alt af að ganga og litast um eftir landi og fundum loksins það er okkur líkaði; Það er 4 mílur frá vagnstövunum í Firth; kostar ekran 7 og 8 dollars. Nú eigum við á hverjum degi von á Ólafi Ólafssyni, sem víst ætlar að taka land í sömu “section“ og við, því hér er sannarlega fallegt land, ef nóg væri efni til að gjöra umbætur á því. Eftir alt þetta flakk fórum við Jón að vista okkur. Vistaðist eg hjá þýzkum karli í sjö mánuði frá 10. maí til 10. desember, fyrir 18 dollara um mánuðinn. Mér fellur hér vel, nema hvað eg heyri lítið af ensku, því hér er töluð mest lág-þýzka, en eg reyni ekki að tala annað en ensku. Þegar við Jón komum hingað eftir fimm daga ferð yfir meir en 100 hnattmílur, eða 20 þingmannaleiða langan veg auk allra smákróka, frá Milwaukee, var skógur hér orðinn alllaufgaður, en sást ekki vottur fyrir lauf á trjánum í Wisconsin; öllu var hér búið að sá og margir búnir að planta maís, svo eg vildi ekki kosta til að reyna að setja korn í mitt land, ef það yrði ekki fullvaxið í uppskerutímanum; en eg ætla að láta brjóta á því, sem kostar 3 doll. og 50 cent fyrir ekruna. Síðan eg kom hingað hef eg verið vel hraustur, og finst mér þó sumir dagar eins heitir og þegar heitast var í Milwaukee í fyrra, og þó hitnar enn fram úr þessu. Eg er samt ekkert hræddur við það. Vatn er hér svo gott, að þó eg þambaði mikið af því, verður mér ekkert meint af því, en í Wisconsin mátti eg það ekki, því þá var mér ilt í maganum. Loftslag hér held eg sé ágætt; sunnan og suðvestan vindar svala hér oft í hitanum: þrumur, eldingar og steypuskúrir hreinsa hér nú loftið einu sinni, tvisvar og þrisvar í viku, svo grasið þýtur upp. Nærfelt á hverju kvöldi má sjá hér “sléttuelda“, því hver brennir á sínu landi. Hver bóndi plægir í kringum land sitt 16 álna (2 “rods) breiða ræmu, til að halda eldinum frá húsi sínu. Þó verða hér oft skaðar af eldum þessum.“